Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Alfreð Elíasson og Loftleiðir frumsýnd 8. maí í Kringlubíó

Loftleiðir flugu langt og hátt

Góðir farþegar, velkomnir um borð í flugvél Loftleiða, vinsamlega spennið sætisólarnar, hafið poppið og kókið tilbúið og munið að þetta er ævintýraferð sem fjallar um samheldinn hóp sem gafst aldrei upp þótt á móti blési og gerði Loftleiðir að mesta viðskiptaævintýri Íslands á 20. öld. Athugið að á leiðinni tekur vélin tilfinningadýfur, upp í hæstu hæðir og niður í hyldjúpt svartnættið. En Örvæntið eigi. Loftleiðaandinn lifir!


Litli maðurinn

Þetta er nákvæmlega það sem búast má við af litlum manni. Það voru myndir af Brown um daginn í sjónvarpinu þar sem hann stóð meðal stjórnmálaleiðtoga heimsins. Það sem ég sá var lítill maður, lítill aumur maður. Því það eru bara litlir menn sem haga sér gagnvart Íslandi eins og hann gerði.
mbl.is Segir Brown taka æðisköst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningunni svarað

Fyrir nokkrum vikum spurði Vefþjóðviljinn í sakleysi sínu hver hefði fengið mest í sinn hlut vegna hinna óréttlátu eftirlaunalaga. En fátt varð um svör. Fjölmiðlar sem áður höfðu argað og gargað og hamast eins og naut í flagi vegna þessara óréttlátu sjáftökulaga, vissu ekki svarið eða kusu að þegja. Ósóminn eins og lögin voru kölluð voru harðlega gagnrýnd af mörgum, ekki síst Vinstri Grænum. Nú er sem sagt búið að svara spurningunni. Maðurinn á myndinni í auglýsingunni sem birtist hér í óþökk miðlægs kosningastjóra ákveðins flokks er eftirlaunagreifinn. 15 millur takk.

Topp eftirlaunaþeginn sem þó er enn í fullu fjöri

Myndin tengist fréttinni ekkert.


Lýðræðisást

Ég ók í 3 tíma og greiddi 18 dali fyrir atkvæðin okkar 2. Ef þetta er ekki ást á lýðræðinu veit ég ekki hvað.

Þótt ég hafi hugleitt það að skila auðu, virkar það eitthvað svo heimskulegt að aka alla þessa leið til þess eins að skila auðu. Þannig að ég gerði það ekki. Etv. hefði ég skilað auðu ef ég hefði getað labbað í rólegheitunum á kjörstað. Hm... 

Varðandi ESB þá tek ég Loftleiðir til fyrirmyndar. Þeir voru aldrei með í samtryggingarbandalagi IATA (Alþjóðasamtökum flugfélaga) og högnuðust á því. Gátu ráðið verðum á flugmiðum sjálfir og samlokustærð. Við Íslendingar eigum að vera utan við samtryggingarbandalag ESB og hagnast á því. Heimurinn er okkar markaðssvæði, við eigum ekki að glápa eins og hauslausar hænur til Evrópu.

„Skrifaðu nú fíflið þitt“ var einu sinni lína í bréfi ef ég man rétt.

Leið Íslands eftir kosningarnar

Myndin tengist fréttinni ekkert.


Stjórnmálin

Ég hef nú ekki fylgst mikið með kosningabaráttunni, en ég tók þó eftir að Þráinn Bertelsson er í forsvari fyrir Borgarahreyfinguna sem er víst sjálfskipaður fulltrúi þjóðarinnar í stjórnmálum, réttlátri reiði og einhverju fleiru. Þrátt fyrir að vera allur af vilja gerður á ég erfitt með að sjá Þráinn Bertelsson fyrir mér sem ferskan vind á Alþingi eða bara hvar sem er (þótt hann sé góður kvikmyndagerðarmaður). Jæja, ég ætla nú ekki að níða niður þetta framboð sem margir vina minna eru í. Vonandi afneita þeir mér ekki fyrir að velja annað fótboltalið en „þjóðina“.

Stjórnmálaflokkar eru einmitt ekki ósvipaðir fótboltaliðum, eru hópur manna með það markmið að koma sjónarmiðum sínum í framkvæmd. Sumir velja að halda með einu liði, aðrir halda með því liði sem vinsælast er hverju sinni. Aðrir velja að halda með liðum sem kallast geta litla liðið, minnipokarnir (stjórnmálaflokkar endurspegla að sumu leyti hvernig menn upplifa sjálfa sig). Í upphafi keppnistímabilsins, eða kjörtímabilsins, velur maður að halda með einu liði í þeirri von að það lið muni gera góða hluti. Líkingin við fótboltaliðið er mjög nálægt sanni vegna þess að verið er að ákveða að styðja einhvern án þess að árangur sé tryggður. Kosningin er von. Í þessum kosningum er staðan öll önnur en venjulega. Það fer ekkert á milli mála að ég veit hverjum ég treysti ekki til að fara með stjórn landsmála. Vinstri grænir eru úti að aka í efnahagsmálum og munu aðeins skemma enn frekar fyrir þjóðinni álpist þeir í ríkisstjórn (eru búnir að sýna það á þeim stutta tíma sem þeir hafa verið við völd). Eina sem þeir hafa fram að færa sem vit er í er andstaðan við ESB, en þeir virðast ætla að selja sig eins og hver önnur mella í því máli. Samfylkingin stillir fram sama gamla liðinu og áður og ekki er það hópur að mínu skapi, afglapar á afglapa ofan. Það virðast allir búnir að gleyma að Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn er búinn að vera. Frjálslyndir líka. Borgarahreyfingin er eins og liðið sem komst upp úr annarri deildinni og ætlar nú að keppa í fyrstu deild. En þeir stilla fram Þráni Bertelssyni! Æjæ. Getur hann eitthvað í fótbolta? Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið villur vega undanfarin ár. Ríkisútgjöld og umsvif hafa þanist út og þeir stóðu ekki við eigin loforð um skattalækkanir. Skattalækkunarsvikin voru vísbending um að Geir væri ístöðulaus og í raun ekki fær um að leiða flokkinn (gott að vera vitur eftir á). Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna eru hneyksli, ekkert minna. Ég hef gagnrýnt þann flokk í riti undanfarin misseri og ár svo því sé haldið til haga. Plúsinn við Sjálfstæðisflokkinn er að þar hefur orðið mest endurnýjun og hann er ekki á þeim buxunum að skríða í ESB og margir þar innanborðs vilja henda krónunni og koma á gjaldmiðlafrelsi. Á þeim forsendum hyggst ég veðja á Sjálfstæðisflokkinn þótt það sé gert með nokkru óbragði.


Sjálfstæðisflokkurinn

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið villur vega undanfarin ár, týnt sjálfum sér undir stjórn ístöðulausra manna, er sá flokkur engu að síður sá flokkur sem kemst næst því að standa fyrir þau sjónarmið sem ég aðhyllist. Af vondum kostum í stöðunni er hann illskástur. Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir, er ég enginn aðdáandi stjórnmálamanna yfirleitt. Stjórnmálamenn vorra daga virðast halda að þeir einir hafi frítt spil þegar það kemur að ábyrgð og ráðdeild. Þeir líta að því er virðist á stjórnmálin sem tækifæri til að leika sér á launum. Það hefur komið átakanlega í ljós undanfarið að þeir hafa margir hverjir ekkert sinnt hlutverki sínu. Verið úti að aka í orðanna fyllstu merkingu (hver man ekki eftir Björgvini G. Sigurðssyni sem vissi ekkert um ástand efnahagsmála en var þó ráðherra viðskipta! Og hann er í efsta sæti í einhverju kjördæmi eins og ekkert hafi í skorist).

Það er vitaskuld reginhneyksli að stjórnmálamenn skyldu samþykkja lög um að gera stjórnmálaflokkana að ríkisstofnunum. Hundruð milljóna renna í sjóði flokkanna á ári hverju og þeir þurfa ekkert að gera grein fyrir fénu. Þessum lögum þarf að breyta hið fyrsta, enda hefur ríkið ekki efni á að kosta starfsemi stjónrmálaflokkanna lengur.

Að mínum dómi þarf að setja stjórnmálamönnum skorður í formi eiða eða reglna, eins og til dæmis að stofnanir sem undir ráðuneytin heyra, verði að vera rekin innan þeirra marka sem fjárlögin setja þeim. Að öðrum kosti verði ráðherrarnir látnir sæta refsingu, fangelsi eða afsögn. Menn eru sendir í fangelsi fyrir að stela nokkrum milljónum. Halli á ríkisstofnunum upp á milljónatugi eða jafnvel hundruð eru látin óátalin. Það er óásættanlegt. 

Einnig þarf að fara fram umræða um það hvaða hlutverki ríkið á að gegna í þjóðfélaginu. Það er ótækt að ríkið hagi sér eins og klikkaður einræðisherra sem bannar þetta og hitt eftir eigin geðþótta. Grundvallar reglan skal vera sú að fullorðið fólk beri ábyrgð á sjálfu sér og sé frjálst gjörða sinna hvort sem það vilji setja ofan í sig vímuefni, spila fjárhættuspil eða fækka fötum eða bara hvað sem því dettur í hug. Ofstæki gegn nektardansi og sumum vímuefnum er birtingarmynd þess að viðkomandi aðilar geta ekki horfst í augu við eigin eðli, púkann ef svo mætti kalla, í sjálfum sér. Púkinn verður ekki bældur, lög gegn honum munu aðeins gera hann grimmari og miskunnarlausari. Ríkið á ekki að taka að sér að vera allt um lykjandi umsjónaraðili sem hrifsar til sín ábyrgð sem á að vera hvers og eins. Um leið og ábyrgðin er farin er frelsið farið líka.

Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn setji frelsi einstaklingsins og vörn um ábyrgð manna á sjálfum sér á oddinn. Þá mun honum vel farnast. Vinstri stjórnin sem að öllum líkindum verður mynduð eftir kosningar og springur svo í loft upp eftir eitt eða tvö ár, gefur Sjálfstæðisflokknum kærkomið tækifæri til að ná aftur vopnum sínum og hinn nýja formann að festa sig í sessi.


Sökudólgurinn

Hverjir eru það sem bjóða sig fram til að stjórna efnahagslífinu? Stjórnmálamenn.

Hverjir eru það sem setja leikreglurnar á markaðnum? Stjórnmálamenn.

Hverjir eru það sem settu ríkisábyrgð á innistæður í bönkum? Stjórnmálamenn.

Hverjir eru það sem nú eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður? Stjórnmálamenn.

Hverjir eru það sem setja á stofn eftirlitsstofnanir á borð við Fjármálaeftirlitið? Stjórnmálamenn.

Hverjir hafa með hagstjórn landsins að gera? Stjórnmálamenn.

Hverjir sömdu fyrir Íslands hönd um EES? Stjórnmálamenn.

Hverjir ákveða stýrivexti? Stjórnmálamenn.

Hverjir hafa umsjón með seðlaprentun? Stjórnmálamenn.

Hverjir funduðu með breskum stjórnvöldum um Icesave? Stjórnmálamenn.

Hverjir hækkuðu lánshlutfall Íbúðalánabanka ríkisins upp í 90%? Stjórnmálamenn.

Hverjir lánuðu í nafni Íbúðalánabanka ríkisins öðrum bönkum 100 milljarða í samkeppni við Kaupþing á húsnæðislánamarkaði með tilheyrandi verðbólu? Stjórnmálamenn.

Hverjir reka Seðlabankann? Stjórnmálamenn.

Hverjum er hrun fjármálamarkaðsins að kenna? Nú auðvitað Kaupþingi.


Afglapinn

Ég er búinn að átta mig á því að Geir Haarde er afglapi sem gerði Sjálfstæðisflokknum meira ógagn en gagn. Ég vissi svo sem fyrir að hann væri einungis fær um að vera leiðtogi í góðu árferði. Davíð Oddsson hins vegar var frábær leiðtogi í vondu árferði en síður góður í góðu árferði. Þá skorti hann verðuga viðspyrnu. Vefþjóðviljinn fer fyrir afar góðu uppgjöri og umfjöllun um Sjálfstæðisflokkinn nú um stundir sem ég hvet alla til að lesa.


Aðgerðir ríkisins

Eftir kreppuna miklu árið 1929 settu stjórnmálamenn í Bandaríkjunum í gang mikið opinbert kerfi sem átti að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný. Það gerðist ekki. Það sem kom hjólum efnahagslífsins á sama snúning og fyrir kreppuna var heimsstyrjöldin. 1942 fór atvinnuleysi í Bandaríkjunum fyrst niður í sömu tölu og fyrir 1929. Það er svolítið skondið að á ráðstefnu stærstu iðnríkja heims sem haldin var í London 1932 til að finna leiðir út úr kreppunni var aðalmálið að fá stjórnmálamenn til að gera ekki það sem þeir höfðu gert, eða ætluðu að gera: Leggja ekki á verndartolla og önnur innflutningshöft. Er það ekki nokkuð kaldhæðnislegt að helstu aðgerðirnar gegn kreppu er að biðja stjórnmálamenn að hafast ekki að? Samt er eins og þeir haldi að þeir einir geti leyst vandann, vanda sem aðgerðir þeirra og yfirsjónir komu heiminum m.a. í. Ég vil ekki vera of svartsýnn, en ég óttast að aðgerðir stjórnmálamana séu verri en engar aðgerðir stjórnmálamanna.

Too big to fail

Hver kannast ekki við fyrirtækin sem eru of stór til að fara á höfuðið? Hver kannast ekki við einstaklinga sem eru of litlir til að skipta máli? En ekki lengur. Egozentric™®© París, London, Róm, Mílanó hefur sett á markaði í samvinnu við góðan viðskiptavin bol sem gerir öllum kleift að vera „too big to fail“ eins og sagt er í útlöndum núna. AIG bónusatryggingarisinn með stjórnmálamennina vini sína, er slíkur risi. Hvers vegna ekki þú? Sýndu heiminum að þú ert svo stór að þú getur hreinlega ekki farið á höfuðið.

Too Big To Fail

Too big to fail. Litur svartur, stærð 1-100. Sýndu þessum óréttláta heimi að þú ert líka of stór til að fara á höfuðið. Verð aðeins 50 dalir. 0.1% af sendingarkostnaði rennur óskipt í bjargráðasjóð AIG.


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband