Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Hér er sýnishorn úr heimildarmynd minni um Alfreð Elíasson og Loftleiðir sem sýnd verður í Sambíóunum í maí.


Hafið þið virkilega ekkert betra að gera?

Stríðið gegn kannabisframleiðendum er fullkomin sóun á tíma og fé. Æpandi misræmi er í hvaða fíkniefni eru lögleg og hver ekki (góð og vond). Hver er þess umkominn að ákveða fyrir mig hvort ég reyki gras eða drekki vodka? Bann við kannabis er lítilsvirðing á frelsi mínu. Ég er fyllilega dómbær um það hvort og hvaða fíkniefni ég ákveð að láta ofan í mig.

„Stríðið“ er sóun á tíma og fé vegna þess að það er dæmt til að tapast. Það var umfjöllun um „stríðið“ gegn kannabis í Kaliforníu í sjónvarpinu um daginn. Farið í flugferð með þyrluflugmanni sem hefur það að atvinnu að koma auga á staði þar sem kannabis er ræktað (en það vex allstaðar utandyra í „sunny California“). Hann sagði að fyrir nokkrum árum hafi hann þurft að fljúga í hálftíma áður en hann fann akur. En nú þurfi hann bara að fljúga í fimm mínútur. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi þetta stríð tapað. Milljarðakostnaður til einskis í ríki sem er gjaldþrota.

Í stað þess að lögleiða kannabis og skattleggja og hafa af því tekjur, velur ríkið (stjórnmálamenn), að halda vitleysunni áfram. Afleiðingar stríðsins eru skelfilegar. Sundraðar fjölskyldur, yfirfull fangelsi (með tilheyrandi kostnaði), rán og aðrir glæpir og það sem etv. verst er: Sumir upplifa sig sem glæpamenn vegna þessara heimskulegu laga; eru með vonda sjálfsmynd og eiga sér erfitt uppdráttar. Enginn sem fær sér bjór fær á samviskuna: Ég er glæpamaður! Hann bara drekkur sinn bjór og slappar af, alveg eins og það ætti að vera með gras. Þeir sem vilja eiga að geta reykt það í friði og spekt án glæpastimpils frá yfirvöldum. Það er nú kapítuli út af fyrir sig munurinn á þeim sem drekka og þeim sem reykja gras: Drukknir menn eru ósjaldan ofbeldishneigðir, skakkir menn eru rólegir og friðsamir. Væri það ekki skárri kostur af tveimur vondum?

Lögregluyfirvöld ættu heldur að rannsaka t.d. þátt stjórnmálamanna í bankahruninu, en að eltast við þá sem skapa verðmæti innanlands með ræktun á kannabis. Meðan grasið vex á Íslandi, þarf ekki að greiða fyrir það með dýrmætum gjaldeyri. Þetta „stríð“ er tap tap tap.

Hvenær munu stjórnmálamenn horfast í augu við staðreyndirnar og hætta að láta ímyndun um „fyrirmyndarsamfélag“ villa sér sýn? Átta sig á að boð og bönn í þessu efni er engin lausn? Átta sig á að hver og einn hefur rétt, og líka skyldu, til að bera ábyrgð á sjálfum sér?


mbl.is Hald lagt á 650 kannabisplöntur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir fagna ekki

Áhyggjufólk um hlýnun jarðar sagði að ástæðan væri bröltið í manninum. Reiknað var út að með áframhaldandi brölti myndi hlýna um 0.7 gráður á 100 árum. Nú hefur snarlega dregið úr brölti svo skiptir tugum hundraðshluta og ekki lítur út fyrir að fyrri umsvifum verði náð í bráð. Enginn úr áhyggjuhópnum hefur opinberlega, að mér vitandi, fagnað því. Ættu þeir ekki að vera í skýjunum? Ætti ekki einhver að vera búinn að skrifa grein í Lesbókina og fagna því að nú lítur ekki út fyrir að það hlýni um 0.7 gráður á næstu 100 árum heldur 0.5? Að það þurfi sem betur fer ekki að skattleggja útblástur um 10 skrilljarða, heldur 5 skrilljarða?

Hlýnunarsinnar í Bandaríkjunum láta eins og ekkert sé og hafa eyrnamerkt stórar upphæðir til baráttunnar gegn alheimshlýnun af mannavöldum í þeim útgjaldapakka sem á víst að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný. Al Gore brosir út að eyrum.

Svo fréttist af ráðstefnu í Kaupmannahöfn þar sem niðurstaðan var að allt væri að fara til andskotans, jörðin eins og pottur með pylsum sem er að sjóða uppúr. Kreppan virðist ekki hafa haft nein áhrif þótt vitað sé að útblástur koltvísýrings hafi stórminnkað um allan heim.

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Getur verið að þetta sé vísbending um að staðreyndirnar skipta engu máli í þessu sambandi?

Ég man ekki hvort ég er búinn að segja frá því á þessu bloggi, en ég las bók nýlega sem heitir: Myths, Lies and Downright Stupidity eftir John Stossel. Í henni er Alheimshlýnunarmálið af völdum manna sett í flokkinn: Trúmál. Þessvegna set ég þessa færslu í flokkin Trúmál og siðferði.


Upplýstur

Hver kannast ekki við að hafa verið haldið úti í kuldanum og ekki verið upplýstur um eitt eða neitt? En ekki lengur. Nú er komin á markað nýr bolur frá Egozentric™®© París, London, Róm, New York, sem minnir alla á að þótt þeir séu ekki hafðir með í ráðum, eru þeir aðeins kettlingar í samanburði við suma. Sumir sem eiga að heita æðstu ráðamenn þjóðarinnar í málefnum viðskipta voru algerlega úti að aka þegar viðskiptalífið var annars vegar. Og þegar það kom í ljós, sögðu þeir af sér? Nei, ekki fyrr en það átti að rjúfa stjórnarsamstarf og það hentaði vel í stjórnmálaspilinu. Ef þér líður stundum eins og ákvarðanir séu teknar án þín og þú sem hélst að þú værir ómissandi, hættu að hafa áhyggjur. Kauptu bol og minntu heiminn á að þú munt aldrei komast með tærnar þar sem sumir hafa hælana. Og það sem meira er: Þeir komast upp með það! Ef það er ekki hægt að græða á þessu, skal hundurinn Björgvin heita.

Upplýstur

Upplýstur. Litur bleikur með svörtum ermum og grænum kraga. Stærð 1-100. Vertu ekki grænn á bak við eyrun, vertu upplýstur og í rétta liðinu. Segðu ekki af þér fyrr en það hentar og láttu eins og ekkert sé. Vatn til sjávar farið er, en ég er ennþá hér. Kjósið mig og ég mun spila í rétta liðinu og vera með á nótunum. Ekki halda að upplýsingaskortur minn sé til marks um vinnubrögð flokksins. Nei, þar er talað og talað og talað, enda umræðustjórnmál efst á dagskránni. Hlutir ræddir og allir upplýstir. Verð aðeins 50 dalir. 0.1% af sendingarkostnaði rennur óskipt til lestrarkennara Björgvins G. Sigurðssonar.


Blómavasinn minn

Á borðinu hjá mér er blómavasi, glær úr gleri. Í Tinnabókunum kom alltaf orðið GLIRR! þegar gler brotnaði. Eftirminnilegt. Ég fór um daginn út í garð og týndi blóm í vasann. Þau eru nú orðin visin og það er byrjaður að vaxa arfi í yfirborðinu. Ég þarf að fara aftur út og tína fleiri blóm. Í næsta húsi er verið að háþrýstiþvo eitthvað. Ég er svangur, það er hádegi. Ég ætla í klippingu í dag. Er kominn með lubba. Fæ mér etv. kaffibolla á Kaffi Klatch. Þar afgreiðir listrænn strákur og skrýtin stúlka situr ósjaldan í sófanum. Hún samkjaftaði ekki við mig um daginn og var með lyfjabiblíuna. Spurði mig hvor ég væri með AIDS. Ég sagðist ekki vita til þess. Hún fletti einhverju lyfi upp í bókinni og talaði um það. Hún var þar aftur í gær. Ég talaði ekki við hana. Svo fór hún. Talaði við tvær kenndar unglingsstúlkur sem voru að reykja fyrir utan bar. Þær voru að fagna degi heilags Patreks. Önnur var akfeit. Fífillinn sem ég tíndi er orðinn að fífu. Áður voru lavenderstrá í vasanum. Ilmuðu vel en dreifðust um allt. Í garðinum eru sóleyjar. Best ég tíni þær.

Hefðbundið lýðræði

Hver kannast ekki við að hafa tekið þátt í hefðbundnu og frekar hallærislegu prófkjöri? En ekki lengur. Nú er búið að finna upp nýja og mjög lýðræðislega leið til að velja á lista. Til að fagna hinni nýju aðferð sem annars vegar kallast Samfylkingarlýðræði (þar sem alvitrir foringjar raða sjálfum sér efst og leyfa ræflunum að berjast um neðri sætin) og hins vegar Vinstri grænt lýðræði (þar sem kynferði er sett í öndvegi án tillits til hæfileika eða vinsælda) hefur Egozentric ™®© París, Mílanó, Las Vegas, New York, hannað bol sem sýnir fram á svart á hvítu hversu óspennandi og óheillandi hefðbundið prófkjör er. Eini kosturinn við hefðbundna prófkjörið er sá að þar er ekki gerður neinn greinarmunur á hvað er í klofi frambjóðendanna svo lengi sem einhvers staðar í grenndinni sé rass. Sagt er að sami rassinn sé undir þessu liði hvort sem er og því skipti kynið engu máli. Egozentric™®© vill ekki taka undir það en telur að öllum sjónarmiðum eigi að gera jafn hátt undir höfði, sérstaklega ef á þeim er hægt að græða.

Hefðbundið lýðræði

Hefðbundið prófkjör. Stærð 1-100. Litur svartur. Láta í körfu. Sýndu að þú getur greint kjarnann frá hisminu, skóginn frá trjánum og aðalatriðin frá aukaatriðunum. Gakktu um í bol til staðfestingar um það. Láttu ekki gargið glepja þér sýn. Verð aðeins 50 dalir. Eignastu alla prófkjörsseríuna (3 boli) fyrir aðeins 400 dali. Áritaða fyrir 700 dali.


Vinstri grænt lýðræði

Hver kannast ekki við misbrest þegar kemur að því að velja rétta fólkið til starfa? En ekki lengur. Nú er komin skotheld aðferð við að velja á lista þar sem kynið er sett í öndvegi og aukaatriðin, eins og til dæmis hæfileikar, eru látin lönd og leið. Egozentric™®© er stolt af því að kynna bestu aðferð í heimi við að mismuna engum á grundvelli þess hvað er í klofi hans. Að vísu eru gerðar undantekningar á þessari reglu, en það er allt í nafni lýðræðisins. Ef til dæmis röng píka lendir í röngum stað færist hún á sinn rétta stað og verður þannig rétt samkvæmt lýðræðislegu vali forystunnar.

Vinstri grænt lýðræði

Vinstri grænt lýðræði. Stærð 1-100 litur rauður. Nú er í tísku að vera sósíalisti eftir að ríkisstyrkta- og ríkisábyrga nýfrjálshyggjan leið undir lok. Taktu þátt í nýju bólunni, vertu sósíalisti, kommúnisti eða jafnvel bara galinn. Skiptir ekki máli, aðalatriðið er að vera pólitískur. Verð aðeins 50 dalir. 


Samfylkingarlýðræðið

Hver kannast ekki við það að hafa kosið í prófkjöri og ekki fengið vilja sínum fullkomlega framgengt? En ekki lengur. Nú þarf enginn að kjósa í prófkjöri í fullkominni óvissu um niðurstöðuna á toppnum. Egozentric™®© kynnir nýja tegund lýðræðis á bol: SAMFYLKINGARLÝÐRÆÐI. Samfylkingarlýðræði er þeirrar glæsilegu náttúru að hinir alvitru foringjar fylkingarinnar raða sjálfum sér efst á listann svo það sé alveg öruggt að enginn kjósi vitlaust. Í Samfylkingarlýðræðinu eiga allir jafn lýðræðislegan kost á að komast til metorða, jafnvel þeir sem enda neðar en aðrir á listanum í Samfylkingarlýðræðislegum prófkjörum. Hvaða lýður vill ekki búa við slíkt ræði?

Samfylkingarlýðræði

Samfylkingarlýðræði. Stærð 1-100, litur rauður. Vertu flottur, vertu töff, vertu Samfylkingarlýðræðislegur og vertu gangandi vitnisburður um heppilegt fyrirkomulag með persónukjöri gegn flokksræði. Verð 50 dalir. 0.1% af sendingarkostaði rennur óskipt í rannsóknarsjóð um samræðustjórnmál.


Matarkarfan.is

Matarkarfan er besti vinur buddunnar, hún er jákvæður punktur í tilverunni. Matarkarfan hjálpar okkur að fylla ísskápinn á hagkvæman hátt. Til dæmis ef til stendur að borða kjúkling um helgina. Þá er fyrsta skrefið að fara á matarkarfan.is og athuga hverjir eru að bjóða ódýran kjúkling.

Matarkarfan.is Besti vinur buddunnar

Matarkarfan.is er hugarfóstur fóstbræðranna Svavars og Orra og er í umsjón fóstsystur okkar Katrínar Jónsdóttur. Við hvetjum alla vini til að líta við, skrá sig á póstlistann og fá tilboð send heim í hverri viku. Við viljum aukna samkeppni, meira gegnsæi á markaðnum og umfram allt meiri jákvæðni gagnvart kaupmönnum. Það hefur verið hamast of mikið á þeim undanfarin ár. Vel má vera að sumir hafi misnotað sér markaðsráðandi stöðu, en staðreyndin er engu að síður sú að ríkið, stjórnmálamennirnir okkar, eru helstu óvinir íslenskra neytenda. Það eru þeir sem setja á verndartollana og þeir sem setja á vörugjöld (eða neita að afnema þau) og hvað þetta heitir nú allt.

Á Matarkörfunni er líka fréttastofa sem flytur fréttir af matvörumarkaðnum og líka af áhugaverðum málum sem eru í deiglunni. Nýjasta fréttin er til dæmis af áttburamömmunni Nadyu Suleman, en hún er að gera allt vitlaust hérna í Bandaríkjunum.


Fingur annarrar handar

Hver kannast ekki við það að hafa logið eins og hvert annað svín? Sagt eitthvað teljandi á fingrum annarrar handar þegar í raun þurfti báðar hendurnar í talninguna og jafnvel tærnar líka? En ekki lengur. Nú hefur góður viðskiptavinur sett á markað nýja vöru, fingurágræðslu, fyrir þá sem vilja geta notað frasann áfram án þess að gerast auvirðilegur lygari. Egozentric™®© París, London, New York, Tókíó, tekur þátt í markaðsherferðinni í von um gróða. Hugsa sér! Ef Egozentric™®© fengi krónu í hvert skipti sem stjórnmálamenn ljúga!

Fingur handar

Fingur annarrar handar. Litur rauður. Stærð 1-100. Vertu heiðarlegur, verur ærlegur, vertu ólyginn. Ekki teygja á sannleikanum bættu frekar við puttum. Puttaðu það niður og fáðu þér bol. Verð aðeins 50 dalir. Hálft prósent af virðisaukaskattinum rennur óskiptur í lygamælasjóð ríkisins.


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 114005

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband