Leita í fréttum mbl.is

Alice Sebold biður manninn sem nauðgaði henni ekki afsökunar

Alice Sebold er rithöfundur sem getið hefur sér gott orð fyrir bækurnar Lucky (1999) og Lovely Bones (2002). Sú fyrrnefnda er sjálfsævisaga sem fjallar um nauðgun sem hún varð fyrir þegar hún var 18 ára gömul 1981 og framgang réttvísinnar í kjölfarið. Lucky kom Alice á kortið sem rithöfundi. Maður að nafni Anthony Broadwater var dæmdur fyrir að hafa nauðgað henni og eyddi 16 árum í fangelsi og 23 árum þar á eftir á lista yfir kynferðisglæpamenn.

En nú hefur Anthony Broadwater verið hreinsaður af glæpnum. Hann var ekki sá sem nauðgaði Alice Sebold. Dómstóll í New York komst að þeirri niðurstöðu 22. nóvember sl. Ástæðan fyrir því að málið var tekið upp að nýju var sú að til stóð að framleiða kvikmynd byggða á Lucky. Einn af framleiðendum myndarinnar, Timothy Mucciante að nafni, tók eftir að það var misræmi milli kvikmyndahandritsins og bókarinnar. Timothy grunaði að maðkur væri í mysunni og réð sjálfstæðan rannsóknaraðila til að fara betur í saumana á sönnunargögnunum gegn Anthony. Grunur Timothy reyndist á rökum reistur. 

Viku og degi betur eftir að Anthony var sýknaður sendi Alice frá sér tilkynningu þar sem hún biður Anthony afsökunar. Hún hafði varið þessari rúmu viku í að klóra sér í höfðinu yfir þessari óvæntu vendingu í málinu. „Ég mun halda áfram að klóra mér í höfðinu yfir mínum þætti innan kerfis sem dæmdi saklausan mann í fangelsi.“

Hennar þáttur var sá að það var hún sjálf sem bar (ranglega, við vitum það nú) kennsl á meintan nauðgara sinn í réttarsalnum. „Fyrir mörgum árum,“ skrifaði Alice, „var ég 18 ára fórnarlamb nauðgunar sem lagði traust mitt á réttarkerfi Bandaríkjanna. Markmið mitt var að réttlætið næði fram að ganga – ekki óréttlætið. Fyrir fjörutíu árum bættist Anthony í hóp þeldökkra fórnarlamba meingallaðs réttarkerfis okkar. Ég mun ætíð vera sorgmædd yfir hvað hann þurfti að ganga í gegnum.“ 

Þessa „afsökunarbeiðni“ Alice verður að setja í gæsalappir vegna þess að hún biðst ekki afsökunar á sínum þætti heldur kennir réttarkerfinu um. Það var hún sem bar „kennsl“ á Anthony og fullyrti eiðsvarin fyrir rétti að hann væri nauðgarinn. „Meingallaða réttarkerfið“ gerði þau mistök að trúa henni sjálfri; lögreglan, saksóknarinn og kviðdómurinn. Sá sem ber mesta ábyrgð á þessu ömurlega óréttlæti sem Anthony var beittur er enginn annar en Alice Sebold.

 

Anthony Broadway var ekki heppinn þegar hann var dæmdur saklaus fyrir nauðgun

Mig grunar að Alice hafi alla tíð vitað innst inni að Anthony framdi ekki glæpinn. Það var henni einhvers konar friðþæging að einhver sæti inni fyrir glæpinn gegn henni þótt það væri ekki sá seki. Hún væri ekki á flótta undan ábyrgðinni ef hún hefði trúað í raun og veru að Anthony væri sekur.

Ólán Anthony var að hafa fyrir tilviljun mætt Alice á götu einhverjum mánuðum eftir að henni var nauðgað. Hún þóttist þekkja þar nauðgara sinn. Það gerði hún þrátt fyrir að skissa af nauðgaranum sem lögreglan setti saman eftir hennar lýsingu væri ekkert lík Anthony. Enn fremur bar hún ekki kennsl á Anthony við uppstillingu hjá lögreglu, heldur benti á annan mann (það var einmitt þetta atriði sem Timothy hnaut um í bókinni).

Halda má fram að saksóknarinn beri nokkra sök fyrir að hafa verið svona auðtrúa. Þó er ekki er hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Alice sjálf ber mesta ábyrgð á hvernig fór. Réttarkerfið er vitaskuld ekki betra en aðilarnir sem í því eru, þar með taldir vitni, fórnarlömb, saksóknarar og verjendur. Fyrir þessi mistök Alice Sebold var líf Anthony Broadwaters lagt í rúst. Og til að kóróna óréttlætið græddist Alice mikið fé á sölu bókarinnar (yfir milljón eintaka seldist) sem núna er komið í ljós að var skrifuð á fölskum forsendum. Útgefandinn hefur hætt dreifingu bókarinnar. Hún fer ekki á markað á ný óbreytt.

Ég held að það blasi við af þessu máli að krafan um að öllum konum skuli trúað skilyrðislaust er í besta falli vafasöm.

Ég veit ekki hvernig framleiðslu kvikmyndarinnar líður. Ljóst er þó að ef kvikmyndin verður gerð mun hún ekki fylgja bókinni eftir í einu og öllu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband