Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Forgarðurinn in memoriam

Þessi Helvítis umræða minnti mig á þá nöpru staðreynd að það er búið að leggja Forgarðinn niður. Páfinn gerði það víst um daginn. Helvíti er eins og hús sem á að rífa en ekki er sátt um það. Þá er það gert í smám saman. Forgarðurinn tekinn, sjálft anddyrið þar sem óskírðu börnin fengu að húka. Ég skil svo sem vel að páfinn hafi viljað leggja þann leikvöll niður, því hver myndi vilja þurfa að vaða í gegn um öskrandi krakkaskara á leið sinni til Helvítis? Hvers áttu þær sálir að gjalda? Var ekki nóg að vera dæmdur til vítisvistar?

Og börnin, hvert fóru þau þegar forgarðurinn var lagður niður? Væntanlega til Helvítis. Þau eru ekki fyrr komin þangað en það á að loka Helvíti líka. Þetta er ófremdarástand sem þarf að taka á og upp á næsta kirkjuþingi.

Blessuð sé minning Forgarðs Helvítis. 


Meira um Helvíti

Ef Helvíti verður lagt niður, hvert eiga þá drullusokkarnir úr þessari hérvist að fara? Til Himnaríkis? Setur Himnaríki ekki niður við að fá alla vistmenn Helvítis inn á sig? Verður Himnaríki jafn fýsilegur kostur þá? Hvað ef blásaklaus borgari sem deyr vill ekki fara til Himnaríkis af þeim sökum? Hvaða kost á hann? Ég tel það óráð að leggja Helvíti alfarið niður. Áður en farið væri út í slíkar óafturkræfar aðgerðir má kanna hvort ekki sé hægt að skipta um kennitölu og kalla það eitthvað annað. Til dæmis Fjandaríki og lappa upp á húsgögnin og mála veggina.


Helvíti lagt niður

Ég myndi vera í stökustu vandræðum ef Helvíti væri lagt niður eins og gæti orðið í Danmörku. Mér er nefnilega tamt að segja helvítis- um alla mögulega hluti (helvítis vesen, helvítis asni osfrv). Ætli ég yrði ekki að segja fjandans- í staðinn. Ég tala nú ekki um ef farið verður með hið niðurlagða Helvíti til fjandans þar sem það jú sannarlega á heima.

 Helvíti lagt niður

Spurningin er sú hvort það Helvíti sem Danir viðurkenna, sé sama Helvíti og við viðurkennum sem hið eina sanna Helvíti. Þegar það verður búið að leggja bölvað Helvítið niður verða eftirfarandi orðaskipti án efa algeng: „Farðu til Helvítis!“ „Ég get það ekki þótt ég feginn vildi, það er búið að leggja það niður.“

Mér finnst að það ætti að taka eina kirknanna sem til stendur að leggja niður í Kaupmannahöfn og breyta í trúarsafn þar sem allt sem tengist helvíti er haft til sýnis. Mikilvægt er að varðveita menningu okkar og sögu.


Ný skrifstofa

Þessi færsla bloggsins er skrifuð á nýrri skrifstofu minni. Til hamingju með það. Þannig er mál með vexti að ég festi kaup á fasteign, ásamt nágranna mínum, sem er á jarðhæð hússins okkar. Nú er ég að prófa hljómgæðin. Ég er svolítið ósáttur við hljóminn, en það er etv. ekki að marka, það er tómlegt hér og bergmál. Ef ég gala, heyrist það óma lengi á eftir. Það á eftir að fylla hana af húsgögnum og drasli sem jafnan fylgir mér hvert sem ég fer. Ég er tónlistarunnandi sem hefur samt ekkert vit á tónlist. Get ekki án hennar verið, en kann ekki á neitt hljóðfæri. Hef verið að rifja upp skemmtilega diska sem voru í möppu sem ég greip með mér í tónprófunina. Leftfield, Leftism-plata hans er virkilega áheyrileg, þótt mér hafi alltaf þótt nafnið fráhrindandi, hægrisinni sem ég er. Það er þó enga pólitík að greina á plötunni, minnir samt að samplað hafi verið gargið „Burn Hollywood burn“ í eitthvert lagið. Hann má vera kommúnisti mín vegna, svo lengi sem hann gerir góða músík. Original er frábært. Ég veit ekki hvort ég á að hafa miðjuhátalarann tengdan. Hallast þó að því. Áðan hlustaði ég á Neneh Cherry og Youssou N'dour flytja lagið sitt 7 seconds. Mikið óskaplega er það fallegt lag. Annað lag er líka fallegt á þeirri plötu. Það heitir Woman. Ég hlakka til að stinga ljósleiðraratengjunum í hljómtækin úr tölvunni. Hlýtur að rokka sá hljómur. Keypti slíkar snúrur í dag. Voru á fínu verði í Tölvutek, miklu ódýrari en í Elko. Elko plebeijarnir virðast ná til baka afslætti í auglýsingabæklingum sínum í snúrunum. Okurverð á einhverju sem þeir kalla gold þetta og gold hitt. Amk. helmingsmunur er á hdmi tengjunum þar og í Tölvutekinu. Verandi hálf heyrnarlaus, heyri ég engan mun á 6000 króna gold-snúru og 1000 króna gúmmísnúru. Ein af mínum eftirlætis plötum til langs tíma var án efa sú sem ég er að hlusta á núna. Trip on this með Technotronic, sérstakt remix-album. Besta lagið er Rockin over the beat. Snilldartekknó. Það minnir mig á skondið atvik í dag. Það var auglýsing í útvarpinu, konan sagði: „Komið og skoðið hnakkana mína.“ Ég fór strax að hugsa um Selfoss og aflitaða, súkkulaðibrúna stráka. En konan var að meina hnakkana í einhverri hestabúðinni. Ætlaði ég að segja eitthvað meira? Ég ætlaði nú ekki að segja neitt raunar, en þó er þetta orðið langt hjá mér.

Í lokin ætla ég að búa til listaverk úr hlutunum sem eru á borðinu hjá mér, ekki ósvipað og villi vinur minn gerði við ruslið í ruslakörfu sinni um árið. Hann límdi allt sem var í ruslakörfunni á spjald, sígarettustubba, gostappa, snepla og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað var. Mér fannst listaverkið hans vera það fegursta og innihaldsríkasta sem ég hafði nokkru sinni séð. Það geislaði af hráum krafti og var um leið persónulýsing á listamanninum og bar auk þess vitni um kímnigáfu og frumleika. Því miður var listaverkinu hent (enda sá enginn listina í því nema ég). Listaverkið sem ég ætla að búa til núna er í orðum. Vonandi finnur einhver listina hríslast um sig við lesturinn: Skissubók, óopnuð. Ferð höfundarins. Poki frá Tölvuteki með hdmi snúru og ljósleiðara. Ethernet-tenglar í boxi. Brotblaðahnífur. Svartur franskur rennilás. Lítil flatkjöftutöng. Frekar lítil flatkjöftutöng. Ethernet-töng (eða CAT-5-töng, eins og Hörður frændi kallar það, sem er meira pró). Fjarstýring á magnarann, fjarstýring á geislaspilarann, Unchained með Johnny Cash (ég hlustaði á hann fyrst en það er ekki hentug tónlist til að prófa hljóm), Man með Neneh Cherry, fartölvan sem ég er að pikka á. Skúffa með RCA-tengjum. Endi á innstungulok í lagnarennu, blá fyrirlestramappa, penni, svartur franskur rennilás, grár franskur rennilás, rafmagnssnúra, straumbreytir, hátalari (miðju), hátalarasnúrur. Geisladiskamappa, geislaspilari, magnari. Plastklæddur vír til að festa saman snúruhönk.


Fylleríinu senn að ljúka

Mig grunar að mótmælafylleríinu fari senn að ljúka. Þeir sem fyllstir hafa verið og velst um dal og hól í drottins ást og friði gegn álverum og manngerðum vötnum fá nýtt viðfangsefni: Berjast gegn timburmönnunum, gera sér grein fyrir að við lifum ekki á fjallagrösum og standa við stóru orðin um náttúruvænar atvinnuskapandi hugmyndir, til dæmis á Vestfjörðum.

Eruð þér viðundr eða hvat?

Svo er hinu fylleríinu trúlega að ljúka líka, hópfylleríinu um hlýnun jarðar af mannavöldum. Skítakuldi og mikill snjór er varla merki um að komið sé að suðumarki eða hvað? Ég minnist þess ekki að hafa séð fjallgarðinn á Reykjanesi jafn hvítan. Í fréttunum á Sky um daginn var sagt að flóðin í Bretlandi í fyrrasumar hafi ekki verið af völdum alheimshlýnunar. Vonandi birtast um það fréttir á vefjum náttúruverndarsamtaka -sinna og annarra trúarhópa.

Góðar stundir. 


Sparnaðartillögur

Með lögum skal land byggjaSkýringin á hallarekstri sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli er fundin! Henni laust niður í huga mér áðan. Þegar ég kom frá Bandaríkjunum eftir ferð þar um slóðir fyrr í vetur beið eftir mér her manns sem leitaði að sprengjum og vopnum á mér og ferðafélögum mínum. Sú staðreynd að ég fór í gegnum slíka leit nokkrum klukkustundum áður í Boston virtist ekki skipta neinu máli.

Hópur tollvarða, lögreglumanna og sérsveitarmanna, ekki færri en 10 á hverri vakt í næturvinnu (komutími vélanna frá Bandaríkjunum er síðla nætur og snemma morguns) er fljótur að segja til sín í kostnaði.

Meiri sóun á fé er vandfundin, og heimskulegra fyrirkomulag er vandfundið. 

Mér skilst að ástæðan fyrir sprengju- og vopnaleitinni við komuna frá Bandaríkjunum sé sú að ferðalangar þaðan blandist öðrum ferðalöngum í Leifsstöð. Eins og það sé hættulegt. Eru þeir ekki annars líka búnir að fara í gegnum sprengju- og vopnaleit? Ef skriffinnar Shengen-svæðisins treysta ekki sprengjuleitinni í Bandaríkjunum verða þeir að ná samkomulagi við þau um leitina, senda eftirlitsmenn á staðinn í Bandaríkjunum svo koma megi í veg fyrir þessa vitleysu. 

Ég ætla nú ekki að vera lastarinn sem líkar ekki neitt heldur koma með sparnaðartillögur. Þeim ferðalöngum sem eru að koma til Íslands og ætla ekkert annað er hægt að:

A) Aka í læstri rútu að töskufæribandinu.

B) Sía frá hinum með breytingum á stöðinni.

C) Hætta þessari vitleysu strax og gera ekkert, enda skiptir leitin engu helv. máli. 

D) Setja í læst búr á hjólum og aka þeim að færibandinu.

Þeir ferðamenn sem ætla áfram:

A) Aka þeim í læstri rútu að hliðinu í Leifsstöð þar hin sprengju- og vopnaleitin er (við innganginn).

B) Aka þeim í læstu búri að fyrrgreindu hliði.

C) Handjárna þá og draga á hárinu í gegnum stöðina að fyrrgreindu hliði.

D) Ná samkomulagi við skriffinna Schengen-svæðisins um að hætta þessari þvælu. 


Þó fyrr hefði verið

Íslendingar ættu að vita það manna best hve mikilvægt það er að viðurkenna sjálfstæði lítilla þjóða lýsi þær yfir sjálfstæði á annað borð. Þetta vissu íslenskir ráðamenn þegar Eystrasaltsríkin gerðu það og var Ísland fyrst þjóða til þess.

Sjálfstæði loksins viðurkenntÞegar Kósóvó lýsir yfir sjálfstæði kemur fát og fum á utanríkisráðherrann. „Við ætluðum að vera í samfloti með norðurlöndunum“ var sagt. Svo lýsa norðurlöndin yfir stuðningi án samráðs við Ísland! „Við vildum ekki móðga Serba“ var þá sagt. Hvaða Serba? Báða Serbana sem búa á Íslandi?

Þegar hún loksins rekur af sér slyðruorðið, raggeitin, birtist það á stað við hæfi: Á blaðsíðu 6, lítil frétt neðarlega í Morgunblaðinu 5. mars 2008, 16 dögum eftir að landið lýsti sjálfstæðinu yfir (17. febrúar).

Ætli raggeitin geri sér grein fyrir að hún átti kost á að skora pólitískt mark og fá nafn sitt á forsíðuna undir stórri fyrirsögn?


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 114027

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband