Leita í fréttum mbl.is

Já en ísinn á Suðurskautinu hefur ekki minnkað

Í greinaflokki Morgunblaðsins Út í loftið („Ekkert land er eyja“) er talað um hækkun sjávar vegnaÍsinn eykst á Suðurskautinu bráðnunar íss. Þar segir Halldór Björnsson veðurfarsfræðingur: „Mesta óvissan í þessum spám tengist samt því hvort stóru jökulhvelin á Grænlandi og Suðurskautslandinu muni bráðna hraðar en gert er ráð fyrir. Gerist það verður sjávaryfirborðshækkunin meiri.“ (Sjá úrklippu.) Gerir Halldór sjálfur ráð fyrir þessu, eða hefur hann fyrir sér vísindin?

Óttaslegnir lesendur geta huggað sig við að ísinn á Suðurskautinu hefur ekki minnkað. Öðru nær: Ísinn á Aldrei meiri ísSuðurskautinu hefur aldrei verið meiri. Bendir það til þess að sjávarborð eigi eftir að hækka? Líkurnar hljóta að minnka, en ísinn á Norðurhveli hefur minnkað mikið að sama skapi. Kannski jafnar þetta sig út. Hver veit?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er a leidinni heim ad fa mer is...kaldan

Vilberg Olafsson (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 13:04

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einhversstaðar las ég að yfirborð sjávar hækki mest vegna hlýnunar hans en ekki vegna ísbráðnunar. Vatn eykst að rúmmáli við hærra hitastig.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.10.2007 kl. 16:54

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Skarplega athugað.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 15.10.2007 kl. 19:27

4 identicon

Sigurgeir,

Þú ert að rugla saman hafís (sem flýtur á sjónum) og jökulís (sem er á landi).

Bráðnun hafíss hefur engin áhrif á sjávaryfirborð.

Það er rétt hjá Gunnari að væntanleg hækkun sjávar á næstu öld stafar að miklu leyti af hitaþennslu. Óvissan á mati á hækkun tengist nokkrum þáttum og sá erfiðasti þeirra er jökulhvelin. Eins og stendur er útlit fyrir að á Suðurskautslandi muni snjókoma aukast meira en bráðnun á komandi öld, en á Grænlandi muni bráðnun aukast meira en snjókoma. Skilningur vissum ferlum innan þessara jökulhvelja er þó ekki nægilega góður til að hægt sé að leggja mat á óvissuna. Þetta er m.a. rætt í 4. skýrslu vinnuhóps 1 hjá IPCC (bls 751), sjá
http://ipcc-wg1.ucar.edu/wg1/Report/AR4WG1_Print_Ch10.pdf

Varðandi met útbreiðslu vetrarhafíss á suðurhveli, sem er í hámarki á sama tíma og sumarhafís á norðurhveli er lágmarki, má benda á pistil sem ég skrifaði um hafís á norðurhveli og finna má á

http://www.vedur.is/hafis/frodleikur/nr/1062

Sá pistill var m.a. ritaður sem svar við endurteknum fyrirspurnum um hvort hafís væri að hverfa frá norður íshafinu. Því fer fjarri, þó dregið hafi mjög úr útbreiðslu sumaríssins.

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 13:40

5 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Sæll Halldór, þakka þér fyrir að leiðrétta þennan misskilning. Í fljótu bragði mætti áætla að samhengi sé á milli íss í sjó og á landi. Mikill framburður íss úr skriðjöklum stafar væntanlega af miklum ís en ekki litlum á jöklinum (mikill ís: meiri þrýstingur, meira skrið, meiri framburður, fleiri stykki brotna út í sjó).

Áhugaverðast við athugasemd þína er sú staðreynd að talið er að ísinn á Suðurskautslandi muni aukast næstu öldina. Þetta er í mótsögn við það sem kemur fram í viðtalinu í Morgunblaðinu. Etv. væri rétt að senda frá sér leiðréttingu?

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 17.10.2007 kl. 11:04

6 identicon

Sæll Sigurgeir, 

Flatarmál vetraríssins umhverfis Suðurskautslandið fór mest í  um 16 milljónir  ferkílómetra í haust. Þetta slagar hátt í Rússland, sem er 17 milljónir og er merkilegt nokk meira en flatarmál Suðurskautslandsins (14 milljónir).  Flatarmál þess íss sem brotnar frá Suðurskautslandinu á hverju ári er einungis brot af þessu (sem betur fer!).

Sveiflur í stærð hafísþekjunnar eru því ekki góður mælikvarði á ísframburð frá íshvelinu á Suðurskautslandi. 

Íshvel (og reyndar jöklar almennt) eru alltaf að bráðna. En það snjóar líka á þau og það er mismunur ákomu og bráðnunar sem ræður stærðarþróun íshvelsins. Það er því engin mótsögn í því að jökulhvel sé að stækka á sama tíma og það bráðnar (Þetta er sambærilegt við bankainnistæðuna þína, hvort hún stækkar eða minnkar á gefnu tímabili fer eftir mismun á innlögnum og úttektum).

Hvað íshvelið á Suðurskautslandinu varðar er bráðnunin reyndar að stórum hluta í formi borgarísjaka sem brotna frá íshvelinu, reka á hlýrri slóðir og bráðna þar.  

Spár um hækkun sjávaryfirborðs eru tvíþættar, fyrst er spáin sjálf (hvað má búast við mikilli meðalhækkun?) og svo er óvissumatið (hvaða þættir hafa áhrif á spána og hver er óvissan í þeim?).

Síðara  atriðið, það að geta lagt tölulegt mat á óvissuna er ekki síður mikilvægt.

Í nýjustu IPCC skýrslu er yfirlit um spár á sjávaryfirborðshækkun. Flestar spár eru á bilinu 20 - 40 cm, stór hluti af þeirri tölu er varmaþennsla sjávar. Óvissuþættir eru nokkrir, en flestir viðráðanlegir. Erfiðustu þættirnir tengjast jökulhveljunum. Bráðnun þeirra er að hluta háð ísflæðinu (hversu mikið af ís gengur í sjó fram). Þessi ferli eru ekki nægilega vel skilin til þess að menn treysti sér að segja fyrir um hvort þau muni aukast eður ei. Fyrir vikið var ekki sett tölugildi á þá óvissu sem af þessu stafar. Þetta var býsna umdeilt þegar skýrsla fyrsta vinnuhóps IPCC kom út í ár

Niðurstaða IPCC varð samt sú að það væri betra að setja  það óvissumat sem verjanlegt væri, með athugasemd um að ekki væri tekið tillit til hugsanlegra breytinga á flæði jökla. Hinn möguleikinn var að bæta við lélegu mat á óvissu (og hugsanlega spá 20 - 60 cm hækkun).

Óvissu tengda spám á sjávaryfirborðshækkun má því draga samna á eftirfarandi hátt: "mesta óvissan í þessum spám tengist því hvort stóru jökulhvelin á Grænlandi og Suðurskautslandinu muni bráðna hraðar en gert er ráð fyrir. Gerist það verður sjávaryfirborðshækkunin meiri"

Til samanburðar má að lokum geta þess að á síðustu 50 árum hefur sjávaryfirborð hækkað um 10 cm svo IPCC spáin fyrir nýhafna öld (20 til 40 cm) er því á bilinu  sama hækkun (per 50 ár) og verið hefur, eða tvöföldun.

Kveðja

H. 

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 114027

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband