Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Besta starf í heimi?

Allir vita hvað aðstoðarmaður við framleiðslu á skyri gerir, hann býr til skyr. En hvað gerir aðstoðarmaður við gerð fullorðinskvikmynda?


Var persónulegri

Ég kíkti í gamni á gamla bloggið mitt (það koma sjö á dag þangað enn!) sem bilaði 17. janúar 2007. Ekki þurfti ég að skoða lengi til að átta mig á að ég var miklu persónulegri á því bloggi en á Moggablogginu. Ég hef sagt það áður að það er meira eins og að skrifa grein í Moggann að blogga á bloggi Mogga en í iblogginu. Mig langar að breyta þessu vegna þess að það er meira gaman og meira gefandi að vera persónulegur. Ég þarf að hætta að hugsa um Moggann sem slíkan og hugsa frekar um þetta sem afkima, sem þetta vissulega er, þótt gervallur netheimur eigi þess kost að líta við.

Við feðgarnir sitjum fyrir framan tölvuna og erum að hlusta á þá sænsku snilld sem Antiloop kallast. Hann er gefinn fyrir tónlist litli gaurinn og hefur það ósjaldan komið sér vel, vegna þess að þegar hann er óvær, grætur mikið, er nóg að spila fallega tónlist. Taktföst lög með háum píphljóðum eru hans eftirlæti. Við höfum til dæmis hlustað mikið á Moon Safari með Air. Sú plata er klassísk og á eftir að lifa lengi. Abba var fyrsta hljómsveitin sem Litli litli dáði, einkum Dancing Queen. Hann steinþagnar ef Dansdrottningin fer af stað. Ég veit ekki hvort sérfræðingar í ungbörnum vita af þessari aðferð, eða mæla með henni. En eitt get ég fullyrt: Hún virkar. Mig langar næstum því til að stofna vefinn ungbarnaland.is með ráðum handa foreldrum með kornabörn. Þau geta nefnilega verið ansi lýjandi fyrir ráðvillta nýbakaða foreldra.

Í lokin langar mig að minna á Spurningu dagsins hér til hægri og myndi gjarnan vilja heyra frá lesendum hvort þeir geti bent mér á ástæðu(r) til að kjósa Samfylkinguna. Þrátt fyrir mikla leit, fann ég nefnilega enga. 


Hvað var sagað?

Sagaður forseti

Ekki vissi ég að veikindi forsetans væru alvarleg, en ef það er eitthvað að marka þessa fyrirsögn Moggans frá því um daginn eru þau mjög alvarleg. Svo alvarleg að það þurfti hreinlega að aflima hann! Þar sem ég hef ekki séð forseta Íslands eftir að hann kom heim af sjúkrahúsinu, veit ég ekki hvað nákvæmlega var sagað af. Einhverjir kynnu að álykta að höfuðið hefði verið sjúki líkamshlutinn sem þurfti að fjarlægja (og þeir hafa talsvert til síns máls), en vegna vondra hliðarverkana er ólíklegt að gripið hafi verið til þeirrar lækningar. Eftir stendur spurningin: Hvað þurfti að saga af forseta vorum? Mér finnst fjölmiðlarnir ekki alveg vera að standa sig í þessu máli.


Lóan er farin til Feneyja

Hanna Gunna gamla bekkjarsystir mín stendur nú í stórræðum. Hún er að flytja verk eftir Steingrím Eyfjörð, sem heitir Lóan er komin, til Feneyja á tvíæringinn sem kenndur er við eyjarnar. Það sem vakti athygli mína og talsverða kátínu er ég las umfjöllunina í Mogganum á föstudag, var lýsing á tilurð og inntaki verksins:

„Þungamiðja verksins er gerðið. Gerðið sjálft er smíðað eftir leiðbeiningum huldumanns sem Steingrímur komst í samband við í gegnum miðil en verkið lýsir ferð listamannsins til heimkynna huldumanns á Suðurlandi til að kaupa af honum kind.“ (Mbl. 4. maí bls. 22)

Hvernig ætli listamanninum hafi gengið að finna huldumanninn með fölu kindina? Það kemur því miður ekki fram í greininni. Á myndinni við hliðina á myndinni af Hönnu er gerðið tómt, þannig að ég dreg þá ályktun að ferðin hafi verið fýluferð. Leiðinlegt. Ég hefði viljað sjá þá kind sem keypt var í gegnum miðil af huldumanni á Suðurlandi. Þá hefði verið hægt að kalla miðilinn kindamiðil eða kindamiðlara.


Tilvitnun í Vefþjóðviljann

„Bjarni  Ármannsson var í fréttum í gærkvöldi spurður um greiðslur samkvæmt samningi hans við fyrrverandi vinnuveitendur hans í Íslandsbanka. Hann sagði að þær væru allar trúnaðarmál.

Það er auðvitað skiljanlegt.

Æ hvað hét hann aftur bankastjórinn sem hélt ræðu á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir hálfum mánuði og krafðist þess að „launaleynd“ yrði bönnuð með lögum?“

Vefþjóðviljinn fimmtudaginn 3. maí. 

Hræsnin verður ekki afhjúpuð með betri hætti. Og er það tilviljun að hún tengist Samfylkingunni? Nei. 


Hljóðeffektar fyrir klámmyndir

Þessi mynd sýnir vel hversu mikil list það í raun er að gera sannfærandi hljóð fyrir kvikmyndir. Hún sýnir líka hversu vanþakklátt það getur verið að vinna bak við tjöldin. Kastljósið er ávallt á leikurunum. Er ekki kominn tími til að heiðra hinn breiða hóp sem heldur leikurunum á floti?

 


Biðin er á enda, Jesús er kominn!

Haldiði að Jesús hafi ekki gert sér lítið fyrir um daginn og stigið niður til jarðarinnar á ólíklegasta stað í heimi: Klámráðstefnu í Las Vegas! Vegir guðs eru svo sannarlega órannsakanlegir. Það er aldrei að vita nema hann hefði komið á íslensku klámráðstefnuna ef Hótel Saga hefði ekki misst kjarkinn.

 


Skýringin á alheimshlýnuninni fundin

Í lesendabréfi sem sent var til dagblaðs í Arkansas (Democrat Gazette) var gerð mikilvæg uppgötvun á orsökum alheimshlýnunar.

Skýringin fundin Það vekur furðu að enginn skuli hafa áttað sig á þessu fyrr. Samkvæmt Snopes.com er þetta ekkert grín, enda Arkansasbúar ekki þekktir fyrir að vera grínarar. Þeir eru meira eins og Hafnfirðingar í huga samlanda sinna og um þá ganga Hafnarfjarðarbrandarar eins og þessi: Tannburstinn var fundinn upp í Arkansas, ef hann hefði verið fundinn upp annarsstaðar, væri hann kallaður tannabursti.

Kemur í ljós við gúglun á neti lýðsins að höfundurinn er lögmaður í Little Rock í Arkansas.

P.s. Þetta er víst grín hjá henni Connie, mér yfirsást það, en var bent á það af lesanda. Takk fyrir það.


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 114065

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband