Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Kófsveitt

Fréttir eru í eðli sínu meira vondar en góðar. Góðar fréttir eru einhvern veginn léttvægari, finnst mörgum, en fréttir af óförum eða hörmungum. Ég er mikill aðdáandi góðra frétta og les þær iðulega á undan hinum vondu. Hjarta mitt tók gleðikipp í síðustu viku þegar ég sá baksíðu Moggans. Þar var mjög góð frétt. Frétt um að fólk kæmi kófsveitt úr leikfimi. En hvað það var nú ánægjulegt. Kófsveitt fólk sem kemur úr leikfimi getur aðeins þýtt duglegt, samviskusamt og heilbrigt fólk sem tekur virkilega á því í líkamsræktinni og hlífir sér hvergi, svíkst ekki undan með því að lyfta léttari lóðum og taka færri æfingar. En gleði mín dvínaði nokkuð þegar ég sá undirfyrirsögnina. Engar sturtur í einhverjum skólanum. Það er virkilega slæm frétt og meira í takt við eðli frétta. Þrátt fyrir það huggaði ég mig við þá staðreynd að hvað sem sturtumálum þessa skóla líður, taka krakkarnir á því í leikfiminni. Því ber að fagna vegna þess að síðast þegar ég vissi fór æska landsins stækkandi á þverveginn. Æsku landsins er þá viðbjargandi. Stórkostlegt!

Kófsveittir krakkar

Fáar fyrirsagnir og fréttir hafa í sér eins miklar dramatískar sviptingar eins og þessi. Fyrst er maður virkilega glaður fyrir hönd þeirra sem stunda leikfimi, svo kemur í ljós að þau komast ekki í sturtu, þá er maður sorgmæddur. Svo gleðst maður aftur yfir þeirri óvæntu gleðifrétt að þau taki hraustlega á því í leikfiminni en mæta ekki með vottorð eða neita hreinlega að hreyfa sig fyrr en sturturnar eru komnar í lag.


Framtíðarsýn reynist rétt, sprengir upp verð á gömlum bol!

Við tiltekt í vöruskemmu Egozentric®© París, London, Washington, Hannover, kom í ljós bolur sem talið var að væri uppseldur fyrir löngu. Bolurinn var gerður fyrir viðskiptavin sem hafði ákaflega fallega framtíðarsýn og vildi tryggja að fleiri nytu hennar með honum. Framtíðarsýnin var ekki bara falleg, heldur líka sönn og rétt. Svona djúpvitrir spakvitringar eru vandfundnir; viðskiptavinir sem SKILJA að nokkur lykilatriði þarf að leysa svo smjör drjúpi af hverju strái á Íslandi og hafa bæði kjark og þor til að segja það upphátt.

Góðæri ef Davíð verður rekinn

Aðeins fundust nokkur rauð eintök af stærðinni 50. Vegna óbeins kostnaðar við gerð bolarins, þrældóms barna, kvenna og gamalmenna á Madagaskar, viðbjóðslegra efna sem runnu út í umhverfið við vinnslu tausins  og gróðurhúsagassins sem varð til þegar saumakonurnar fretuðu eftir rúgbrauðið sem þær fengu í hádeginu, verður að stilla verðinu í sannkallað óhóf, eða aðeins 55.600 krónur stykkið óplastað. Plastaður kostar bolurinn litlar 78.232 krónur. Tilboð! Ef þú kaupir tvo færðu þá á 245.000 krónur. 0,0001% af pökkunarkostnaði rennur óskiptur í gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.


Hvar eru mínar afskriftir?

Egozentric Designs®©, París, London, New York, Róm er stolt af því að kynna nýjasta bolinn sinn. Hann er að þessu sinni ekki hannaður fyrir viðskiptavin, heldur stofuna sjálfa, enda fór stofan, eins og svo margir aðrir, fremur geyst á árunum fyrir hrun og tók lán sem nutu gengistryggingar. En svo virðist sem stofan hafi ekki verið nógu stórtæk. Aðalhönnuðurinn hefði mátt segja sér það sjálfur, maðurinn sem á mannamótum þuldi jafnan spekina „skuldirðu lítið á bankinn þig, skuldirðu mikið átt þú bankann,“ til að sýnast gáfulegur.

Bolurinn er þýðing á hönnun sem stofan hefur gert fyrir erlenda viðskiptavini (Where is my bailout).

 Hvar eru mínar afskriftir?

Vertu harður á þínu og sýndu stjórnvöldum og bankavöldum enga miskunn. Stærð 1-100. Litur: Rauður. Bolurinn er sem fyrr úr óviðjafnanlegri bómull, þrælatíndri með berum, blóðugum höndum á Madagaskar. Verð aðeins 19900 krónur. 0,05% af sendingarkostnaði rennur óskipt til afskriftasjóðs Íslandsbanka.


mbl.is 54,7 milljarðar afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband