Leita í fréttum mbl.is

Lífið eftir krónu

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig megi losna við gjaldmiðilinn okkar. Að mínum dómi eru kostirnir við að halda úti lögeyri í landinu miklu færri en gallarnir.

Kostirnir eru einkum þeir að með lækkandi gengi er í raun verið að lækka laun sem aftur gerir fyrirtækjum auðveldara með að halda í starfsmenn; þurfa ekki að segja upp fólki. Þessi röksemd fyrir tilverurétti krónunnar er raunar veik núna vegna þess að þrátt fyrir stórkostlegt gengisfall er atvinnuleysið mikið.

Gallarnir eru ma. þeir að krónan er „hagstjórnartæki“ þeirra sem fara með völdin í landinu. Þegar stjórnmálamenn með ranghugmyndir um efnahagsmál halda um stjórnartauma (eins og tilfellið er núna) er auðveldara fyrir þá að glutra efnahagsmálum niður með krónuna að vopni heldur en dali svo dæmi sé tekið. Án krónu er meira aðhald í ríkisfjármálunum. Miklu meira aðhald. Það að Seðlabankinn eigi að heita sjálfstæð stofnun er bara píp, og það er ekki bara píp á Íslandi, heldur í Bretlandi líka. Það sást glöggt í fyrra þegar litlu mennirnir í Stóra Bretlandi beittu Ísland hryðjuverkalögum.

Undanfarin ár hefur gengi krónunnar verið allt of hátt skráð sem kostað hefur útflutningsatvinnuvegina gríðarlegar fjárhæðir. Ferðamenn streyma til landsins nú þegar gengið er veikt. Hversu mörgum ferðamönnum missti landið af undanfarin ár vegna óeðlilega strerkrar krónu? Það eru án efa háar upphæðir. Fyrir utan þetta blekkti of sterk króna flesta landsmenn til að halda að þeir væru ríkari. Það leiddi til aukinna fjárfestinga og meiri viðskiptahalla.

Ísland er lítið land og það er erfitt fyrir embættismenn og stjórnmálamenn að standast þá freistingu að hygla einum á kostnað annars. Þetta kemur glöggt fram ef skoðuð er viðskiptasaga landsins. Flugfélag Íslands sem þá var átti greiðan aðgang að ríkisábyrgðum á meðan Loftleiðir og önnur fyrirtæki í landinu nutu ekki þeirrar fyrirgreiðslu. Þetta olli stórkostlegri markaðmismunun og skaðaði viðskiptalíf landsins mjög. Án krónu væri opinber stjórnsýsla í peningamálum, með tilheyrandi kostnaði, miklu minni og líkurnar á misnotkun því minni að sama skapi. 

Til að losna við byrðina sem krónan leggur á þjóðina ættum við að gera gjaldeyrismál frjáls og leggja niður sérstakan lögeyri á Íslandi. Hver og einn getur þá höndlað með þann gjaldmiðil sem hann kýs. Fyrirtæki sem selur vöru í dölum getur greitt laun í dölum, fyrirtæki sem selur vöru í evrum getur greitt laun í evrum, og svo framv. Í stað fyrirfram ákveðinna launa sem taka ekkert tillit til gengi vöru eða þjónustu á markaði er réttast að taka upp skiptahlutskerfi (eins og tíðkast hefur í sjávarútvegi um aldir), þannig að ef verð á vöru eða þjónustu hækkar, hækka laun til samræmis við það. Varðandi laun opinberra starfsmanna væri eðlilegast að miða við myntkörfu þeirra gjaldmiðla sem mynda tekjur ríkisins. Ef það væri halli á rekstri ríkisins ættu tekjur opinberra starfsmanna að minnka hlutfallslega til að jafna út þann halla og að sama skapi ættu tekjur þeirra að hækka ef það væri afgangur.

Ef notast væri við alþjóðagjaldmiðla á Íslandi myndi verðmætasköpun og eign fólks almennt vera miklu skýrari. Með krónuna eru allir í þoku um raunveruleg verðmæti og eignir. Erlendir aðilar sem hugsanlega hefðu áhuga á að fjárfesta á Íslandi eða stofna þar fyrirtæki, þyrftu ekki að klifra yfir krónuhindrunina (setja sig inn í „hagstjórnina“) og taka á sig þá áhættu sem fylgir gjaldmiðlinum.  

Það væri sársaukafullt að sumu leyti að vera án krónu, en sá sársauki væri jafn og þéttur, en kæmi ekki í bylgjum eins og verið hefur undanfarna áratugi í krónuumhverfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband