Leita í fréttum mbl.is

Yfirlesnir sérfræðingar standa á gati

Kostulegt er að fylgjast með tilraunum til að stimpla efasemdarfólk um hlýnun af mannavöldum sem afneitunarsinna á borð við þá sem afneita þróunarskýringu Darwins. Aðrir stimplar sem vinsælir hafa verið  er olíustimpillinn og öfgahægristimpillinn og ef heiftin er því meiri (og sárindin og minnimáttarkenndin) barnalegar athugasemdir um að efasemdarmenn kunni ekki á hitamæli. Hróðugir benda hinir sannfærðu á að yfirlesnar greinar sem halda því fram að það hlýni af mannavöldum séu fleiri en þær yfirlesnu greinar sem halda því ekki fram. 

En frammi fyrir nokkrum spurningum sem barn er fært um að spyrja, barn sem veit ekki hvað er til hægri og hvað er til vinstri í pólitík, veit ekkert um olíufyrirtæki, hefur aldrei þegið krónu frá Essó og hefur ekki hugmynd um yfirlesnar greinar, standa allir sannfærðir vísindamenn sem og leikmannakórinn berskjaldaðir.

Hér eru spurningar barnsins:

1. Fyrst hækkandi hitastig nú er mönnum að kenna, hverju var hækkandi hitastig árið 1000 að kenna?

2. Af hverju stafaði kuldaskeiðið á 20. öld, frá 1945-1975?

Ég hef ekki fengið sannfærandi svör við þessum spurningum. Lesendum er velkomið að svara þeim í athugasemdum.

Það er rangt að mínum dómi að hafa áhyggjur af því þótt það hlýni. Miklu fleiri látast vegna kulda í heiminum en hita svo dæmi sé tekið. Fleiri myndu hafa veturinn af ef það væri hlýrra. Mannfall yrði sem sagt MINNA. Sveiflur á hitastiginu eru eðlilegar, ekki óeðlilegar.

Svo er nú eitt í viðbót sem sýnir að ekkert er að óttast, en það eru GJÖRÐIR manna. Gjörðirnar sýna best hvað raunverulega er á seiði. Enginn á Íslandi, svo dæmi sé tekið, hefur horfið frá því að byggja nánast í flæðamálinu vegna dómsdagsspánna. Enginn hefur heldur tekið sig til og málað þak húss síns hvítt til að minnka hitainntöku þess, hvað þá að mála innkeyrsluna sína hvíta. Það er vegna þess að það hefur enginn raunverulegar áhyggjur af þessu. Ekki vantar þó áróðurinn um að allt sé að fara til... ja, ég vona að ekki sé búið að leggja það niður, annars myndi ég segja Helvítis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

"Þegar George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hóf stríðið gegn hryðjuverkum á sínum tíma voru skilaboð hans til umheimsins þau að þeir sem ekki fylgdu honum að málum væru þar með að lýsa yfir stuðningi við hryðjuverkamennina. Þessi yfirlýsing uppskar vægast sagt mikla gagnrýni, þá einkum úr röðum vinstrimanna. Það er því nokkuð sérstakt, svo ekki sé meira sagt, að vinstrimenn um allan heim skuli vart geta haldið vatni yfir þeim boðskap fyrrum keppinautur Bush um forsetastólinn í Bandaríkjunum, Al Gore, að þeir, sem ekki eru honum sammála í umræðum um loflagsmál, séu siðlausir. Það er þó ljóst að hættan af hryðjuverkamönnum er raunveruleg, en hættan af hlýnun jarðar er í bezta falli umdeild."

http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/505635/ 

Geir Ágústsson, 15.4.2008 kl. 21:40

2 identicon

1: Hvaða hækkandi hitastig?

Lestu þetta bara sjálfur: http://en.wikipedia.org/wiki/Medieval_Warm_Period

2:  Það má frekar segja að flest línurit sýna að hitinn hafi staðið í stað. Ástæðan: Eftir stríð þá jókst iðnaður mjög, svo mjög að rykagnir náðu að minnka inngeislun sólar það mikið að áhrif aukningar kolefnis í andrúmsloftinu náði ekki að vinna það upp. Þetta var því eingöngu pása, þar til kolefnið náði aftur yfirhöndinni.

Þú segir að fleiri drepist úr kulda en hita, þú ert þá að meina á Íslandi hlýtur að vera, annars stenst þetta varla 

Höski (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 10:30

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Höski, ég skal viðurkenna að ég veit ekki hvað þú átt við með svarinu við spurningu 1. Varðandi spurningu 2 þá held ég að rykagnakenningin sé afar hæpin einfaldlega vegna þess að iðnaður hefur aukist gríðarlega síðustu 30 ár í löndum þar sem engar mengunarvarnir eru til staðar. Aukningin er miklu meiri en allur sá iðnaður sem fór af stað í Evrópu eftir stríðið. Þýskaland og þau lönd sem fóru illa út úr stríðinu eru eins og krækiber í helvíti miðað við Indland og Kína, en þangað hafa vesturlandabúar selt úreltar verksmiðjur í áratugi.

Það er ekki bara kalt á Íslandi. Það frýs um gervalla Evrópu á veturna.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 16.4.2008 kl. 15:41

4 identicon

Þú ert semsagt ekki að grínast þegar þú segist ekki skilja svarið við spurningu eitt? Það hefur verið sýnt fram á það að hinn svokallaði medievel warm period var ekki eins heitur og haldið hefur verið fram, sé miðað við hnöttinn allan, en erum við ekki að ræða global warming og þá verður að hafa viðmiðunina rétta. Staðbundinn hiti í Evrópu og/eða öðrum norðlægum slóðum getur aldrei talist vera hnattrænn.

Varðandi 2: Þá sýnir þessi mynd hér fyrir neðan að þessi fullyrðing þín stenst ekki, en hún sýnir magn rykagna síðustu sirka 20 ár. Þannig að það að segja að síðustu 30 ár hafi verið aukning í rykögnum sem blokkera sólarljós er augljóslega rangt.

Varðandi hitan og kuldan, þá held ég að þú gerir þér ekki grein fyrir áhrifum aukins hitastigs og jafnvel þó við tækjum eingöngu Evrópu, þá myndi ég halda að það væru fleiri sem dæju vegna hita en kulda, svo má ekki gleyma öllum hinum álfunum.

 Vona að þetta séu sannfærandi svör við þessum spurningum þínum.

Höski (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 22:56

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Höski, hefurðu ekkert lesið um ástæður hlýnunnar seint á síðustu öld, nema frá þeim sem halda því fram að það sé eingöngu vegna aukningar co2?

Í fyrirlestri Al Gore í Háskólabíói um daginn sýndi hann fylgni aukningar co2 í andrúmsloftinu og hitastigsaukningarinnar. Línuritið sýndi 600 þús. ár aftur í tímann. Í fjarlægð sýndust línur beggja (co2 og hitastigs) falla alveg saman og Gore hæddist að þeim sem ekki sáu hvað þetta var augljóst. En þegar betur er að gáð, þá fylgjast þær bara alls ekkert að! Það munar ca. 800 árum að meðaltali, sem hitaaukningin kemur á undan co2 aukningunni. Sem passar reyndar ágætlega við hlýskeiðið í kringum árið 1000.

Al Gore segir "The debate is over", sem er alrangt. Einn vísindamaður  (sanntrúaður) líkti "afneitunarsinnunum við þá sem afneita því að helförin hafi átt sér stað

Prófaðu youtube og sláðu inn global warming, skoðaðu myndbönd þeirra sem ganrýna Al Gore og kenningasmiði hans. Komdu svo aftur og segðu hvað þér finnst.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 02:02

6 identicon

Gunnar Th: Ég hef viðað að mér upplýsingum víðs vegar að (aldrei nóg), en þú ert hérna að gefa þér forsendur með því að halda fram að ég sé lítt lesinn. Ég hef einnig séð Svindlamyndina, sem er fróðleg en uppfull af villum (eins og flestar myndir um þessi málefni -  og þar er myndin hans Al Gores ekki undanþegin gagnrýni.). 

Ég vildi eingöngu svara þessum einföldu spurningum hans Sigurgeirs, því hann er svo fróðleiksfús, verst að ég hef það á tilfinningunni að hann taki svör mín ekki trúanleg. Það er auðvelt að spyrja barnslegra spurninga og segja að þeir sem hallast undir hnattræna hlýnun geti ekki svarað þeim og segja svo bara þegar þeim er svarað: "nei, þetta er ekki satt" þegar þeim er svarað.

Ég sé líka að þú hefur ekki lesið það sem ég var að skrifa í síðustu færslu - Það var ekki hnattræn hlýnun í kringum árið 1000.

Að þú ætlir að skýra út kolefnisaukningu nútímans út frá því (segja að það passi við þennan 800 ára mismun), þá fer maður að hallast að því að þú lítir á þetta sem trúarbrögð og að allir þeir sem mælt hafa (og sýnt fram á að kolefnisaukningin nú sé af mannavöldum) séu villitrúamenn.

En nú er mér að hitna í hamsi svo ég ætla að kolefnisjafna mig smá

Höski (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 08:46

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var nú ekki að gefa mér neinar forsendur varðandi þig Höski, bara spyrja og þetta eru alls engin trúarbrögð. Þau orð þín benda frekar til að þetta séu trúarbrögð af þinni hálfu.

Ég er bara fróðleiksfús leikmaður, sem finnst einkennilegt hvernig hinir "sannfærðu" bregðast við ef spurt er gagnrýnna spurninga. Ég er ekki sannfærður um eitt eða neitt, þó ég hallist að því að "alarmistarnir" fari offari í þessu máli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 13:06

8 identicon

Gunnar: Skoðaðu betur fyrstu málsgreinina þína í fyrstu færslunni þinni. Þar gefur þú þér að ég sé lítt lesinn af því að ég svara þessum einföldu spurningum Sigurgeirs á einfaldan hátt og þannig að það styður kenninguna um hnattræna hlýnun af mannavöldum.  Ég er líka fróðleiksfús leikmaður, þú dróst trúarbrögð inn í umræðuna (með orðinu sanntrúaðir) og því svaraði ég þér á þennan hátt.

Svo vil ég biðja Sigurgeir afsökunar á að vera að stofna til rifrildis við einhvern annan en hann, en ég veit að hann hefur gaman af rökræðum, svo ég held honum sé sama

Höski (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 16:04

9 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Ég er hræddur um að Höski hafi misskilið í grunninn fyrstu spurninguna. Hún snerist ekki um hvort það var hlýtt árið þúsund eða ekki, heldur það, að áður hefur verið mjög hlýtt um allan heim (steingerð hitabeltistré á Vestfjörðum sanna það) án þess að hægt sé að kenna mönnum um.

Þessi rykagnamynd virðist sýna eldgosaryk. 

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 17.4.2008 kl. 18:11

10 identicon

Er ekki nóg að ég reki í stuttu máli sögu jarðar og mannkyns síðastliðin 14 milljón ár, auk þess sem ég kem með dómsdagsspádóma sem mun örugglega gleðja þig, því þá getur þú bent á hvílíkur vitleysingur ég og allir sem eru uggandi yfir hnattrænni hlýnun jarðar erum? 

Steingerðu trén á Vestfjörðum uxu vissulega þegar hér var heitara (reyndar var heittemprað loftslag en ekki hitabeltisloftslag, ekki að það skipti máli því hér var vissulega mun heitara en í dag) - það var fyrir sirka 9-14 milljónum árum. Fyrir sirka 3,5 milljónum árum breyttist loftslagið og þá vegna þess að Norður Ameríka og Suður Ameríka rákust saman og breyttu hafstraumum.

Talið er að Ísöldin hafi hafist fyrir um 3 milljónum ára (fer eftir skilgreiningum sumir miða við 3,6 m ára, aðrir 1,8 milljónir ára).  Við það breytast lífskilyrði á jörðunni og það kólnar á jörðunni - fyrsta tegundin úr ættkvíslinni Homo kemur fram fyrir sirka 2,5 milljónum ára (Homo Habilis). Það skiptast á hlýskeið og kuldaskeið Ísaldar.  

Maðurinn sjálfur kemur svo fram fyrir 100-200 þúsund árum og nær að dreifa sér um jörðina fyrir um 50-70 þúsund árum. Hann er aðlagaður loftslagi ísaldar og hefur náð nokkurri útbreiðslu eins og við öll vitum. Fyrir um 10 þúsund árum byrjaði núverandi hitaskeið ísaldar og manninum líður nokkuð vel í því hitastigi, það hefur orðið nokkurs konar mannfjöldasprenging. En nú er hann á góðri leið með að breyta loftslaginu þannig að það verði úr takti við það sem hann er aðlagaður.

Miðað við hvert stefnir þá er óvíst að mannkynið eins og við þekkjum það lifi þær breytingar af. Ef við gefum okkur að menn fari með rétt mál varðandi þróunina þá stefnir í óefni, hækkun sjávarstöðu mun eflaust hafa mest áhrif á mannkynið, en mikill meirihluti mannkyns býr við sjávarsíðuna. Breytingar í veðri, þurrkar, flóð og almennir öfgar í veðri munu hafa víðtæk áhrif. Hérna fyrir neðan eru nokkur líkön sem sýna mögulegar breytingar á hitastigi ef fram heldur sem horfir.

Aðalpunkturinn með þessari ræðu minni er það að það er lítið gagn fyrir okkur mannkynið að miða við hitastig sem var hér löngu áður en mannkynið varð til, það hitastig sem allt stefnir í og þeir öfgar sem vísindamenn reikna með að fylgi þeim er of mikið til að mannkynið geti aðlagast því (þetta gæti nefnilega gerst svo hrikalega hratt og mannkynið og það umhverfi sem við höfum búið okkur til er of viðkvæmt). Ef við drögum úr losun kolefnis út í andrúmsloftið þá getum við unnið einhverja varnarsigra gegn okkur sjálfum en helst þyrftum við að finna lausn til að minnka það kolefni sem nú þegar er komið út í andrúmsloftið. Ég hef engan áhuga á því að börn mín og barnabörn þurfi að líða fyrir gjörðir minnar kynslóðar.

Hvað Íslendinga varðar, þá held ég að það verði enginn dans á rósum, kókóshnetutré og sangría. Er ekki möguleiki að áhrif hlýnunar sé ekki nú þegar að koma fram, með breytingum á sjónum í kringum Ísland, þorskstofninn í niðursveiflu og allt það. Hvað með virkjun fallvatna, ef jöklarnir hverfa, hvaða jökulár eigum við þá að virkja?

Varðandi rykagnamyndina sem ég birti hér fyrr. Já, topparnir á myndinni með rykögnunum, sýna áhrif eldgosa á rykagnir í andrúmsloftinu, en ef horfið er framhjá óeðlilegum gildum eins og koma fram við eldgos þá sýnir línuritið að magn rykagna af völdum manna í andrúmsloftinu er að minnka en ekki að aukast eins og þú hélst.

 Jæja, nóg af svartsýnisrausi, ég veit að Sigurgeir og Gunnar taka ekki mark á þessu hvort sem er, en kannski er einhver að lesa þetta sem telur að þetta sé ekki eintómt bull.

Höski (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 23:18

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Höski,

Allt gott og blessað með spádóma og veðurspár mörg ár fram í tímann, en þegar raunveruleikinn mætir þeim þá er hætt við að svoleiðis módel-leikfimi þurfi að taka með fyrirvara! Tölfræðilega er hitastig lofthjúpsins það sama í dag og seinustu 5 ár og það verður athyglisvert að sjá næstu dómsdagsskýrslu IPCC tækla þá staðreynd.

Sigurgeir hefur alveg rétt fyrir sér með að fólk hunsar dómsdagsspádóma og byggir hús í bryggjuhverfum sem aldrei fyrr, sama hvað Höskum heimsins finnst um það. Flest fólk lítur í kringum síg og tekur ákvarðanir á eigin ábyrgð út frá því sem er raunverulega að gerast, sama hvað Höskar heimsins skrifa í blöð og tímarit sem gengur á skjön við þá upplifun almennings.

Komi það sem koma skal. Hollendingum tókst að halda Norðursjó frá lendum sínum með 18. aldar tækni. Gott ef 21. aldar fólki takist ekki að verja sig frá náttúruöflunum líka, hvað sem Höskanir hamast mikið við að segja að slíkt sé ávísun á helvíti á Jörðu. 

Geir Ágústsson, 19.4.2008 kl. 02:17

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Varðandi spurninguna um það hvort miðaldahlýnunin fyrir um 1000 árum hafi verið raunveruleg og hnattræn eða ekki er fróðlegt að lesa þessa samantekt.

Þar er fjallað um rannsóknir 525 vísindamanna frá 320 mismunandi rannsóknarstofnunum (m.a Íslandi) í 37 mismunandi löndum. Niðurstöður allra þessara rannsókna eru flokkaðar og heimilda alls staðar getið.

Þarna má sjá hve margar rannsóknir sýna að hlýrra hafi verið á miðöldum en nú. Þar er listi yfir vísindamenn sem getið er um og listi yfir rannsóknastofnanir.

Þessar rannsóknir ná yfir allan heiminn og eru þær flokkaðar eftir heimshlutum. Það má því sjá hvort hlýnunin fyrir 1000 árum hafi verið hnattræn eða ekki og hve mikil.

(MWP = Medieval Warm Period, CWP = Current Warm Period).

Hver er svo niðurstaða allra þessara rannsókna?

Ágúst H Bjarnason, 19.4.2008 kl. 20:13

13 identicon

Geirar heimsins:

 Ágúst:  Það er gott og vel að vísa í síðu sem safnar saman greinum, en margar af þessum greinum urðu til áður en hlýnunin nú varð meiri en á miðöldum (fyrir utan að mér sýndist tímabilin sveiflast, heitara á norðurhveli frá 900-1200 og heitara á suðurhveli frá 1100-1400 ekki beint góð skörun).

Þá er ekki verra að lesa stutta klausu sem sérfræðingar í fornu loftslagi hafa að segja og tekur meðal annars til hversu mikil skekkja er í gögnum sem eru eldri en 600 ára...

Sjá: http://www.ncdc.noaa.gov/paleo/globalwarming/medieval.html

Höski (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 22:54

14 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Við erum í vondum málum ef það er ekki einu sinni hægt að vera sammála um hitastigið í fortíðinni! Hvernig er hægt að ætlast til þess að það sé hægt að spá fyrir um hitann með ekki betri grunn?

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 21.4.2008 kl. 16:05

15 identicon

Góð spurning Sigurgeir.

Ætli það sé ekki óhætt að segja að þó gögnin verði ónækvæmari eftir því sem þau ná lengra aftur, þá séu þau ágætis viðmiðun.

Með því að leggja saman mismunandi gögn og taka meðaltalið af þeim þá hlýtur að vera hægt að fá ágætis viðmiðun (samanber neðstu myndina hér fyrir ofan). Hún sýnir einnig hvernig óvissan (gula) minnkar eftir því sem nær dregur og  nú á tímum nákvæmra mælinga er greinilegt að um talsverða hitahækkun er að ræða.  En hvað veit ég, ég er bara áhugasamur leikmaður um þessi fræði.

Höski (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 113945

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband