Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Heimur batnandi fer

Um daginn keyptum við í IKEA þunn gluggatjöld, tvö í pakka, tilbúin til upphengingar fyrir einn glugga, á 800 krónur (að vísu þarf að stytta).

Fyrir nokkrum árum keyptum við í IKEA þunn gluggatjöld í metratali, ekki tilbúin til upphengingar fyrir einn glugga, á 5 þúsund krónur.

Á þessum árum hefur verðið á samskonar gluggatjöldum lækkað úr 35 þúsund fyrir alla 7 glugga heimilisins í 5600 krónur. Ekki nóg með það, heldur eru þau ekki lengur metravara heldur tilbúin vara.

Geri aðrir betur!

Heimurinn er eftir alltsaman ekki sífellt að versna.

Ingvar Kamprad og hans fólk bætir heiminn með því að bæta sig. Það er til eftirbreytni.


Undarleg tilviljun

Um daginn bloggaði ég um vin minn sem varð fyrir þeirri niðurlægingu að vera hafnað af Sorpu. Mér fannst viðeigandi að setja mynd af sófa með greininni og sló enska leitarorðið „sofa“ í google myndir. Margar myndir fundust eins og vænta mátti og margar komu til greina. En það komu ekki bara myndir af „sofa“ heldur líka þar sem íslenska orðið sofa kom fyrir og á einni þeirra voru tveir gaurar sofandi í sófa. Mér fannst myndin smellpassa við greinina og setti hana því með.

Kolbeinn sefur á sínu græna eyraSkömmu eftir að færslan birtist hringdi vinur minn í mig og spurði hvar ég hefði fengið myndina með sögunni um ófarir hans í Sorpu, ég sagði honum sem var og bætti við að mér hafi þótt hún einkar viðeigandi, flassið speglaðist í glugganum og sófinn lúðalegur sem og sofandi strákarnir. Eftir nokkra þögn sagði hann: „En það er Kolbeinn [dulnefni] sem er á myndinni.“ „Hvaða Kolbeinn?“ spurði ég. „Kolbeinn minn, sonur minn, hann er á myndinni.“ Ég hváði við og sagði að það gæti ekki verið, það væri of mikil tilviljun til að geta staðist. En vinur minn, sem við skulum kalla Svavar, var næstum sannfærður og bað mig að senda sér slóðina þar sem myndin birtist. Ég gerði það og skömmu síðar kom staðfesting: Jú, þetta var Kolbeinn og enginn ófrægari. Hann hafði farið í LAN (Leikið sér Að Netinu) leik með vinum sínum sem stóð lengi yfir, heila nótt, sem skýrir hvers vegna þeir lágu sofandi í sófanum.

Sjaldan hef ég orðið fyrir annarri eins tilviljun og þessari. Ég þekkti drenginn ekki á myndinni, þótt ég þekki hann vel, því hann liggur með hálft höfðið undir púða. Ég segi bara eins og gamla konan: „Ja hérna.“

Nöfnum hlutaðeigandi hefur verið breytt svo þeir verði ekki fyrir óþægindum. 


Striplaðist fyrir framan barnið sitt

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson (41) striplaðist fyrir framan son sinn, Ragnar Orra (0,11) um daginn. „Það gerðist þannig,“ sagði Sigurgeir Orri í samtali við blaðið, „að ég fór í sturtu og taldi mig hafa nægan tíma þar sem barnið var niðursokkið að leika sér inni í stofu. En áður en ég vissi var guttinn kominn inn á bað og reyndi að skríða inn í sturtuklefann. Ég varð að láta stutt bað nægja til að barnið blotnaði ekki. Þá gerðist það að ég striplaðist fyrir framan saklaust barnið.“ Þú hefur engar áhyggjur að þetta hafi eftirköst? „Það geri ég, til dæmis gæti barnaverndarnefnd bankað upp á hvenær sem er og til að fyrirbyggja að barnið hljóti varanlegan skaða, hef ég pantað tíma fyrir það í samtalsmeðferð hjá áfallahjálparstreituröskunarsálfræðingi með sérstaka áherslu á flóðhestafælni.“ Einmitt það.

Slefað og skeint þakkar Sigurgeiri Orra fyrir spjallið. 


Eitrum fyrir þeim

Ég mæli sérstaklega með rottueitri, það er fljótvirkt, lyktarlaust og bragðlaust.
mbl.is Stefnt að útrýmingu biðlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurunnið traust

Ég myndi nú tæplega reyna að endurvinna traustið hans Villa, talsverðar líkur eru á að harla lítið komi úr þeirri endurvinnslu. Mæli frekar með endurvinnslu á áldósum eða brotajárni.

Endurvinnsla á trausti, nýjasta nýtt


Látin laus af sjúkrahúsinu

Þessi mynd var tekin við það tækifæri. 

Þessi mynd var tekin eftir að hún kom út af spítalanum


Ná verður þjóðarsátt um skarnaframleiðslu

Það verður engin sátt í þessu landi fyrr en sátt hefur náðst um skarnaframleiðsluna, heilsa flóru landsins er í veði! Forsætisráðherra á að undirrita bráðabirgðalög vegna skarnans og skikka alla landsmenn til að dreifa honum á túnin sín. Ég er gjörsamlega gáttaður á þingmönnum sem tala niður til skarnans og vilja að ríkið kaupi upp allan skarnakvótann. Hvað á ríkið að gera við milljón tonn af skarna? Skarninn hefur fylgt landsmönnum allt frá landnámi, lengi vel voru Íslendingar með skarnann á sér, en sem betur fer er hann nú geymdur í sérstökum þróm. Þessar þrær geyma sögu Íslands! Hún verður ekki slitin sundur með vanhugsuðum milljarðakaupum á skarnakvóta!

Talandi um þjóðarsátt, það þarf nauðsynlega að nást þjóðarsátt um skinnasútunina því hún gengur illa, prjónastofur landsins eru allar á hausnum, það þarf að nást þjóðarsátt um að greiða prjónaskapinn niður, þjóðarsáttar er þörf fyrir FL group, þeir standa afar illa, einkum Gnúpur. Þjóðarsátt á Gnúp! Sjoppan úti á horni er við það að leggja upp laupana, það þarf nauðsynlega þjóðarsátt um að styrkja sjoppumenningu landsins, sjoppur eru órjúfanlegur hluti menningar okkar. Tvær kækur takk, sagði einhver spekingurinn, ég segi: Þjóðarsátt um sjoppurnar! Verum ekki sjoppuleg og útbúum greiðslumark og kvótamark og borgum milljarða með þeim svo Baula og Gerpla og allar hinar sjoppurnar fari ekki á gaddinn. 


mbl.is Ná verður þjóðarsátt um mjólkurframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnað af Sorpu

Hvað er að þessum sófa? Ekkert, E K K E R TFátt er meira niðurlægjandi en að vera hafnað af Sorpu, en það er einmitt það sem gerðist fyrir vin minn um daginn.

Það var verið að gera breytingar á heimilinu og við þær breytingar varð sófi útundan. Fínn sófi í fínu lagi, ekkert gamall, ekkert snjáður.

Gefa hann til Góða hirðisins varð niðurstaðan eftir miklar bollaleggingar og trega vegna þess að sófinn kostaði hundruð þúsunda á sínum tíma.

Vinur minn og kona hans tóku þessa ákvörðun hafandi í huga að með hinni höfðinglegu gjöf myndu þau mjög trúlega gera heimili fátæks manns að höll. Það blikaði tár á hvarmi konu hans við að sjá fyrir sér fátæka fjölskylduna hamingjusama í gamla sófanum þeirra, börnin glöð að hoppa í pullunum og foreldrarnir að hugsa hlýlega til gefendanna.

Þegar komið var í Sorpu sagði starfsmaðurinn: Nei takk. Settu þennan í gáminn merktan „óflokkanlegt rusl“. 

Sófinn sem verið hafði heimilisprýði í öll þessi ár! Hvað segir þetta um heimili hans? Húsgögnin eru ekki einu sinni nógu góð fyrir Góða hirðinn!

Að mínum dómi ætti að vera áfallahjálparstreituröskunarteymi til taks þegar svona tilfelli koma upp. Við svona aðstæður verður lífið tómt og tilgangslaust, hlutirnir sem fóðrað hafa sjálfstraustið, sjálfsvirðinguna og sjálfsmatið reynast ekki leðurlíkisins virði!

Ég gæti grátið vini mínum til samlætis.


Synt í engu vatni

Synt í lausu lofti

Hafa börnin á Akranesi aldrei heyrt um loftsund? Loftsund er gömul íþrótt sem mikið var stunduð í Kópavogi á mínum æskuárum, en loftsund fólst í því að stinga sér til sunds í lausu lofti og synda bringusund, skriðsund, baksund eða bara hvaða sund sem er, til dæmis út í búð. En þótt börnin hafi gleymt loftsundinu má hugga sig við það að fullorðnir Skagamenn kunna það, ef eitthvað er að marka fréttina, og geta kennt ungviðinu sundtökin. Fyrir þá sem ekki treysta sér í loftsundið má nefna gólfsundið, en það sund geta allir stundað. Gólfsund er eins og loftsund, nema á gólfi. Að vísu kemst sundmaðurinn ekki eins langt í gólfsundi og loftsundi, en það er samt skemmtilegt sport. Gólfsundinu fylgir bónus: Gólfið skúrast í leiðinni.

 


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 114001

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband