8.11.2012 | 20:02
Ferð höfundarins 2. útg. komin út
Ferð höfundarins 2. útgáfa eftir Christopher Vogler er komin út á íslensku.
Það eru 150 bls. af nýju efni í þessari útgáfu, meðal annars greinar um kvikmyndirnar Titanic, Reyfara, Með fullri reisn og Stjörnustríðsbálkinn, og ritgerðir um kaþarsis, póla og Rumputusk eða Hrossabrest eins og hann hét í gamla daga. Rumputuski kemur við sögu í kafla sem heitir Sögur eru lifandi verur. Rumputuski hjálpaði, eins og frægt er orðið, stúlku að spinna gull úr stráum svo hún yrði ekki höfðinu styttri. Í laun vildi hann lítilræði; fyrsta barn hennar. Stóð hún við samninginn?
Kaflinn Viska líkamans er einkar áhugaverður. Líffærin bregðast við sögum og þau viðbrögð eru engin látalæti eða misskilningur og síst af öllu gáfumannsleg sem er næsti bær við misskilning eða eitthvað þaðan af verra. Hrollur sem hríslast um líkamann eða kökkur í hálsinum eru óvéfengjanleg skilaboð um að saga sé góð, eða að minnsta kosti áhrifarík.
Bókin er í handhægu kiljuformi og er prýdd fjölda ljósmynda úr kvikmyndum sem varpa ljósi á viðfangsefnið. Kaflarnir eru skreyttir ákaflega fallegum goðsögulegum teikningum eftir listakonuna Michele Montez, en hún lést fyrir aldur fram úr brjóstakrabbameini. Teikningar Michele eru og í ensku útgáfunni.
Eins og margir þekkja er Ferð höfundarins dregin af verkum goðsögufræðingsins Josephs Campbell. Hún sýnir hvaða aðferðum sagnaþulir á borð við Steven Spielberg og George Lucas hafa beitt við að semja sögur, hvernig kvikmyndir þeirra endurspegla goðsögulegan arf sem borist hefur milli kynslóða frá upphafi vega.
Bókin er afar hagnýt þeim sem fást við ritsmíðar og unna góðum sögum og kvikmyndum. Hún afhjúpar hið dulda mynstur sem býr í goðsögunum, mynstur sem varpar ljósi á líkamsbyggingu mannssálarinnar.
Bókin sýnir rithöfundum og kvikmyndagerðarmönnum hvernig söguþráður er byggður upp og við hvaða aðstæður persónur bera grímur stofngerðanna, til dæmis fórnarlambsins eða elskhugans. Tekinn er fjöldi dæma úr kvikmyndum, meðal annars norrænum.
Frá því fyrsta útgáfan kom út 1997, hef ég öðru hvoru frétt af fólki sem tekið hefur ástfóstri við bókina og jafnvel haft hana langtímum saman í pússi sínu eins og farsíma eða húslykla. Það er ánægjulegt. Ég vona svo sannarlega að þessi nýja útgáfa falli í kramið hjá lesendum, ekki síst yngri kynslóðum, og að hún verði til þess að auka lífsskilning og víkka sjóndeildarhring þeirra eins og hún gerði hjá mér þegar ég var yngri og vitlausari.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:04 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.