Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Lífið eftir krónu

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig megi losna við gjaldmiðilinn okkar. Að mínum dómi eru kostirnir við að halda úti lögeyri í landinu miklu færri en gallarnir.

Kostirnir eru einkum þeir að með lækkandi gengi er í raun verið að lækka laun sem aftur gerir fyrirtækjum auðveldara með að halda í starfsmenn; þurfa ekki að segja upp fólki. Þessi röksemd fyrir tilverurétti krónunnar er raunar veik núna vegna þess að þrátt fyrir stórkostlegt gengisfall er atvinnuleysið mikið.

Gallarnir eru ma. þeir að krónan er „hagstjórnartæki“ þeirra sem fara með völdin í landinu. Þegar stjórnmálamenn með ranghugmyndir um efnahagsmál halda um stjórnartauma (eins og tilfellið er núna) er auðveldara fyrir þá að glutra efnahagsmálum niður með krónuna að vopni heldur en dali svo dæmi sé tekið. Án krónu er meira aðhald í ríkisfjármálunum. Miklu meira aðhald. Það að Seðlabankinn eigi að heita sjálfstæð stofnun er bara píp, og það er ekki bara píp á Íslandi, heldur í Bretlandi líka. Það sást glöggt í fyrra þegar litlu mennirnir í Stóra Bretlandi beittu Ísland hryðjuverkalögum.

Undanfarin ár hefur gengi krónunnar verið allt of hátt skráð sem kostað hefur útflutningsatvinnuvegina gríðarlegar fjárhæðir. Ferðamenn streyma til landsins nú þegar gengið er veikt. Hversu mörgum ferðamönnum missti landið af undanfarin ár vegna óeðlilega strerkrar krónu? Það eru án efa háar upphæðir. Fyrir utan þetta blekkti of sterk króna flesta landsmenn til að halda að þeir væru ríkari. Það leiddi til aukinna fjárfestinga og meiri viðskiptahalla.

Ísland er lítið land og það er erfitt fyrir embættismenn og stjórnmálamenn að standast þá freistingu að hygla einum á kostnað annars. Þetta kemur glöggt fram ef skoðuð er viðskiptasaga landsins. Flugfélag Íslands sem þá var átti greiðan aðgang að ríkisábyrgðum á meðan Loftleiðir og önnur fyrirtæki í landinu nutu ekki þeirrar fyrirgreiðslu. Þetta olli stórkostlegri markaðmismunun og skaðaði viðskiptalíf landsins mjög. Án krónu væri opinber stjórnsýsla í peningamálum, með tilheyrandi kostnaði, miklu minni og líkurnar á misnotkun því minni að sama skapi. 

Til að losna við byrðina sem krónan leggur á þjóðina ættum við að gera gjaldeyrismál frjáls og leggja niður sérstakan lögeyri á Íslandi. Hver og einn getur þá höndlað með þann gjaldmiðil sem hann kýs. Fyrirtæki sem selur vöru í dölum getur greitt laun í dölum, fyrirtæki sem selur vöru í evrum getur greitt laun í evrum, og svo framv. Í stað fyrirfram ákveðinna launa sem taka ekkert tillit til gengi vöru eða þjónustu á markaði er réttast að taka upp skiptahlutskerfi (eins og tíðkast hefur í sjávarútvegi um aldir), þannig að ef verð á vöru eða þjónustu hækkar, hækka laun til samræmis við það. Varðandi laun opinberra starfsmanna væri eðlilegast að miða við myntkörfu þeirra gjaldmiðla sem mynda tekjur ríkisins. Ef það væri halli á rekstri ríkisins ættu tekjur opinberra starfsmanna að minnka hlutfallslega til að jafna út þann halla og að sama skapi ættu tekjur þeirra að hækka ef það væri afgangur.

Ef notast væri við alþjóðagjaldmiðla á Íslandi myndi verðmætasköpun og eign fólks almennt vera miklu skýrari. Með krónuna eru allir í þoku um raunveruleg verðmæti og eignir. Erlendir aðilar sem hugsanlega hefðu áhuga á að fjárfesta á Íslandi eða stofna þar fyrirtæki, þyrftu ekki að klifra yfir krónuhindrunina (setja sig inn í „hagstjórnina“) og taka á sig þá áhættu sem fylgir gjaldmiðlinum.  

Það væri sársaukafullt að sumu leyti að vera án krónu, en sá sársauki væri jafn og þéttur, en kæmi ekki í bylgjum eins og verið hefur undanfarna áratugi í krónuumhverfinu.


Ísland fordæmir kjúklingaslátrun

Allt Ísland, þar á meðal Grímsey, fordæmir kjúklingaslátrun í öllum löndum heimsins nema á Íslandi. Ísland er „afar vonsvikið“ yfir þessari grimmúðlegu meðferð sem kjúklingarnir fá. Ísland telur sig vera í fullum rétti til að skipta sér af matvælaframleiðslu annarra landa og hvernig þær nýta auðlindir sínar. Kjúklingar eru Íslendingum hjartnæmir, á landinu er sérstakt landnámshænukyn sem dýrkað er og dáð fyrir tign, gáfur og fegurð.

Hvað stjórnmálamenn aðhafast er algjörlega á skjön við það sem almenningur í viðkomandi löndum gerir. Það sýndi sig í sumar þegar hvalveiðar voru auknar að ferðamenn streymdu til Íslands sem aldrei fyrr, metár! Þessi þrýstingur frá 26 löndum eru bara stjórnmálamenn að skipta sér af því sem þeim kemur ekki við. Ég endurtek: Stjórnmálamenn að skipta sér af því sem þeim kemur ekki við.

Það er engin ástæða fyrir litlu kjúklingahjörtun í stjórnsýslu Íslands að slá hraðar yfir þessu. Réttast er að senda þeim kurteislegt bréf þar sem fram koma áhyggjur af aðbúnaði kjúklinga í sláturhúsum.


mbl.is Sameinast um að fordæma hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný leið: Kolaútflutningur

Það eru svo margir bílar sem brenna til kaldra kola þessa dagana að Íslendingar geta farið að flytja út kol í stórum stíl. Bretland er ákjósanlegur markaður fyrir kol, því þótt þar séu vinir umhverfisins afar margir og hafa stórar áhyggjur af meintri hlýnun umhverfisins vegna brennslu kola, er miklu magni af kolum brennt þar á hverjum degi. Hvað er betra en að selja bretunum til baka Range Roverinn í formi kola? 100% endurvinnsla, hringrás lífsins.
mbl.is Bíll brann til kaldra kola
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keisarans hallir skína

Veit Steingrímur ekki að það er hægt að taka upp síma og hringja einfaldlega í vinina í Noregi og fá svarið strax? Nei, þetta er allt á huldu, þoku, mistri, vafa, óvissu, biðstöðu, misskilningur, rangtúlkun, óskhyggja. Eins og ég hafði mikla trú á þeim til að byrja með. Hélt án gríns að þarna væru komin Súperwoman og Súperman til að bjarga okkur úr kreppunni. Svo kemur á daginn að þau geta þetta ekki. Of mikið Kryptonite ef til vill? Stýrivextirnir lækka ekkert (ólíkt öðrum þjóðum), skattarnir eru hækkaðir (ólíkt öðrum þjóðum) og skorið er niður en hvergi meira en hjá Kvikmyndamiðstöð. En Kvikmyndamiðstöð er hugsanlega leiðin fyrir þjóðina til að skilja hvað fór úrskeiðis! Heimildarmyndir sem varpa ljósi á málið gerðar með styrk frá ríkinu. Ljósi varpað á Icesave samingnasnilldina með styrk frá ríkinu.

Ég vil ekki vera neikvæður asni sem gagnrýnir Steingrím fyrir svik við kjósendur sína og Jóhönnu fyrir að sitja aðgerðarlaus heima í örvæntingu yfir lélegri enskukunnáttu.

Hér er tillaga að lausn:

1. Hringja til Kína og biðja þá um lán. Þeir eiga engra hagsmuna að gæta hjá IMF eða Evrópusambandinu.

2. Hringja til Japan og biðja um lán.

3. Hringja til Ástralíu og biðja um lán.

Þótt ekki væru nema 2% vextir á þeim lánum, væri það betra en fjárfestar eru að fá fyrir sinn snúð nú um stundir. Leyfa þeim að taka veð í auðlindunum. Það ætti að liðka fyrir.


mbl.is Bólar ekkert á norsku láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarki barið í brjóst þjóðarinnar

Verður hlegið að þessu að ári? Að sóknarskeið sé raunhæfur möguleiki 2010? Miðað við það sem undan er gengið, verklausu ríkisstjórnina sem nú situr og forsetinn átti þátt í að setja á vetur, verður að telja ólíklegt að það gerist.

Það er engu að síður skemmtilegt að horfa á leikþættina sem forsetinn setur á svið. Nú er þemað: Hughreysta þjóðina. Ekki veitir af. Sama hversu súrrealískt það er.

En leikþátturinn er fluttur fyrir daufum eyrum. Ástæðan er sú að leikarinn virkar ekki sannfærandi af einhverjum ástæðum. Hann minnir á vongóðan þátttakanda í Stjörnuleit sem trúir því einlægt að hann sé næsta poppstjarna himingeimsins, en er því miður einn um það.

Hugsanlegt er að almenningur telji að hann hafi spilað rassinn úr buxunum og hafi því takmarkaðan áhuga á að hlusta á hvað hann hefur að segja.
mbl.is Sóknarskeið á næsta ári raunhæfur möguleiki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 113987

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband