Leita í fréttum mbl.is

Ný skrifstofa

Þessi færsla bloggsins er skrifuð á nýrri skrifstofu minni. Til hamingju með það. Þannig er mál með vexti að ég festi kaup á fasteign, ásamt nágranna mínum, sem er á jarðhæð hússins okkar. Nú er ég að prófa hljómgæðin. Ég er svolítið ósáttur við hljóminn, en það er etv. ekki að marka, það er tómlegt hér og bergmál. Ef ég gala, heyrist það óma lengi á eftir. Það á eftir að fylla hana af húsgögnum og drasli sem jafnan fylgir mér hvert sem ég fer. Ég er tónlistarunnandi sem hefur samt ekkert vit á tónlist. Get ekki án hennar verið, en kann ekki á neitt hljóðfæri. Hef verið að rifja upp skemmtilega diska sem voru í möppu sem ég greip með mér í tónprófunina. Leftfield, Leftism-plata hans er virkilega áheyrileg, þótt mér hafi alltaf þótt nafnið fráhrindandi, hægrisinni sem ég er. Það er þó enga pólitík að greina á plötunni, minnir samt að samplað hafi verið gargið „Burn Hollywood burn“ í eitthvert lagið. Hann má vera kommúnisti mín vegna, svo lengi sem hann gerir góða músík. Original er frábært. Ég veit ekki hvort ég á að hafa miðjuhátalarann tengdan. Hallast þó að því. Áðan hlustaði ég á Neneh Cherry og Youssou N'dour flytja lagið sitt 7 seconds. Mikið óskaplega er það fallegt lag. Annað lag er líka fallegt á þeirri plötu. Það heitir Woman. Ég hlakka til að stinga ljósleiðraratengjunum í hljómtækin úr tölvunni. Hlýtur að rokka sá hljómur. Keypti slíkar snúrur í dag. Voru á fínu verði í Tölvutek, miklu ódýrari en í Elko. Elko plebeijarnir virðast ná til baka afslætti í auglýsingabæklingum sínum í snúrunum. Okurverð á einhverju sem þeir kalla gold þetta og gold hitt. Amk. helmingsmunur er á hdmi tengjunum þar og í Tölvutekinu. Verandi hálf heyrnarlaus, heyri ég engan mun á 6000 króna gold-snúru og 1000 króna gúmmísnúru. Ein af mínum eftirlætis plötum til langs tíma var án efa sú sem ég er að hlusta á núna. Trip on this með Technotronic, sérstakt remix-album. Besta lagið er Rockin over the beat. Snilldartekknó. Það minnir mig á skondið atvik í dag. Það var auglýsing í útvarpinu, konan sagði: „Komið og skoðið hnakkana mína.“ Ég fór strax að hugsa um Selfoss og aflitaða, súkkulaðibrúna stráka. En konan var að meina hnakkana í einhverri hestabúðinni. Ætlaði ég að segja eitthvað meira? Ég ætlaði nú ekki að segja neitt raunar, en þó er þetta orðið langt hjá mér.

Í lokin ætla ég að búa til listaverk úr hlutunum sem eru á borðinu hjá mér, ekki ósvipað og villi vinur minn gerði við ruslið í ruslakörfu sinni um árið. Hann límdi allt sem var í ruslakörfunni á spjald, sígarettustubba, gostappa, snepla og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað var. Mér fannst listaverkið hans vera það fegursta og innihaldsríkasta sem ég hafði nokkru sinni séð. Það geislaði af hráum krafti og var um leið persónulýsing á listamanninum og bar auk þess vitni um kímnigáfu og frumleika. Því miður var listaverkinu hent (enda sá enginn listina í því nema ég). Listaverkið sem ég ætla að búa til núna er í orðum. Vonandi finnur einhver listina hríslast um sig við lesturinn: Skissubók, óopnuð. Ferð höfundarins. Poki frá Tölvuteki með hdmi snúru og ljósleiðara. Ethernet-tenglar í boxi. Brotblaðahnífur. Svartur franskur rennilás. Lítil flatkjöftutöng. Frekar lítil flatkjöftutöng. Ethernet-töng (eða CAT-5-töng, eins og Hörður frændi kallar það, sem er meira pró). Fjarstýring á magnarann, fjarstýring á geislaspilarann, Unchained með Johnny Cash (ég hlustaði á hann fyrst en það er ekki hentug tónlist til að prófa hljóm), Man með Neneh Cherry, fartölvan sem ég er að pikka á. Skúffa með RCA-tengjum. Endi á innstungulok í lagnarennu, blá fyrirlestramappa, penni, svartur franskur rennilás, grár franskur rennilás, rafmagnssnúra, straumbreytir, hátalari (miðju), hátalarasnúrur. Geisladiskamappa, geislaspilari, magnari. Plastklæddur vír til að festa saman snúruhönk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband