Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hvað get ég gert?

Ef þú hefur áhyggjur af hlýnun af mannavöldum skaltu ekki sitja aðgerðalaus hjá, því með því að sitja aðgerðarlaus hjá ertu um leið að skipa þér í flokk þeirra sem skella skollaeyrum við samkór vísindamanna, eru afneitunarsinnar, gera grín að Al Gore og eru handbendi olíurisa, ef ekki kapítalismans (öðru nafni Djöfulsins) í heild sinni. Hafirðu skrifað greinar í blöð eða á netið, eða gert athugasemd við bloggskrif um þetta mál, skaltu ekki láta þar við sitja. Það er nefnilega margt sem þú getur gert til að koma í veg fyrir að kúlan okkar kæra hlýni um of. Íslandi er, eins og allir vita, sérstaklega hætt við hlýnun. Það yrði bókstaflega óbyggilegt ef það hlýnaði hér um 0,7 gráður á 100 árum. Ríkið á að sjálfsögðu að skattleggja allan óþarfa lúxus í topp (að mati sérstakrar nefndar sem í væru td. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson) og setja kvóta á koltvísýringsspúandi iðnað til að hindra hlýnun. En ríkið eitt og sér getur ekki gert allt. Samstillt átak þín og ríkisins mun skila árangri. Liðið sigrar ekki nema allir leikmennirnir séu á sömu blaðsíðunni, tali saman og hvetji hver annan.

Þú getur:

1. Ekki eignast börn. Því fleiri börn, því meiri útblástur af þínum völdum.

2. Málaðu þak húss þíns hvítt sem og veggi og garð. Hvítur litur hrindir frá sér ljósi og drekkur ekki í sig hita.

3. Vertu alltaf í hvítum fötum.

4. Ekki nota flugvélar til ferðalaga. Farðu heldur með seglskútu milli staða.

5. Aktu ekki um á bíl og ekki nota strætisvagna. Strætisvagnar menga miklu meira á hvern farþega en einkabíllinn. Það er sjálfsblekking að halda að strætó sé umhverfisvænn ferðamáti. Ef þú þarf að fara eitthvað, sem er reyndar nánast öruggt að þú þarft ekki, gakktu þá eða hjólaðu.

6. Ekki borða eins og svín. Aukakílóin eru hrein mengun, þau eru ónotaður kornakur sem hefði óétinn minnkað magn koltvísýrings í andrúmsloftinu.

7. Láttu skjóta þér út í geim þegar þú drepst. Þá losarðu jörðina við mikla mengun.  

Ef lesendur hafa fleiri tillögur sem koma að gagni í baráttunni við hlýnun af skítugum mannavöldum eru þær vel þegnar.

Óskandi væri ef einhver sem hefur tíma gæti fylgst með þeim sem hvað heitastir eru í sannfæringu sinni um hlýnun af mannavöldum. Gá hvort þeir láti athafnir fylgja orðum og spili með liðinu.


Leikir manna

Fyrir nokkrum árum stofnaði ég flokk á gamla blogginu mínu (sem bilaði, forritið sem hlóð því á veraldarvefinn hætti að virka) sem hét Sýndarleikhúsið. Sýndarleikhúsið er byggt á hinni frábæru bók Games People Play eftir Eric Berne. Hann var glöggur maður og bendir á í bókinni ýmis leikrit sem leikin eru í daglegu lífi. Eitt þessara leikrita er Heimur versnandi fer. Þrátt fyrir aukna meðvitund á mörgum sviðum mannlífsins, er ekki teljandi meðvitund um Heim versnandi fer eða önnur sambærileg leikrit. Það er slæmt vegna þess að væri meiri þekking á gangverkinu að baki því myndi ekki vera fullt á hverja sýningu. Heimur versnandi fer er til dæmis ein helsta stoðin undir rekstri fjölmiðla. Þeir bókstaflega lifa á því að sviðsetja sama leikritið dag eftir dag eftir dag. Margir rithöfundar, stjórnmálamenn og kvikmyndagerðarmenn hafa hagnast vel á sviðsetningu þess. 

Stefið í leikritinu er ávalt það sama; ástand einhvers tiltekins hlutar eða fyrirbæris versnar og manninum er um að kenna. Glæpatíðni eykst, sóðaskapur eykst, eiturlyfjaneysla eykst og æ yngri stunda kynlíf osfrv. Vinsælasta uppfærslan nú um stundir er vitaskuld Heimur hlýnandi fer – af mannavöldum!

Söguþráðurinn er á þá leið að maðurinn er sóði, syndari sem skal iðrast og sýna yfirbót. Yfirbótin felst án undantekninga í kröfu um að ríkið geri eitthvað. Leikararnir sem flytja rulluna lyfta ekki litlafingri, láta ekki athafnir fylgja orðum, til að berjast gegn þeirri miklu vá sem steðjar að mannkyni að þeirra mati. Þeir tilheyra þeim hópi manna sem telja að því meira sem ríkið hafi umsjón með því betra. Þótt reynslan hafi fyrir löngu kennt að þar sem umsvif ríkisins eru minnst er velmegun mest. Í þeirra hópi eru einnig stjórnlyndir einstaklingar (nema hvort tveggja sé), einstaklingar sem telja sig vita manna best hvað öðrum er fyrir bestu og þeim einum sé treystandi til að finna lausnirnar. Og lausnin er auðvitað sú að leggja skatta, höft, á almúgann og stýra þannig kúlunni af braut glötunar.

Fjölmargir tiltölulega vel gefnir einstaklingar hafa varið ómældum tíma í aukahlutverk í leikritinu Heimur hlýnandi fer. Sprikla eins og strengjabrúður í fyrirsjáanlegri rullu sinni. 


Ákveðin samúð

Ég hef ákveðna samúð með mótmælum vörubílstjóra og tel að slík borgaraleg óhlýðni sé stundum þörf. Ríkið er nefnilega eins og hungraður úlfur sem heimtar meira og meira og refsar grimmilega þegar hann fær ekki sitt, en er grunsamlega slappur við að efna heit sín.

Skattar á ökutæki og eldsneyti eru réttlættir með því að fyrir þá eru lagðir vegir og reistar brýr. Þegar skatturinn var ákveðinn voru x margir bílar í landinu og til þess að standa undir x miklu vegakerfi var skatturinn x hár. Síðan þá fjölgaði bílum gríðarlega og einnig ferðamönnum sem ferðast um á bílum og greiða skatta af eldsneytinu. En göturnar eru ennþá sömu einbreiðu ræksnin og þrátt fyrir þessa tekjuaukningu af sköttum sem réttlættir eru sem vegafé, er ekki meira fé varið til vegaframkvæmda, amk. þar sem þeirra er þörf. Engum dettur heldur í hug að lækka skattana.

Það er ekki hægt að láta hungraða úlfinn komast upp með þessa rosalegu skattheimtu og svíkjast svo undan. Þessvegna hef ég ákveðna samúð með þeim sem rísa upp og segja: Hingað og ekki lengra.


Yfirlesnir sérfræðingar standa á gati

Kostulegt er að fylgjast með tilraunum til að stimpla efasemdarfólk um hlýnun af mannavöldum sem afneitunarsinna á borð við þá sem afneita þróunarskýringu Darwins. Aðrir stimplar sem vinsælir hafa verið  er olíustimpillinn og öfgahægristimpillinn og ef heiftin er því meiri (og sárindin og minnimáttarkenndin) barnalegar athugasemdir um að efasemdarmenn kunni ekki á hitamæli. Hróðugir benda hinir sannfærðu á að yfirlesnar greinar sem halda því fram að það hlýni af mannavöldum séu fleiri en þær yfirlesnu greinar sem halda því ekki fram. 

En frammi fyrir nokkrum spurningum sem barn er fært um að spyrja, barn sem veit ekki hvað er til hægri og hvað er til vinstri í pólitík, veit ekkert um olíufyrirtæki, hefur aldrei þegið krónu frá Essó og hefur ekki hugmynd um yfirlesnar greinar, standa allir sannfærðir vísindamenn sem og leikmannakórinn berskjaldaðir.

Hér eru spurningar barnsins:

1. Fyrst hækkandi hitastig nú er mönnum að kenna, hverju var hækkandi hitastig árið 1000 að kenna?

2. Af hverju stafaði kuldaskeiðið á 20. öld, frá 1945-1975?

Ég hef ekki fengið sannfærandi svör við þessum spurningum. Lesendum er velkomið að svara þeim í athugasemdum.

Það er rangt að mínum dómi að hafa áhyggjur af því þótt það hlýni. Miklu fleiri látast vegna kulda í heiminum en hita svo dæmi sé tekið. Fleiri myndu hafa veturinn af ef það væri hlýrra. Mannfall yrði sem sagt MINNA. Sveiflur á hitastiginu eru eðlilegar, ekki óeðlilegar.

Svo er nú eitt í viðbót sem sýnir að ekkert er að óttast, en það eru GJÖRÐIR manna. Gjörðirnar sýna best hvað raunverulega er á seiði. Enginn á Íslandi, svo dæmi sé tekið, hefur horfið frá því að byggja nánast í flæðamálinu vegna dómsdagsspánna. Enginn hefur heldur tekið sig til og málað þak húss síns hvítt til að minnka hitainntöku þess, hvað þá að mála innkeyrsluna sína hvíta. Það er vegna þess að það hefur enginn raunverulegar áhyggjur af þessu. Ekki vantar þó áróðurinn um að allt sé að fara til... ja, ég vona að ekki sé búið að leggja það niður, annars myndi ég segja Helvítis.


Dæmdur til dauða, örkumls eða líkamstjóns

Það fer ekki á milli mála að þegar undirritaðir eru samningar um að verja milljörðum af skattfé til jarðgangnagerðar á fámennum stöðum á landsbyggðinni, er jafnframt verið að undirrita dauða-, örkumls- eða líkamstjóns-dóm yfir nokkrum einstaklingum sem aka um löngu úreltar stofnæðarnar í kringum Reykjavík. Það má líta svo á að samningurinn sé í tvíriti, frumritið er glæsilegur vitnisburður um kjördæmapot, atkvæðakaup og sérhagsmuni, en afritið er dómur yfir nokkrum saklausum vegfarendum sem neyðast til að aka um vegi sem ekki eru færðir til betra horfs vegna fjárskorts.

Við höfum ekki efni á að láta þetta viðgangast öllu lengur.


mbl.is Alvarlegt umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sár aðdáandi Tinna

Frá því ég fyrst man eftir mér hefur Tinni verið vinur minn. Hann kenndi mér að lesa og hefur æ síðan glatt mitt litla hjarta. Sama hversu mörg ár ég legg að baki, alltaf hef ég jafn gaman að Tinna og félögum.

Fyrir um 20 árum gáfu einhverjir aumingjar út teiknimyndir sem gerðar voru upp úr bókunum. Ég lét glepjast og keypti seríuna af farandsölumanni í Kringlunni á raðgreiðslum. Þegar ég fór að horfa á myndirnar kom í ljós að þær voru mikill eftirbátur bókanna og það sem verst var að einn og sami leikarinn las fyrir allar persónurnar. Það hlýtur að hafa verið gert til að halda kostnaði niðri en það hélt líka gæðunum niðri.

Nú er búið að gefa út nýjar teiknimyndir byggðar á bókunum. Hvort það eru sömu teiknimyndir og áðurnefndar veit ég ekki. En mikið óskaplega særði það mig að sjá Vindla Faraós rangt stafsetta á kápunni. Það eitt og sér er nóg fyrir mig. Ég mun ekki kaupa þá, þótt auglýst sé á hulstrinu að það sé ný íslensk talsetning.

Vindlar Faraós á það að vera


Hærri skatta og öllum líður betur

Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur „samstaðan“ um hlýnun af mannavöldum yfirbragð trúarbragða. Stef sektar, iðrunar og yfirbótar. Það kallast að snúa á haus að saka þá um trúarbrögð sem voga sér að beita hyggjuviti náttúrunnar á hið flókna fyrir bæri sem náttúran er og efast um kórsöng hinna trúuðu.

Leiðtoginn sjálfur

Á myndinni sést sá Bandaríkjamaður sem er fremstur í flokki þeirra sem dæla koltvísýringi út í loftið með lífsstíl sínum. Hér er hann að faðma þann mann sem í tyllidagaræðum leggur til ráðvendni og sparsemi en fer langt út fyrir fjárheimildir embættisins sjálfur og eyðir eins og ríkiskassinn sé hans. Einhversstaðar á leiðinni hafa þessir kumpánar misst af þeim mikilvæga sannleik sem felst í þessum orðum: Ef þú vilt bæta heiminn, byrjaðu þá á sjálfum þér.


mbl.is Öfgarnar aukast segir Al Gore
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á myndina vantar

Á fundi sem haldinn var nýlega á eyjunni Madagaskar um heimsenda vegna sóðaskapar manna kom fram að ef við bætum ekki okkar ráð hið snarasta mun heimurinn farast og það fyrr en við höldum. Helstu vísindamenn Sameinuðu þjóðanna (sjá mynd) sóttu fundin ásamt tveimur mestu spámönnum heims í loftslagsfræðum, Al Gore og Ólafi R. Grímssyni.

 Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna

Mynd: Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem lagt hefur fram margar góðar skattatillögur um aðgerðir gegn hlýnun vegna manna. Frá vinstri: Dr. Rask K. Gat, Dr. Stirkur Shodum, Dr. Brundur I. Kuntz, Dr. Blaue H. Landkopf, Dr. Thom T. Unndal, Dr. Rang T. Firaser og Dr. Fals S. Pamann. Á myndina vantar Ólaf R. Grímsson og Al Gore, en þeir voru uppteknir að skoða einkaþotu þess fyrrnefnda.


Eftirlætis diskurinn

Hver hefði trúað því að diskurinn sem ég fékk í jólagjöf (áritaðan af Sigurgeiri frænda mínum) með Geir Ólafs skyldi verða eftirlætis diskur Ragnars Orra sonar míns? Trúlega enginn, en það er ótrúlegt hvað hann hefur gaman að diskinum. Hann getur hreinlega ekki hætt að leika sér með hann. Allt annað dót hverfur í skuggann af þessum einstaka diski.

Uppáhalds diskurinn


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 114028

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband