Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Bjargvættinum bjargað

Það fer ekkert á milli mála að íslenska krónan bjargaði öllu sem bjargað varð í hruninu. En svo krónan gæti bjargað okkur, þurfti fyrst að bjarga krónunni. Innrita á Landspítalann og tengja við járnlunga og gervinýra, skipta um lifur, heiladingul og gangráð, setja aftur í fitusog og gefa slakandi og örvandi næringu í æð. Þessar mikilvægu björgunaraðgerðir eru kallaðar höft til einföldunar. Meðan krónan er að jafna sig á björguninni hafa góðir menn tekið að sér að hjúkra henni og munu hugsanlega þurfa að gera það eitthvað áfram.

Það var mikið lán hve krónan var vel á sig komin líkamlega fyrir aðgerðirnar, annars hefði hún ekki lifað þær af. Einu aukaverkanirnar sem greindar verða — og það verður að teljast ótrúlega lítið — er að krónan er svolítið rugluð. Það er eins og hún hafi bætt við sig persónuleikum. Fyrir voru náttúrlega þessir tveir sem hún hefur flakkað á milli í þrjátíu ár, 1) Lánakróna og 2) Launakróna, sem illa gengur að lækna hana af. Færustu geðlæknar landsins, sem hafa verið með hana til meðferðar, hafa greint tvo persónuleika til viðbótar: 3) Aflandskróna og 4) Útboðskróna.

Læknarnir skilgreindu persónuleikana í greininni „Fjögur andlit Krónu“ sem birtist nýlega í virtustu læknatímaritum heims. Helstu niðurstöður þeirra eru þessar:

  1. Lánakróna. Í þessum ham er hún yfirlætisfull og frek og veit allt manna best. Hún reynir að fresta öllum hlutum eins lengi og kostur er vegna þess að hún veit að á meðan hækkar verðtryggingin. 
  2. Launakróna. Í þessum ham er hún bljúg og þæg og lætur allt yfir sig ganga og fagnar hverri nýrri krónu sem prentuð er sem væri hún gamall vinur. Fréttum af nýjum tíuþúsundkrónaseðli tók hún svo vel að hún fór með kvæði um krónuna sem hún hafði ekki farið með síðan tvö núll voru fitusogin af henni. 
  3. Aflandskróna. Þegar hún er í þessum ham er sjálfsvirðingin engin og það þarf að setja hana í spennitreyju og binda ofan í rúmið svo hún fari sér ekki að voða. Meðan hún gekk laus klæddi hún sig í efnislítil klæði og falbauð blíðu sína fyrir smánarlega upphæð í skuggalegasta hverfinu í Hamborg. 
  4. Útboðskróna. Í þessum ham er hún í krónísku kvíðakasti og nagar neglurnar á sér niður í kviku. Á nóttunni þylur hún heilu kaflanna úr fræðum Marx utanbókar og rökræðir þess á milli við sjálfa sig um Fylkinguna og Trotsky. Á daginn miklar hún allt fyrir sér og hefur stórkostlegar efasemdir um eigið ágæti. 

Einhverjir kynnu að halda að eins sjúk og hún var gæti krónan tæplega bjargað miklu. Það er misskilningur. Hún bjargaði atvinnulífinu í heild sinni og kom í veg allir nema ríkisstarfsmenn misstu vinnuna með því að gengisfella stórkostlega laun þeirra sem þó höfðu vinnu. Það er ekki lítið afrek af helsjúkri hetju. Atvinnuleysi á Íslandi er ekki nema 6,9% (ef frá er talið fólkið sem flutti burt í atvinnuleit, en það skiptir ekki máli vegna þess að það getur étið það sem úti frýs). Til samanburðar má geta þess að atvinnuleysið í Evrópusambandinu er 10,1% og í Bandaríkjunum 8,3%. Munurinn er sláandi eins og allir sjá.

Alþjóðlegir fjárfestar, sem á mannamáli eru kallaðir fólk með peninga sem langar að ávaxta þá, munu að sjálfsögðu vilja flykkjast hingað eftir að þeir sjá hve vel er búið um krónuna og efnahagslífið. Það er víst svo auðvelt að reka alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi um þessar mundir, ef eitthvað er að marka Össurarmenn. Og sjáið Samherja og alþjóðleg dótturfyrirtæki hans. Þau eru mjög áhugsöm um að stunda viðskipti á Íslandi meðan krónan er í læknismeðferðinni. Með þessu áframhaldi verður Ísland hrein paradís á jörðu og skjaldborgin loksins verða að veruleika.

Fróðlegt væri að heyra frá mönnum í stjórnarandstöðunni hvort þeir treysti sér til að setja krónuna á göngudeild ef þeir komast til valda. Það myndi hjálpa kjósendum að ákveða sig hvað á að merkja við á kjörseðlinum, að minnsta kosti mér. Þótt allir Íslendingar sem einn séu stoltir af krónunni sinni þá getur verið örlítið lýjandi að hafa hana sjúka lengi, ég tala nú ekki um ef persónuleikaflakkið heldur áfram. Mun hún geta gengið óstudd í framtíðinni? 

Ekki að ég sé að leggja það til, þá eru dæmi þess að tækin hafi verið tekin úr sambandi, einkum ef sérfæðingar úrskurða að sjúklingurinn sé sannarlega heiladauður. Enginn er að halda því fram nema örfáir galnir menn að krónan sé heiladauð. Hún er eingöngu að jafna sig og mun hressast um leið og nýi heiladingullinn byrjar að dingla. Mikilvægt er þó að meta stöðuna af yfirvegun og skynsemi. Kalt, eins og sagt er. Vona hið besta en vera viðbúin hinu versta. Hvaða kostir aðrir eru til dæmis í stöðunni ef hið óhugsandi gerðist? Myndi ekki vera skynsamlegast í þeirri stöðu að taka upp Matador-peninga? Ég á svo margar fallegar minningar frá því spili frá því ég var krakki. Það var hægt að kaupa götur og hús inni í lítilli og fallegri sápukúlu spilsins, algerlega laus við heimskuleg og vitlaus markaðslögmálin.

Alþjóðlegar myntir koma að sjálfsögðu ekki til greina fyrir ofurhagkerfi eins og Ísland. Þótt aðrar smáþjóðir hafi látið glepjast og hætt að halda úti eigin gjaldmiðlum, eins og Panama til dæmis, þá er engin ástæða fyrir Ísland að feta þá óheillabraut. Þar er allt flatt og leiðinlegt, sama og ekkert atvinnuleysi, engar gengisfellingar, aldrei nein spennandi áföll á borð við fjármálahrun og efnahagshrun. Bara hundleiðinlegur stöðugleiki og stórlega skert tækifæri fyrir stjórnmálamenn að bora göt fyrir kjördæmin sín. Hvílíkur hryllingur!

Að lokum langar mig að birta ljóðið um krónuna, en það var spilað af geisladiski á ársfundi Seðlabankans nýlega.

Krónan er komin að kveða burt snjóinn,

að kveða burt leiðindin, það getur hún.

Már hefur sagt mér, að senn komi Ólinn,

saksókn í dali og húsleit í tún.

Hún hefur sagt mér til syndanna minna,

ég svindli of mikið og vinni ekki hót.

Hún hefur sagt mér að vakna og vinna

og vonglaður taka nú höftunum mót.


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 114001

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband