Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Forseta kjötfars

Hver kannast ekki við að fá samviskubit við að borða kjötfars? En ekki lengur. Forsetakjötfarsið í Forsetaseríu Egozentric™®© fær samviskubitið til að hverfa á augabragði. Þegar þú borðar sama kjötfarsið og forsetinn finnurðu hvernig vellíðanin streymir um líkamann. Kjötfarsið er ekki lengur óhollt fæði úr afgöngum bragðbætt með sykri, litarefnum og hveiti, heldur gæða-matur; forseta-matur.

Forseta kjötfars

Forseta kjötfars. Stærð 1-100. Kólestrólið hverfur eins og dögg fyrir sólu úr sálinni. Litur: Þjóðlegur. Verð 7999 kr.


Forseta notaðir bílar

Mörgum þykir erfitt að kaupa notaðan bíl. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvort bíllinn sé því ástandi sem sölumaðurinn segir hann vera og sölumenn notaðra bíla hafa slæmt orð á sér. Reyndar heita þeir ekki lengur sölumenn heldur þjónustufulltrúar fyrrverandi áttra bíla. En þrátt fyrir að búin séu til ný orðskrípi breytir það engu um innihaldið. Hver man ekki eftir því þegar söluskatturinn var gerður að virðisaukaskatti. Söluskatturinn var, og er, svo hár að einhverjum ríkisstarfsmönnum sveið að nota rétta orðið yfir hann og bjuggu til nýtt: Virðisaukaskattur. Annað eins rangnefni hefur aldrei verið fundið upp og það er klúðurslegt í þokkabót. Enginn virðisauki á sér stað við álagningu skattsins, virði vöru eða þjónustu eykst ekki við skattlagningu, þótt verðið hækki. Klúðurslega orðið varð um leið skammstafað VSK og er í daglegu tali kallað vaskur. Þetta er afturför í orðsmíðum íslenskunnar. Hvað var að orðinu söluskattur? Það er notað um allan heim, sbr. sales-tax á ensku. Sá sem fann þetta orð upp er annað hvort vísvitandi að blekkja eða gerir sér enga grein fyrir efnahagsmálum. Báðar skýringarnar geyma svarið. Hvaða drullusokkur skyldi það nú hafa verið? Hvaða drullusokkur fann þetta orð upp? Gaman væri að komast að því. Orðið er ekki gamalt og vel er hugsanlegt að þessi aðili sé enn á launaskrá ríkisins.

Þetta var útúrdúr en þó hvorki langur né óþarfur. Þjónustufulltrúar fyrirfram áttra bíla komu að máli við Egozentric™®© og báðu um hjálp við að selja alla þá notuðu bíla sem hrúgast hafa upp á bílasölunum í efnahagslægð þeirri sem nú gengur yfir. Aðalhönnuður Egozentric™®© var ekki lengi að leggja til snilldar bragð: Forseta notaðir bílar. Með því að tengja forsetann við notaða bílinn er ekki nokkur spurning að virði hans eykst, virðisaukinn verður gífurlegur við það eitt að tengja hinn virðulega forseta vorn við bílinn. Hver myndi ekki kaupa notaðan bíl af forsetanum? Þótt aðalhönnuðurinn þekki engan, er ekki nokkur vafi að úti í þjóðfélagsdjúpinu eru margir sem myndu kikna í hnjánum við þá upphefð að fá að kaupa notaðan bíl af forsetanum. Þessvegna var forskeytið forseta- lagt til gegn ærnu fé.

Kaupið forseta notaða bíla

Forseta notaðir bílar. Ath. bíllinn á bolnum er ekki endilega sá bíll sem er til sölu á bílasölunni. Vertu flottur en ekki ræfill, aktu um á forseta notuðum bíl. Stærð 1-100. Litur: Þjóðlegur. Verð 8999 kr.


Forseta uppþvottaburstinn

Hver kannast ekki við að líða eins og aumingja með skítahlutskipti við uppvaskið? En ekki lengur. Með nýjasta uppþvottaburstanum í Forsetaseríunni frá Egozentric™®©, þarf engum að líða eins og aumingja við uppvaskið. Þegar þú vaskar upp með samskonar bursta og forsetinn notar ertu ekki aumingi, heldur hátt settur aðili í fínni ríkisgreiddri veislu þar sem allir eru jafnir, fjórfættir sem tvífættir. Egozentric™®© er nú með auglýsingaboli á sérstöku náttúruvænu kynningarverði handa þér til að ganga í og líða betur.

Forseta uppþvottabursti

Forseta uppþvottaburstinn. Vertu flottur á því og notaðu sama bursta og forsetinn. Stærð 1-100. Litur: Þjóðlegur. Unninn úr handtýndri bómull af náttúruvænu þrælaökrunum í Súdan. 0,01% af sendingarkostnaði hvers selds bolar rennur óskipt í sjóð til minningar um Sjáseskú, hinn mikla leiðtoga Rúmena sem nú er fallinn frá. Verð 8999 kr.


1 blað í einu bjargar heiminum

Stoltir Íslendingar nær og fjær með stjórn á eigin málum, sjálfstæðir, skeindir og fullir þjóðernisástar, fagna í dag embættistöku forsetans. Af því tilefni hefur Egozentric™®© hannað bol, í samvinnu við góðan vin, sem hefur að geyma mikilvæg skilaboð til þjóðarinnar frá vel skeinda umhverfisverndarsinnanum og mannvininum, Forseta Íslands. Munið að ef takast á að bjarga heiminum verða allir að leggjast á eitt og nota bara eitt blað. Eitt blað í dag og heiminum er borgið, mörg blöð í dag og heimurinn ferst. Góðir Íslendingar, skilaboðin gætu ekki verið skýrari eða umhverfisvænni. Forseta- forskeytið á eftir að mala Egozentric™®© gull.

Forseta klósettpappír

Forseta klósettpappír. 1 blað í einu bjargar heiminum. Hjálpið forsetanum að bjarga heiminum og skeinið ykkur með forseta klósettpappír. Þriggja laga, fyrrverandi klósettpappír endurunninn sem klósettpappír. Stærð 1-100. Verð 4000 kr.


Kónga- forskeytið

Egozentric™®© París, London, Róm, New York, útbjó fyrir nokkrum árum nýtt forskeyti fyrir ýmsar vörur sem hefur þann eiginleika að lyfta þeim á hærra plan. Það er forskeytið kónga-. Ekki þarf að orðlengja það en kónga- sló eftirminnilega í gegn.

Furðu sætir hve samkeppnisaðilarnir eru ófrumlegir í forskeytum. Eina forskeytið sem þeim dettur í hug að selja viðskiptavinum sínum er gull þetta og gull hitt. Sérstaklega frumlegir þykjast þeir vera þegar þeir leggja til silfur þetta og silfur hitt. Þeir eru algjörir snillingar þegar þeir leggja til platínum þetta og platínum hitt. Fátt er ófrumlegra og meira stolið frá útlöndum. En meðan viðskiptavinirnir borga fyrir afrit sem frumrit væru, er engin ástæða til að svitna. Gull- forskeytið hefur fyrir löngu tapað ímynd sinni. Þegar kunningja aðalhönnuðarins var boðið um daginn að fá gull-debetkort, afþakkaði hann pent. Gullkort á heima í veski gullbryddaðrar kerlingar sem býr í húsi með gullstyttum, gullrömmum og gullsófasettum. Ekki í veski fallega fólksins.

Kónga kjötfars og kónga eplaskrælari eru til dæmis miklu meira heillandi vörur en eplaskrælari og kjötfars. Nú er að hefjast auglýsingaherferð viðskiptavinar Egozentric™® á hinum ýmsu vörum. Viðskiptavinir Egozentric™®© fá heiðurinn af því að kaupa auglýsingarnar og ganga með þær framan á sér eins lengi og þeir vilja, en þó ekki minna en þrjú ár.

Kónga klósettpappír

Kónga klósettpappír. Nógu mjúkur og rakadrægur fyrir rassgatið á kónginum. Ætti að vera nógu mjúkur fyrir rassgatið á þér. Þriggja laga, óendurunninn pappír. Stærð 1-100. Verð 4000 kr.


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 114015

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband