Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Klipptir brandarar

Í gær í fjögurfréttum Ríkisútvarpsins heyrði ég sagt frá ræðu Bandaríkjaforseta í árlegum kvöldverði samtaka fréttamanna þar sem venjan er að slá á létta strengi. Spilaður var þessi bútur úr ræðu Bush: „Fyrir ári naut ég um 30% stuðnings, fulltrúi minn í embætti hæstaréttardómara hafði dregið sig í hlé og varaforsetinn minn hafði nýlega skotið einhvern."

Þarna var klippt á ræðuna og farið út í aðra sálma. Svona hljómar búturinn eins og Bush hafi verið að fjalla um síðasta ár og telja upp helstu atburðina. En þetta var, eins og fréttamaðurinn Jón Hannes Stefánsson hlýtur að hafa vitað, brandari og með því að klippa á endann, var hann raunverulega að eyðileggja grínið og snúa því upp í eitthvað allt annað.

Það sem vantaði var rúsínan í pylsuendanum (pönslænið): „Ó, þetta voru hinir gömlu góðu dagar!" 

Hvað vakti fyrir fréttamanninum? Ekki gott að segja, etv. er hann á móti Bush og Bandaríkjunum, eins og svo vinsælt er í dag meðal vinstrimanna, eða hann er vita taktlaus þegar kímni er annars vegar. Ég hallast að fyrri skýringunni.


mbl.is Bush brá sér í hlutverk uppistandara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður húmor

Ekki spillir fyrir að sannleikskorn fylgir með. Það er einkenni á góðum húmor.picture_1_165692

Undir þetta skrifa ég strax!

Fann þessa snilld á síðunni hans Snorra Bergs, skáksénís og fyrrverandi fanga Bandaríkjanna (okkar Bobby Fischer). 

"Þjóðarsáttmáli Fortíðarlandsins:

-Við heitum því að nýta okkur aldrei nokkurn snefil af tækninýjungum eða hátækni
-Við heitum því að leggja niður allar virkjanir og hætta umsvifalaust allri orkunotkun á Íslandi
-Við heitum því að stunda einvörðungu sjálfsþurftarbúskap og snerta ekki auðlindir landsins
-Við heitum því að gera Ísland aftur að fátækustu og vanþróuðustu þjóð Evrópu líkt og við vorum fyrir 100 árum!

Látum nú hendur standa fram úr ermum góðir íslendingar og skrifum undir þjóðarsáttmála Fortíðarlandsins. Við megum ekki láta glepjast af gylliboðum hátæknialdarinnar og þeytast áfram upp lista Sameinuðu þjóðanna yfir lífskjör og gæði, látum staðar numið og snúum aftur á slóðir forfeðranna, aftur til fornalda!

Sjálfsþurftarbúskapur eða dauði!
-Fortíðarlandið"


Draumalandið anno 1790

Í umræðum um álverskosninguna í Hafnarfirði heyrði ég talað um hraunþjóðgarð á Suðurnesjum sem valkost í staðinn fyrir álverið. Þá velti ég fyrir mér hvers vegna engir snjallar viðskiptakonur hafi ekki stofnað slíkan garð og greitt sér ríkulegan arð. Svarið liggur að vísu ljóst fyrir: Það er engin viðskiptahugmynd í því. Hraungarðurinn færi beinustu leið á höfuðið. Nema ríkið alltumvefjandi myndi taka að sér að reka hann og veita 10 manns vinnu sem 2 kæmust yfir. Það er að skapi sumra. En þessir "sumir" gera sér ekki grein fyrir að engin verðmætasköpun er fólgin í því. Mig grunar að þeir geri sér yfirleitt ekki grein fyrir hvar verðmætasköpunin fer fram. Þeir sem sjá ljósið í þeim efnum snúa baki við slíkum hugsunarhætti. Af því þekki ég dæmi.

Andúðin á virkjunum og álverum hvílir á þessum misskilningi. Hvers vegna láta þeir sem hvað mest hamast gegn virkjunum og álverum ekki reyna á allar sínar frábæru hugmyndir um aðra atvinnuvegi og náttúruvæna áður en þeir taka til við andófið? Svarið við því liggur líka ljóst fyrir: Þeir hafa engar hugmyndir. Og ef þeir hafa hugmyndir eru þær jaskaðar klisjur frá útlöndum.

Andófsmennirnir tala í sífellu um heildarmyndina og stóru myndina og hvaðeina, tala um framtíðar- og draumaland, grænt en ekki grátt, óspillt land o. sv. frv. Þó blasir við að þeir sjá aðeins litlu myndina. Sjá ekki einu sinni það sem blasir líka við: Hálendi Íslands er ekki óspillt, öðru nær. Það er rótnagað og niðurtroðið.

Ef við stækkum litlu mynd draumalandssinna og færum okkur fram fyrir Skaftárelda sem brunnu fyrir rúmum 200 árum. Hvaða framtíðar- og draumaland blasti þá við? Jú fagrar sveitir suðurlands sem örfáum árum síðar eyðilögðust í vítiseldum. Það er mikil skammsýni að tala fjálglega um framtíðarlandið og gera ekki ráð fyrir að slíkt geti gerst aftur. Þeir sem eru sér meðvitaðir um að þeir búa á virkustu eldfjallaeyju í heimi láta ekki draumóra um draumaland halda fyrir sér vöku þegar verðmætasköpun með virkjun fallvatnanna er annars vegar.

Ég styð heilshugar stækkun álversins í Straumsvík og myndi greiða því atkvæði ef ég ætti þess kost.


mbl.is Alltaf staðið til að línur fari í jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litli litli fékk galla galla

í dag og margar góðar gjafir um helgina. Hann er nú óðum að braggast og er jafn þungur í dag og hann var þegar hann fæddist. Það er gott vegna þess að yfirleitt léttast nýburar á fyrstu dögum lífsins.

Sigurgeir Jónasson frændi minn varð 12 ára í dag. Hann fékk bókina Bragðarefurinn frá okkur. Í fyrra fékk hann bókina Stöngin inn (á frummálinu: Come and have a go if you think you're smart enough!) Stöngin inn er góður titill á bók því það gefast svo margir sjálfsagðir framhaldstitlar: Stöngin út, Sláin inn, Sláin út, Skeytin inn og síðast en ekki síst: Skeytin út.

--- 

Vinur minn sem jafnframt er umhverfisverndarsinni benti mér á áhugavert kort sem sýnir svo ekki verður um villst að fækkun sjóræningja hefur eitthvað með hækkun hitastigssins að gera. Ef ekkert verður að gert verða sjóræningjar horfnir áður en langt um líður.


Mynd af Lilla litla

Í vöggunni í Hreiðrinu daginn eftir fæðinguna.

LilliLitli

 


Drengur fæddur

21. mars Klukkan 12:03 fæddist okkur Heiðrúnu sonur. Hann var 12 og hálf mörk og 51 sm að lengd, fót- og handarstór. Móður og syni heilsast vel og eru nú komin heim. Við vörðum síðustu nótt í Hreiðrinu sem er hluti fæðingadeildar Landspítalans. Það var kl. 00:03 aðfaranótt miðvikudags sem hríðirnar byrjuðu. Upp úr þrjú fórum við á fæðingardeildina og eins og áður segir kom gutti í heiminn kl. 12:03 á miðvikudeginum 21. mars. Fæðingin gekk vel, ekki síst miðað við að þetta var fyrsta barn móðurinnar. 

Britney í meðferð en hvað með Bubba (the Hut)?

Þegar fréttist af lögsókn gúanórokkarans Bubba Morthens gegn vikuriti vegna meiðandi ummæla (Bubbi fallinn) rifjaðist upp fyrir mér Idol-þáttur sem ég sá þar sem rokkarinn var dómari. Keppandi, stúlka, hafði sungið lag með Britney Spears sem heitir I'm not a girl, not yet a woman. Bubbi lá ekki á skoðun sinni á Britney Spears og viðhafði eins meiðandi ummæli um hana og frekast var unnt, sagði hana iðnaðarframleiðslurusl sem ætti ekkert skylt við tónlist og svo framv. Keppandinn fékk ekki góða umfjöllun frá gúanórokkaranum heldur. Aðspurð sagðist hún hafa valið lagið vegna þess að það höfðaði til hennar, hún hefði ung eignast barn og liði ekki ósvipað og fjallað er um í laginu.

Fyrir utan tillitsleysi og dónaskap gagnvart keppandanum voru ummælin um Britney Spears svo ógeðfelld að fullyrðingarnar sem vikuritið var dæmt fyrir eru sem fagur fuglasöngur í samanburði. 

Það er mjög skrítið að Bubbi sé á móti Britney, þau sem eiga svo margt sameiginlegt:

1 Ást og ástleysi er þeim báðum ríkt yrkisefni.

2 Bæði gera út á kynferðið í tónlist sinni, hún syngur í efnislitlum fötum, hann er iðulega ber að ofan á tónleikum (trúlega líka í búningsherberginu).

3 Bæði hafa farið flatt á fíknilyfjum.

4 Bæði hafa farið í meðferð.

5 Bæði eru sköllótt. 

6 Ástarmál þeirra beggja eru áberandi. 

7 Bæði eru fræg, hann á Íslandi, hún um allan heim.

8 Bæði hafa selt margar plötur, hún um allan heim, hann á Íslandi.
mbl.is Britney vill fá Justin Timberlake í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindindalegar mælingar kvikmynda

Áhugalækninum vex fiskur um hrygg. Í kvöld horfði Afspyrnuklúbburinn á myndina Va savoir (Hver veit?) sem er frönsk og fjallar um leikhúsfólk og líf þess. Á löngum 150 mínútum komumst við að því að leikkonan sá eftir að hafa hætt með heimspekiprófessornum, leikstjórinn var að leita að týndu leikriti, núverandi kona prófessorsins var danskennari, barnabarnabarn leikskáldsins sem samdi verkið týnda varð ástfangin af leikstjóranum og bróðir hennar stal hring af konu heimspekiprófessorsins. Hver veit? er á margan hátt áhugaverð mynd, en þó ekki áhugaverð á þann hátt sem filmmakararnir gerðu sér vonir um. Maður veit miklu betur nú en áður hvernig ekki á að bera sig að við kvikmyndagerð. Maður á til dæmis ekki að láta aðalpersónuna semja bréf og lesa það upphátt um leið. Það gerist of hægt. Þannig var þessi mynd: h  æ  g. Einnig kennir þessi mynd að eigi er affarasælt að taka sig of hátíðlega. Það má heldur ekki nota ódýr brögð eins og að taka afsteypu af hring á konufingri um leið og hún kyssir elskhugann. Hún var ekki lömuð fyrir neðan háls en fann þó ekki fyrir því þegar blá leirklessan þrýstist á hringinn. Kannski var hún lömuð fyrir ofan háls?

Jæja, þetta var nú ekki umræðuefnið, heldur vísindin. Já vísindin sem efla alla dáð. Áhugalæknirinn tók fram græjurnar snemma í kvöld og mældi limina einn af öðrum fyrir og eftir sýningu. Að vísu fóru tveir limir áður en sýningu lauk og verða því ekki teknir með í mælingunni að þessu sinni. 

Niðurstöðurnar á gæðum myndarinnar voru sem sagt þessi:

Aggi fyrir 84/143, Aggi eftir 87/130. Gaf 1,5 stjörnur. Vísindin segja: Mjög rólegur: 1 stjarna.

Herbert fyrir 88/138, Herbert eftir 90/144. Gaf 1,5 stjörnur. Vísindin segja: Frekar spenntur: 3 stjörnur.

Neddi fyrir 97/154, Neddi eftir 92/147. Gaf 1,5 stjörnur. Vísindin segja: Frekar rólegur: 2 stjörnur.

Orri fyrir 74/138, Orri eftir 79/136. Gaf 2,5 stjörnur. Vísindin segja: Frekar rólegur: 2 stjörnur.

Heiðrún fyrir 70/121, Heiðrún eftir 75/130. Gaf 2 stjörnur. Vísindin segja: Frekar spennt: 3 stjörnur. 

Af þessu sést að vísindin mæla nokkra skekkju milli þess sem limir segja og svo hvað þeim raunverulega finnst.

Áhugalæknirinn er svo hrifinn af læknavísindum sínum að hann er að hugsa um að innrétta skurðstofu niðri í kjallara. Fékk fínan læknabekk í Góða hirðinum en fann ekki notaða skurðhnífa neins staðar. Er að kanna verð á slíkum græjum á internetinu. Honum skilst að það sé í fínu lagi að praktísera lækningar svo lengi sem það er ekki gert í hagnaðarskyni, enda er ekki meiningin að gera atvinnu úr áhugamálinu, aldeilis ekki.


Er hann galinn?

Spurði Margrét Lovísa. Nei, svaraði ég, hann er næturgalinn.

Við vorum að horfa á teiknimyndina Næturgalann eftir H. C. Andersen í sjónvarpinu, ég og Margrét Lovísa frænka mín sem er fjögurra ára.


Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 114028

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband