Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Litlu kraftaverkin

sem eru alltaf að gerast og maður tekur ekki einu sinni eftir þeim:

1. Sokkurinn var týndur í morgun. Fann hann um hádegið.

2. Hnerraði og hélt ég væri kominn með flensu. En var það ekki.

3. Jónas Bjartmar frændi litaði með tússlitum í litabók á gólfinu. Litaði ekkert á gólfið.

4. Keypti þrjá lítra af appelsínugulri málningu. Dugðu akkúrat á vegginn.

5. Fór með bréf í póst um daginn og lagði við stöðumæli en var ekki með smápening. Fékk ekki sekt.

6. Borðaði hamborgara á fimmtudaginn í Kringlunni. Gekk út með tvo fyrir einn miða í Kringlubíó á fimmtudögum.

Af þessu sést að kraftaverkin eru allt um kring, maður þarf bara að vera vakandi og taka eftir þeim. 


Fjarar undan Al Gore

Heimsendaspá stjórnmálamannsins Al Gore rann eins og kakó með rjóma ofan í margan sakleysingjann. En vísindamenn voru ekki eins ginnkeyptir og spurðu á móti ýmissa óþægilegra spurninga um óþægilegan stórasannleik Al Gore. Ég óttast mest að það verði hlegið að mynd hans eftir örfá ár. Við því má Al Gore ekki.


Stórkostlega alheimshlýnunar blekkingin

er vægast sagt áhugaverð mynd. Þar eru færð ákaflega sannfærandi rök fyrir því að hitabreytingar á jörðinni stafi ekki af koldíoxíðútblæstri manna heldur því sem raunar blasir við: Sólinni. Hlýnun eða kólnun á jörðinni er í beinu sambandi við sólgos eða umbrot á sólinni sem sendir geisla til jarðarinnar. Línuritið um samspil koldíoxíðs og hitafars sem stjórnmálamaðurinn Al Gore setti fram með afar hræðandi hætti er samkvæmt þessari mynd byggt á misskilningi. Já á misskilningi. Ef rýnt er nánar í gögnin kemur í ljós að eftir því sem það hlýnar á jörðunni eykst koldíoxíðið. Það er lógískt: Meiri hiti, meiri vöxtur plantna og dýra. Sem sagt: Meiri hiti, meira koldíoxíð. Ekki: Meira koldíoxíð, meiri hiti.

Ýmislegt fleira áhugavert kemur fram í myndinni. Til dæmis er hrakin sú bábylja að malaría berist nú æ norðar vegna hækkandi hita. Á þriðja áratug síðustu aldar gekk malaríuplága í Síberíu sem varð fjölmörgum að aldurtila. Malaríuberar þrífast jafnt í kulda sem hita. Vísindamaðurin sem benti á þessa staðreynd lenti í mestu vandræðum við að fá nafn sitt tekið af skýrslu Sameinuðu þjóðanna um alheimshlýnun. Ástæðan var sú að úr skýrslunni voru felldar burt mikilvægar ábendingar hans og annarra sem drógu í efa alheimshlýnunina samkvæmt bókstafstrúnni. Það var ekki fyrr en hann hótaði lögsókn sem nafn hans sem skýrsluhöfundar var fellt út. Þannig að listinn um allan þennan stóra hóp vísindamanna sem eiga að vera sammála um koldíoxíðskenninguna er ekki nærri eins langur og ætla mætti í fyrstu.

Ég hvet alla til að horfa á The Great Global Warming Swindle.

Ég frétti fyrst af þessari mynd á bloggsíðu Ágústs Bjarnasonar. Þar eru frekari upplýsingar um myndina, m.a. listi yfir þá vísindamenn sem koma fram í henni.

--- 

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá Afspyrnuklúbbnum að blóðþrýstingur allra mættra lima er tekinn í lok sýningar. Brögð hafa nefnilega verið að því að limir gefi falskar upplýsingar um hversu mikla geðshræringu sýningin olli. Vísindalegar mælingar á gæðum kvikmynda hafa ekki áður farið fram og telst Afspyrna brautryðjandi á því sviði.

Niðurstöður gærkvöldsins:

Sigurjón 66/110. Mjög rólegur: 1 stjarna.

Orri 72/137. Frekar spenntur : 3 stjörnur.

Herbert 89/147. Mjög spenntur: 4 stjörnur.

Neddi 101/156. Yfirspenntur: 5 stjörnur.

Kristinn 71/123. Frekar rólegur: 2 stjörnur.

Taka verður fram að þetta er það sem VÍSINDIN segja um áhuga lima, ekki hvað þeir segja sjálfir. Í ljós kom að þeir sem gáfu upp skoðun sína á myndinni með afgerandi hætti voru í nokkuð góðu samræmi við niðurstöður mælingarinnar. Neddi og Hebbi voru í samræmi við mælinguna, mjög spenntir. Orri sagðist vera mjög spenntur en var bara miðlungs spenntur samkv. mælingunni.


Umhverfisvernd

er trú sem hvílir á pólitískum grunni en ekki vísindum. Þetta sagði Vaclav Klaus um daginn. Ég er sammála honum.

Dauð blóm á skrifstofu Hitlers

Í morgun vökvaði ég gulu túlípanana sem við keyptum í IKEA um daginn. Það minnti mig á heimildarmyndina Blindi bletturinn sem við horfðum á í gærkvöldi. Myndin er viðtal við Traudl Junge sem var einkaritari Hitlers frá 1942 til hinsta dags. Traudl sem var full sjálfsásökunar en jafnframt sjálfsfyrirgefningar, dró upp eftirminnilega mynd af yfirmanni sínum og daglegu lífi hans. Traudl þótti sérstakt að Hitler vildi ekki hafa afskorin blóm á skrifstofunni. Vildi ekkert dautt inni hjá sér.

Svona hluti má túlka. Einhver mesti morðingi mannkynssögunnar vildi ekki hafa dauð blóm á skrifstofunni sinni. Var samviskan að plaga hann eða var þetta bara ósköp venjuleg dilla?

Ég hallast að því að blómin hafi verið tákn fyrir alla þá sem hann lét drepa; voru afskornir í blóma lífsins. Ekkert dautt á skrifstofu Hitlers styður líka við það sem Traudl sagði um að þau hefðu verið í einskonar blindum bletti, ekki séð hvað gekk á fyrir utan. Í blinda blettinum var enginn dauði, engin afskorin blóm, aðeins fögur sýn um þúsund ára ríki aríanna.


Kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn

vegna sjónarmiða Gunnars J. Birgissonar og Ármanns Ólafssonar um að eina leiðin til að efla almenningssamgöngur sé að útbúa sérstakar forgangsakreinar fyrir strætisvagna. Það er galin hugmynd vegna þess að fyrirsjáanlegt er að bílum mun fjölga mjög í framtíðinni og ef akreinum verður fækkað svo strætó fái nægt pláss mun öngþveitið bara aukast. Fyrir utan að strætó er mjög lengi á milli staða þó göturnar séu auðar. Það er farinn stór hringur og stoppað á fjölmörgum stöðum. Sérstakar akreinar fyrir stræisvagna er tálsýn sem aðeins mun tefja fyrir og skerða lífsgæði okkar.

Miðað við hve höfuðborgarsvæðinu er naumt skammtað fé á samgönguáætlun er ekki nokkur von til þess að sérstakar akreinar fyrir strætisvagna verði lagðar (fyrir utan plássleysi) án þess að tekið verði af þeim akreinum sem fyrir eru. Þetta vita Gunnar og Ármann. Þeir vita líka vel að strætisvagnar eru umhverfissóðar. Orkusóun á hvern farþega með strætó er miklu meiri en á hvern farþega með fólksbíl. 

Svo virðist sem strætisvagnarnir hafi þyrlað upp svo miklu svifryki að Gunnar og Ármann sjá ekki lengur hversu bjánalegt það er að ætla að auka rými strætó á kostnað fólksbílsins.

Ætli ég verði ekki að láta utanríkismálin ráða atkvæði mínu í vor. 


Fegurð mannlífsins

Ef ég hugsa um orðið forræðishyggja dettur mér fyrst í hug stjórnmálaflokkar vinstramegin við miðjuna. Það eru jú þeir sem telja sig vita betur hvað mér og þér er fyrir bestu. Hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki, blasir það við af gjörðum þeirra og skoðunum. Þeim finnst að ríkið eigi að sjá um  flest - ef ekki allt - og þeir og vinir þeirra eigi svo að stjórna ríkinu. Þeir voru til dæmis á móti því að við gætum keypt bjór á Íslandi (og eru trúlega enn), þeir voru líka á móti því að fleiri en ein sjónvarpsrás væri á Íslandi. Þeir vildu ekki að ríkið seldi bankana, símann, skipafélagið, prentsmiðjuna, bifreiðaskoðunina og lyfjaverksmiðjuna. Og þeir eru auðvitað á móti klámi. Ef þeir réðu á Íslandi væri klám bannað með öllu og sérstök lögregla sæi um að enginn færi á klámsíður á netinu. Þessi frétt birtist á Vísi 25. febrúar:

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vill setja á fót netlöggu, til þess að hindra aðgang að klámi og annarri óáran, á netinu. Steingrímur lét þessi orð falli í Silfri Egils á Stöð 2 í dag. Það var verið að ræða um klámráðstefnuna sem ekki fékk inni á Íslandi, og Egill spurði Steingrím hvort hann vildi þá ekki ganga lengra og skera upp herör gegn öllu klámi. Steingrímur kvað já við. Hann sagðist vilja stofna netlögreglu sem meðal annars og einkum ætti að koma í veg fyrir klámdreifingu á netinu. Steingrímur kvaðst einnig vera á móti nektar og súlustöðum, og ef hann fengi að ráða myndi hann reyna að koma þeim úr landi.

 

Í viðtali í Blaðinu um daginn bölsóttaðist Davíð Þór Jónsson, fyrrverandi Bleikt og blátt ritstjóri, út í þá sem voru á móti því að klámframleiðendur kæmu til landsins og kallaði það forpokun og forræðishyggju. Blaðamaður (Kolbrún Bergþórsdóttir) benti honum á að hans flokkur, Vinstri grænir, hafi talað nokkuð einum rómi í þessu máli og spurði hvort hann styddi ekki þann flokk. Davíð sagði svo vera, en það væru umhverfis- og utanríkismálin sem réðu atkvæði hans.

Kæmust Vinstri grænir til valda, væri netlögregla næsta vís og það veit Davið. En það gerir ekkert til, hann kaus þá vegna umhverfis- og utanríkismálanna.

Í þessum skringilegu mótsögnum birtist Fegurð mannlífsins. Fegurð vegna þess að það er ekki hægt að segja neittt annað. Lífið er mótsagnakennt og því meira æpandi sem mótsagnirnar eru, því fegurra.

Fleiri standa frammi fyrir svipaðri mótsögn, þó ekki sé hún eins svæsin og hjá Davíð Þór. Það voru nefnilega vel flestir stjórnmálaleiðtogar þessa lands sem misstu fótanna á klámsvellinu. Sumum er kannski vorkunn, það er stutt í kosningar og pólitískt hugrekki með minnsta móti. Álit mitt á sumum stjórnmálamönnum hefur minnkað talsvert. Var þó ekki úr háum söðli að detta. Það vantar menn með pólitískt hugrekki, menn sem þora að standa við skoðanir sínar og hugsjónir, ef þeir hafa þá einhverjar.

Heilt yfir er ég sár vegna þessa máls, sár vegna þess að frjálslyndi, frelsi og mannréttindi, lutu í lægra haldi fyrir forpokun og forræðishyggju.

Ætli ég verði ekki líka að láta utanríkis- og umhverfismálin ráða mínu atkvæði í vor.


Gamla bloggið mitt

Fyrir þá sem sakna gamla góða bloggsins míns, er það komið upp að nýju. Þar er má segja sagan handan sögunnar.

Kemur ekki á óvart

Þetta mun þó tæplega verða til þess að sanntrúaðir PC þrælar söðli um. Það hefur sýnt sig að það er alveg sama hversu slappt stýrikerfið þeirra er, þeir halda áfram og áfram og áfram...


mbl.is Vista sagt hamla skilvirkni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 114012

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband