Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Þversögn

Björn Bjarnason skrifar 24. júní:

„Icesave-samningurinn er rökstuddur á þann veg, að hann auðveldi aðild að Evrópusambandinu. Aðild er rökstudd með því, að hún geri kleift að taka upp evru. Með Icesave-skuldbindingunum er borin von, að Íslendingar standist Maastricht-skilyrðin, án þess geta þeir ekki tekið upp evru. ESB-fjölmiðlarnir ræða þennan „vinkil“ málsins að sjálfsögðu ekki.“

Þetta er skarplega athugað og ættu ESB sinnar að hugleiða. Með því að hafna samningnum og segja „só sú mí“ er Ísland miklu nær því að geta gengið í þann klúbb sem þeir vilja ekki tilheyra samkvæmt skoðanakönnunum.

Hlægilegt er að fylgjast með hræðsluáróðrinum fyrir því sem mun gerast neiti Íslendingar að samþykkja. Enginn þarf að óttast þótt við segjum nei. Evrópusambandið mun gera okkur nýtt tilboð þar sem til dæmis vextirnir eru 3%. Það er tala sem er miklu nær því að vera sanngjörn þegar litið er til þess hve stýrivextir (ríkisvextirnir) eru lágir.


Hvað með embætti Netlögreglustjóra?

Kæri Steingrímur, ekki gleyma að stofna það embætti. Þú getur ekki ímyndað þér hvað mikill ósómi þrífst á netinu. Skelfilegt að sjá hvað mannskepnan er ófullkomin. Þið verðið að setja í lög að enginn megi vera ófullkominn, þá hætta allir að vera ófullkomnir. Alveg eins og það hætta allir að neyta örvandi efna eða kaupa sér blíðu þegar það hefur verið bannað með lögum.

Bifreiðagjaldið sem nýlega var hækkað, átti aðeins að vera við lýði í skamman tíma. Síðan eru liðin 25 ár og ekkert fararsnið á því. Þessi Bankasýsla sem á aðeins að lifa í fimm ár, mun ekki vera lögð niður að þeim tíma liðnum. Það kennir sagan. Ríkið hefur ódrepandi seiglu við að þenja sjálft sig út og viðhalda sér.

Í stað þessarar Bankasýslu væri eðlilegast að þjóðinni, þessari sömu þjóð sem svo margir telja sjálfa sig vera fulltrúa fyrir, væri send hlutabréfin í ríkisbönkunum. Þá þarf enginn að velkjast í vafa um það hvort rétt hafi verið staðið að sölunni, hvort klíkuskapur hafi ráðið ferðinni og svo framvegis. Hvernig væri það nú að fulltrúar „þjóðarinnar“ sýndu í verki að þeir eru í raun fulltrúar þjóðarinnar, en ekki loddarar sem þykjast vera það í því skyni að komast til valda.


mbl.is Stofna Bankasýslu ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurðarhnífurinn

Eins og aðrir Íslendingar bíð ég spenntur eftir niðurskurðinum á ríkisútgjöldum sem framundan er. Það voru nokkur vonbrigði að það skyldi ekki vera tilkynnt á þjóðhátíðardaginn vegna þess að niðurskurður á ríkisútgjöldum varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Því minni ríkisumsvif, því meira sjálfstæði hvers og eins. Því meira sjálfstæði hvers og eins, því meiri ábyrgð hvers og eins. Ég er sannfærður um að allir Íslendingar eru tilbúnir að auka ábyrgð sína ef það má verða til þess að koma þjóðinni út úr skuldafeninu sem við blasir. Ríkisstjórnin sem nú situr telur að skuldafenið sé þjóðinni að kenna, að þjóðin hafi gert einhver afglöp. Það er mikill misskilningur, en skiljanlegur misskilningur, hún skilur að því er virðist ekki upp eða niður í málinu. Ég fyrir mitt leyti tók ekki þátt í víkingaleiðöngrum á erlendri grundu og á því bágt með að sjá að skuldahalinn sé mér að kenna. Svo er um flesta aðra.

Þegar hrunið varð var Icesave aðalmálið, sökudólgurinn. Ekki leið þó á löngu að Kaupþing varð sökudólgurinn. Nú er Icesave og Landsbankinn aftur orðið að sökudólgi og það réttilega. Fjandgerving Kaupþings í nokkra mánuði var áhugaverður kafli í þessari sögu. Flestir, ef ekki allir, vita að Kaupþing var langbest rekni bankinn í þrenningunni. Fróðlegt verður að fara í saumana á þessu máli.

Ég held að Ísland hafi dagað uppi í alheimsvæðingunni. Það voru mistök að halda úti eigin gjaldmiðli sem auðvelt er að ráðast á og kostnaðarsamt að reka. Fyrirtæki verja stórfé á hverju ári í gengisflökt og -útreikninga. Ef landið hefði lagt niður krónuna og lagt til að hver og einn versli með þann gjaldmiðil sem hann sjálfur kýs værum við ekki í þessum sporum í dag. Án krónunnar þarf enga embættismenn með laun og fríðindi við að reikna út gengi, leggja á stýrivexti, prenta peninga og allt það sem þessu misskilda sjálfstæðistákni fylgir (sem var flott til að byrja með). Tekjur landsins koma hvort sem er meira og minna að utan, hvers vegna að eyða kröftum í að skipta þeim í íslenskan gjaldmiðil? Það hljómar eins og hvert annað bull að verja tíma og kröftum í það. Ég hef fjallað um það áður að einfaldasta lausnin á launamálum er að taka upp hinn klassíska skiptahlut sem tíðkast hefur í sjávarútveginum svo lengi sem hann hefur verið stundaður.

Mín sparnaðartillaga er að leggja niður íslenska seðilinn og íslenska seðlabankann.


Kóngur um stund!

Hver kannast ekki við að hafa liðið eins og aumingja, verið lítill ræfill fullur minnimáttarkenndar yfir hlutskiptinu? En ekki lengur. Nú getur öllum liðið eins og kóngi. Eina skilyrðið er að þeir drekki Gevalía kaffi sem ekki er búið að taka koffínið úr. Aðeins skoffín hundsa koffín. Egozentric™®© hefur gert samning við góðan viðskiptavin um nýja herferð fyrir fyrirtækið. Er þessi bolur fyrsta skrefið í þeirri löngu og farsælu vegferð.

Fíkniefnakóngur

Vertu fíkniefna KÓNGUR og drekktu aðeins Gevalía kaffi. Stærð 1-100, litur Gull. Ekki láta boð og bönn misviturra yfirvalda um hvað er gott fíkniefni og hvað vont, trufla þig. Berðu það undir eigin dómgreind hvað þér er fyrir bestu og láttu aðra um að meta hvað þeim sjálfum er fyrir bestu. Verð aðeins 100 dalir. 0,5% af sendingarkostnaði rennur óskiptur til Skrílsheilsustöðvar.


Ókeypis vaselín

Handa öllum þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið. Dósirnar verða afhentar á ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins frá og með 17. júní.
mbl.is Varar við of mikilli bjartsýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjallt hjá ríkisstjórninni

Að semja um að greiða skuldina, en greiða ekkert fyrr en eftir sjö ár. Þetta er forsenda fyrir að hægt sé að leika leikritið: „Hér er allt í himna lagi.“ Velta vandanum yfir á næstu stjórn, kaupa sér grið, láta sem ekkert sé. Halda völdum og koma sér betur fyrir. Fresta erfiðum ákvörðunum. Sofa á dýnunni en byrja ekki að borga fyrr en eftir sjö ár. Hljómar eins og hallærislegur raðgreiðsludíll.

Þessi samningur er algjörlega á skjön við allt sem heitir lýðræði og reisn í samskiptum þjóða. Íslendingar eiga að fara fram á að mál þetta verði til lykta leitt fyrir dómstólum. Hugsanlega væri í lagi að skrifa undir samninga en gera það með þeim fyrirvara að dómstólar fjalli um málið og endanleg niðurstaða verði fengin þar. 

Evrópusambandið gefur sig út fyrir að vera lýðræðisbandalag en þegar upp er staðið er það bara dónalegur ruddi sem neytir aflsmunar í samskiptum. Mér er það fullkomlega óskiljanlegt að nokkur á Íslandi skuli vilja ganga í þetta bandalag. Heimurinn er stærri en svo og upplýsingatæknibyltingin hefur gert það að verkum að hægt er að eiga viðskipti á einfaldan og fljótlegan hátt við nánast allar þjóðir. Samtryggingarbandalag Evrópu er gamaldags fyrirbæri sem hægt en örugglega er að tapa í samkeppni við aðrar þjóðir um hagvöxt og velsæld. Í alþjóðlegu samhengi er Evrópusambandið bara lítið aumt ræksni. Sú lotning sem margir á Íslandi bera fyrir því er á misskilningi byggð.

Ég tel eðlilegt að Íslendingar láti á það reyna hvort sambandið neyti í raun aflsmunar ef við neitum að gangast undir þetta ömurlega samkomulag.


mbl.is Bretar fagna Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 113998

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband