18.10.2007 | 00:29
Skýrsla um ferðalag
Sex flugferðir með fjórum flugfélögum á tveimur vikum gaf gott tækifæri til að bera saman bandarísk flugfélög bæði innbyrðis og við Flugleiðir. Flugfélögin sem flogið var með voru þessi: Flugleiðir, Northwest, Delta og Jet Blue. Án nokkurs vafa er Jet Blue það flugfélag sem best stendur sig í þessum hópi. Delta og Icelandair eru slökust. Northwest sinnti hlutverki sínu en ekkert meira en það. Áberandi var að bil milli sæta bandarísku félaganna var miklu meira en hjá Flugleiðum. Sem dæmi um það má nefna að barnabílstóll sonar okkar komst ekki fyrir í sæti Flugleiðavélarinnar ef farþeginn á móti hallaði sér aftur, en í vél Delta var hægt að ganga framhjá stólnum í sætinu. Svo ég haldi nú áfram að hallmæla Flugleiðum var ótrúlegt sinnuleysi gagnvart sjónvarpsefninu. Það var spóla sett af stað og hún spiluð með stórkostlegum truflunum alla leiðina, nánast ekki hægt að greina hvað var að gerast á skjánum. Svo þegar spólan var búin var að sjálfsögðu hraðspólað til baka fyrir framan alla farþegana. Af viðmóti starfsfólksins um borð virðist ekki góður andi í hópnum.
Ég velti fyrir mér þegar ég flaug með Jet Blue, hvort forsvarsmenn Flugleiða hefðu kynnt sér vöru þeirra. Jet Blue er almennilegt flugfélag. Sætin eru rúmgóð og nægt pláss fyrir fæturna, það er enginn sagaklassi og það sem stendur upp úr er að hvert sæti hefur sitt sjónvarp með fjölrása gervihnattasambandi sem þýddi að ég gat fylgst með fréttum af líðandi stund (sem reyndist vera skotárás í skóla) eða horft á hóp af innanhússhönnuðum breyta íbúðum fólks úr hörmulegum í ömurlegar. Gervihnattaútvarp er einnig í boði sem og bíómyndir gegn greiðslu. Þetta gerir það að verkum að löng flug líða hraðar. Ég veit ekki hvort það er rétt, en Jet Blue auglýsir með miklu stolti að það njóti mestrar viðskiptavildar meðal flugfélaga þar um slóðir. Matur um borð var ómerkilegur, en ekkert var selt, maður gat troðið í sig eins miklu af snakki og magamál leyfði og fengið eins mikið vatn og vömbin þoldi. Rúsínan í pylsuendanum varðandi Jet Blue er flugvöllurinn á Langasandi. Aðra eins snilld hef ég aldrei séð. Flugstöðin er í húsi frá fyrri hluta 20. aldar og er í upprunalegu horfi. Hún er agnarsmá miðað við völundarhús stærri flugvalla og afar auðveld yfirferðar. Það er margra ríksdala virði að komast á skammri stund um flugstöðvarbyggingu. Og að koma þarna inn var stórkostlegt, eins og að lenda í tímagati. Glæsilegur arkitektúr fjórða áratugarins blasti hvarvetna við. Forvitnir geta lesið meira um Long Beach flugvöll hér.
Talandi um flugstöðvar, Flugstöð Leifs Eiríkssonar er að mér sýnist verulega misheppnuð. Það er eins og hönnuðir hennar hafi fundist alveg nauðsynlegt að gera flugstöðina jafn niðurdrepandi og flugstöðvar á erlendum risaflugvöllum. Það var óþarfi, Keflavíkurflugvöllur er lítill flugvöllur. Það var engin ástæða að bæta við nýrri flugstöðvarbyggingu við endann á gamla rananum út í flugvélarnar. Eðlilegra hefði verið að bæta við öðrum rana út úr gömlu stöðinni (sem nóta bene, var gamaldags daginn sem hún var opnuð). Auk þess er ekki að sjá að verslanir og veitingahús láti viðskiptavini njóta þess að svæðið er skattfrjálst.
Þegar við komum heim, eftir flugið frá Boston með tilheyrandi vopnaleit með öryggishliðum og gegnumlýsingartækjum tók við ný öryggisleit með öryggishliðum og gegnumlýsingartækjum. Hvurslags dómadagsvitleysa er það að senda farþega sem nýkomnir eru úr flugvél í gegnum sprengjuleit? Halda þeir etv. að farþegarnir hafi á einhvern dularfullan hátt náð að útbúa sprengju um borð í vélinni og ætli að sprengja hana í flugstöðinni? Ef þetta er ekki skipulagsklúður þá veit ég ekki hvað. Gat stjórn stöðvarinnar ekki komið því þannig við að farþegar sem eru að koma til landsins geti gengið óáreittir í vegabréfsskoðun? Það er amk. ljóst að flugstöðin, ólíkt öðrum flugstöðvum, getur ekki tryggt að utanaðkomandi blandist ekki í hóp komufarþega. Það hlýtur að vera skýringin á vopnaleitinni í þessu nýhannaða húsi. Sá sem ber ábyrgðina á þessu klúðri fær kaldar kveðjur frá mér.
Niðurstaða skýrslunnar: Of stutt bil milli sæta í vélum Flugleiða (ísl. þýð. á Icelandair), reynið að sneiða hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sneiðið alls ekki hjá flugstöðinni á Langasandi og fljúgið tvímælalaust með Jet Blue.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.