Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

RÚV næsta Netflix?

Nýlega gerðist ég viðskiptavinur Netflix og greiði fyrir þjónustuna fjórtán dali á mánuði. Fyrir þá sem þekkja ekki Netflix, þá er Netflix sjónvarpsstöð og vídeóleiga sem sendir myndir út til viðskiptavina með pósti og yfir internetið. Inni í þessum fjórtán dölum eru tveir diskar á dag og ótakmarkað gláp í gegnum tölvu, Play Station eða sjónvarpið (sé það útbúið móttökutækni).

Netflix

Netflix hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum.

Kunningi minn er með Netflix eins og ég. Sá er þó munurinn á okkur að hann er eingöngu með Netflixið. Ekkert hefðbundið sjónvarp.  Ekki með stöðvar á borð við RÚV, Stöð tvö, ÍNN og Skjá einn. Enga stöð sem mallar daginn út og inn án tillits til þess hvort það henti áhorfendum eða ekki.

Stóra planið

Stóra planið á Netflix.

Netflix er einn af boðberum mikilla breytinga sem eru að eiga sér stað. Hefðbundið sjónvarp er barn síns tíma, barn þess tíma þegar eini möguleikinn á miðlun efnis var einhliða. Fyrirtæki sem senda úr efni á hefðbundinn hátt verða að bregðast við nýjum veruleika og hasla sér völl á þessu sviði. Netið er að taka yfir sem miðill efnis. Áhorf á hefðbundið sjónvarp, eins og til dæmis RÚV, fer minnkandi. Enda ekki skrýtið, flestir vilja ráða því sjálfir hvenær þeir horfa.

Nói Albínói

Nói Albínói á Netflixinu.

Ríkismiðillinn íslenski er í góðri aðstöðu til þess að gerast slíkur miðlari (gæti heitið Rúvflix, borið fram rúhffligs, beygist eins og kornflex. So: rúvflixa). Í safni Rúv er mikið af íslensku efni, útvarps- og sjónvarpsefni, sem myndi án efa njóta vinsælda ef hægt væri að leigja eða kaupa sérstaklega og horfa eða hlusta á yfir net eða af diski.

Umbreyting á Rúv í gagnvirkan miðlara efnis yrði þó að vera gert með samningum um að hlú að íslenskri menningu og tungu, vegna þess að menningarþátturinn er eiginlega eina haldgóða röksemdin fyrir tilverurétti Rúv. Flestir eru sammála um að það er ekki hlutverk ríkisins að sýna sjónvarpsþáttinn „Aðþrengdar eiginkonur“, svo dæmi sé tekið (þótt góðir séu). Það þarf líka að gæta þess sérstaklega að staðið sé við gerða menningarsamninga (en á því virðist vera misbrestur. Það að skrækja íslensku inn á erlent barnaefni er sögð vera íslensk kvikmyndagerð í bókum Rúv).

Gamanmyndir frá fjórða áratug síðustu aldar

Úrvalið hjá Netflix er afar gott. Hér eru gamanmyndir frá fjórða áratug síðustu aldar (sem ég er hrifinn af í augnablikinu).

Rúvflix gæti, ef rétt er á málum haldið, orðið vettvangur innlendrar kvikmyndagerðar af öllum tegundum. Framhaldsþætti, stuttmyndir, heimildarmyndir, viðtöl og hvaðeina sem sköpunargáfan getur af sér, mætti sýna á Rúvflixinu. Semja mætti við rétthafa um greiðslu fyrir hvert skipti sem horft/hlustað er á efnið. Með því móti fæst góður mælikvarði á vinsældir og höfundar fá greitt í samræmi við notkun. Enginn þarf að kvarta undan mismunun þegar áhorfendur sjálfir greiða fyrir notkunina, hvort sem það er beint eða með nefskattinum.

Queen Raquela

Queen Raquela á Netflix. Það má með sanni segja að Netflix sé Íslandsvinur. Að sama skapi er ljóst að Ólafur Jóhannesson kvikmyndagerðarmaður er útrásarvíkingur.

Það setur strik í reikninginn að ríkisfyrirtæki eins og Rúv er í eðli sínu ekki framsækið. Ég tel að það stafi af því að langflestir gera sér grein fyrir að ríkisrekstur á fjölmiðli er óviðeigandi, þótt þeir viðurkenni það ekki opinberlega og það hefur lamandi áhrif svipað og vond samviska. Flestar röksemdirnar fyrir sérstöku ríkisfyrirtæki í fjölmiðlarekstri hafa verið hraktar, einkum síðari ár. Hvort sem það er öryggishlutverk vegna hamfara, þjónusta við landsbyggðina, stuðningur við menningu eða hlutleysi í fréttaflutningi. Netið eitt og sér tryggir öllum greiðan aðgang að fjölmiðli og þar fær menning þjóðarinnar notið sín með sínum kostum og göllum. Líkurnar á því að Rúv gerist Rúvflix verða að teljast frekar litlar.  

Ég myndi taka því fagnandi og jafnvel gerast áskrifandi ef efni úr safni Sjónvarpsins yrði gert aðgengilegt á netinu. Safn sjónvarpsins er nefnilega eins og Borgarbókasafnið sem heldur utan um menningu þjóðarinnar. Munurinn er þó sá að Borgarabókasafnið er aðgengilegt almenningi en Safn sjónvarpsins ekki. 


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 113946

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband