Leita í fréttum mbl.is

Dýr er dropinn

Sem ég sit í stofunni og horfi á sjónvarpið að morgni þessa fagra laugardags verður mér hugsað til þeirrar fréttar og umræðna að áfengi sé 126% dýrara á Íslandi en í Evrópusambandinu að meðaltali.

Öl er böl og möl er möl, segir máltækið, en einkasala ríkisins á áfengi og skattlagning hefur ávallt verið undir þeim formerkjum að takmarka neysluna. Þrátt fyrir það hefur neysla og böl af völdum áfengis á Íslandi ekki verið minna en annars staðar þar sem sopinn er ódýrari og jafnvel miklu ódýrari. Þau formerki eru marklaus. Að selja vín í sérstökum búðum til að hindra aðgengi er að sama skapi marklaust. Hátt verð og vont aðgengi hafa sem sagt ekkert að segja.

Þrátt fyrir það er ekki vikið af þessari braut og skatturinn lækkaður og frelsi í sölu aukið. Hvers vegna? Jú svarið er vitaskuld það að mikil völd felast í því að hafa vinsæla neysluvöru undir sinni stjórn. Einstaklingur eða einkafyrirtæki sem næði fótfestu á markaði með sölu á víni væri fljótt með umtalsverð völd.

Stjórnmálamenn á fyrri hluta 20. aldar vildu að tekjurnar og völdin væru hjá þeim, ríkinu, en ekki út á hinum hryllilega frjálsa markaði. Til að sannfæra þing og þjóð um að salan ætti að vera á vegum ríkisins var búin til röksemdin sem fyrr er getið. Röksemdin var fyrirsláttur frá upphafi. Þar sem ríkið hafði gríðarlegar tekjur af vínsölunni, orðið alkóhólisti ef svo má segja, var enginn vilji hjá stjórnmálamönnum til breytinga. Nú er öldin önnur því aukið frelsi á mörgum sviðum hefur aukið tekjur ríkisins gríðarlega. Þótt það væri tekið af spenanum myndi það ekki fá nein teljandi fráhvarfseinkenni.

Raunar má fullyrða með góðum rökum að hátt verð á áfengi hafi í raun haft slæm áhrif en ekki góð. Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér fátæka barnmarga fjölskyldu þar sem t.d. faðirinn er áfengissjúkur. Ekkert stöðvar hann í að fjárfesta í áfengi, hvort sem það er dýrt eða ódýrt eða í sérstakri búð fjarri heimili hans. Því meira sem vínið kostar, því minna er til skiptanna fyrir börnin. Móðirin ætti auðveldara með að umbera áfengissýki föðurins ef hún hefði a.m.k. fé til brýnustu nauðsynja fyrir börnin.

Annað sem hátt áfengisverð hefur í för með sér er heimabruggun og sókn í áfenga vökva (t.d. tréspíra) sem ekki eru hæfir til drykkju. Margir hafa dáið og misst heilsuna (t.d. sjónina) vegna þess.

Mörgum fjölskyldum þessa lands hefur verið fórnað á altari valda- og fégræðgi ríkisins. Að mínum dómi er kominn tími til að innleiða frelsi í áfengismálum á Íslandi. Hófleg skattlagning á áfengi mætti renna til forvarna og meðferðarstofnana.

Eitt slagorð forvarna gæti verið þetta: Þú berð ábyrgð á þér, ekki ríkið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband