Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Stefnt er að... einmitt

Hvílík vonbrigði. Niðurlægingin er fullkomnuð. Lögregluríkið er fætt. Enda blasti það við að höftin voru ekki á förum þótt tal um áætlun um afnám hafta væri í smíðum. Það sýndu gjörðirnar. Aukin harka í að framfylgja þeim. Lúsarleit á flugstöðinni og hlægilegar reglur um hver og hvernig má kaupa gjaldeyri í bönkum. Það má ekki lengur kaupa gjaldeyri í einhverjum banka, nei það verður að vera í þínum viðskiptabanka og þá aðeins með þínu korti á þinn reikning (en þó ekki í Leifsstöð, þar er bara einn Banki og þá gilda reglurnar ekki, hljómar kunnuglega fyrir þá sem þekkja til fyrri haftatímabila).

Þetta er í raun ekki áætlun um afnám hafta, þetta er bara blaður. Áætlun um afnám hafta væri ákveðnar aðgerðir og dagsetningar á þessu ári. Stefna að afnámi hafta kannski hugsanlega mögulega 2015. Aumkunnarvert svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ísland mun dragast aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum á næstu árum. Það er ljóst.

Það sem við þurfum er stefna sem miðar að því að á Íslandi geti hver og einn notað þann gjaldmiðil sem hann kýs. Gjaldmiðlafrelsi. Það er eina raunhæfa leiðin út úr þessu foraði. Íslendingar verða að læra að nýta sér smæðina og græða á henni, láta af mikilmennskubrjálæðinu sem hlegið er að hvarvetna og hætta að skjóta sig í fótinn með „sjálfstæðri“ peningastefnu og efnahagsstjórn. Við þurfum ekki á henni að halda! Sjáið hvert hún hefur skilað okkur, landið er í efnahagslegri rúst.

Tekjur íslendinga eru í erlendum myntum hvort sem er. Hvers vegna skipta þeim í íslenskar krónur? Af hverju getum við ekki bara notað þær beint? Til dæmis þau sem vinna við sjávarútveg eða við aðrar útflutningsgreinar. Hvað kemur í veg fyrir að þeim séu greidd launin í evrum eða dölum eða þeim gjaldmiðli sem notaður er? Laun sem greidd eru fyrir þjónustugreinar innanlands eins og til dæmis í heilbrigðisgeiranum gætu miðast við myntkörfu í sömu hlutföllum og tekjur útflutningsgreinanna.

Er ekki markmiðið að skapa stöðugleika? Eru ekki allir búnir að fá nóg af sveiflunum? Gengisfellingum? Efnahagslegri óstjórn?


mbl.is Höft til 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendir III nálgast!

Ætlarðu að segja nei við Icesave? Hugsaðu þig þá þrisvar um! Það gæti skollið á HEIMSENDIR. Marel, Reykjanesbær, Össur og Landsvirkjun fá hugsanlega ekki lán í útlöndum, gjaldeyrishöftin gætu dáið, erlendir stjórnmálamenn líta hugsanlega íslenska stjórnmála- og embættismenn hornauga í yfir glasbarminn í kokteilboðum í Brussel og íslenskir sérfræðingar í Evrópumálum fá mögulega ekki eins góða skattfrjálsa vinnu hjá Sambandinu og þeim dreymir um. Hörmuleg framtíðarsýn ekki satt? En þú þarft ekki að óttast, keyptu Heimsendabol hjá Egozentric® París, London, Amsterdam, og þér er borgið. 

 Icesave heimsendir 1

Icesave heimsendir 2

Heimsendir III

Gakktu um í staðfestingu þess að heimsendirinn er í nánd! Hvort sem það er gamli heimsendirinn eða sá yfirvofandi. Vertu vinum þínum þörf áminning um hvað mun gerast breyti þeir ekki rétt. Auðvitað eiga Íslendingar að greiða fyrir misheppnuð viðskiptaævintýri Björgólfs og félaga í útlöndum. Hvernig datt nokkrum manni annað í hug en það væri sjálfsagt? Hver kannast ekki við að hafa skrifað undir víxil hjá skyldmenni? Þetta er alveg eins. Sama góða tilfinningin fyrir að allt fari á besta veg. Enda er bjart framundan í efnahagsmálum heimsins, einkum í Evrópu, svo það er ekkert að óttast. Þrotabú Landsbankans er hvort sem er svo auðugt að það næst upp í allar kröfur, samþykkt skuldaviðurkenningarinnar er bara málamyndagjörningur og mun í mesta lagi kosta þjóðina 700 milljarða. Að vísu vildu viðsemjendurnir ekki bara taka þrotabúið og láta gott heita, en það er ekki vísbending um eitthvað óeðlilegt, nei, það er vísbending um að Íslendingar eru snillingar í samningum, snillingar sem láta einskis ófreistað við að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Einhver gæti sagt: „Þótt stjórnmálamennirnir hafi lofað endurgreiðslu, þá gerði ég það aldrei.“ Það er rétt upp að vissu marki. Stjórnmálamennirnir eru handhafar sjóðsins okkar og geta tæmt hann eftir eigin geðþótta og tæmt vasa komandi kynslóða líka til að greiða það sem út af stendur. Eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar ver þetta einmitt með tilliti til almannahagsmuna. Það þarf engan lögfræðing til að skilja þetta.

Hér er uppfærð verðtafla frá því bolirnir voru tveir: Verðið er ekkert minna en æðislegt, þú sparar 378% 435% frá listaverði og þarft aðeins að reiða fram 29,990 krónur fyrir stykkið, staðgreitt. Inn í þessu einstaka afsláttarverði er 30% virðisaukaskattur, en hann er hafður svona hóflegur vegna hinnar GLÆSILEGU niðurstöðu íslensku samninganefndarinnar í Icesave [I, II og III] (innsk. blm.). Sérstakur afsláttur er veittur ef allir bolirnir eru keyptir, eða 456% 767% af listaverði. Samtals kosta bolirnir tveir þrír, pakkaðir í plast, aðeins 75,990 124,990 krónur.

Bolirnir fást í öllum stærðum, hvítir með svörtu letri. 0,001 prósent af sendingarkostnaðinum rennur óskipt til Stjórnmálamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.


Baggalútsfrétt?

Þetta hljómar eins og frétt úr Lauknum eða Baggalúti. Og þetta hús, er það á Íslandi? Ekki væsir um Samkeppniseftirilitið í þessu húsi, ætli það sé með allar hæðirnar? Talandi um samkeppniseftirlit og verðsamráð. Hefur engum dottið í hug að líta á Mjólkursamsöluna og fyrirkomulag sölu á landbúnaðarafurðum? Þeir eru svo sniðugir stjórnmálamennirnir okkar að þeir tóku „ólöglegt“ frá „samráð“ þegar kemur að mjólkinni. Allt er gert til að koma í veg fyrir dónalega hegðun fyrirtækja á markaði en grófur dónaskapur við almenning í samband við mjólkurframleiðslu er látinn óátalinn. Sorglegt. Þetta er sjúkdómseinkenni Íslands, klíkuskapur sem hyglir fáum en skaðar fjöldann.
mbl.is Heitir nú Byggingavörur Dúdda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband