Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Seinþreyttur til farsældar

Svabbi og Orri í Dulargervi sem Chelsea aðdáendur

Svavar Guðmundsson og Sigurgeir Orri í dulargervum sem Chelsea aðdáendur á Brúnni í leynilegri ferð til Bretlands á vegum ríkistjórnarinnar.

Svavar Guðmundsson vinur minn virðist hafa hrokkið undir óheillastjörnu þetta árið. Ég ætla ekki að rekja ófarir hans fyrir utan þær sem hann lenti í í gær. Hann lagði bifreið sinni við Garðastrætið, beint fyrir framan stöðumælatæki sem prentar út, gegn gjaldi, miða til að setja í framrúðuna. Setur pening í tækið en ekkert gerist. Þá kemur aðvífandi stöðumælavörður sem reynir að laga en án árangurs. Kemst að þeirri niðurstöðu að tækið sé bilað. Fer. Svavar staldrar við hjá mér í um 20 mínútur og þegar hann ætlar að fara er komin sekt á bílinn.

Þetta er dæmigert fyrir Svavar þessi misserin. Ég vona að nýja árið verði honum farsælla.


Úr öskunni í eldinn

Heyrst hafa sjónarmið um að með Evrópusambandsaðild losni Íslendingar við hina meintu spillingu sem hér þrífst. Innganga í sambandið mun síður en svo leiða okkur af braut spillingar, heldur miklu fremur á beinni og breiðari veg til enn meiri spillingar.

Þetta skrifaði Vefþjóðviljinn 2006:

„Tólfta árið í röð hefur Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins neitað að undirrita reikninga sambandsins fyrir síðasta fjárlagaár. Athugasemdir Endurskoðunarréttarins snúa að aðildarríkjunum og framkvæmdastjórn sambandsins og snýr gagnrýnin bæði að óreiðu og skipulagsleysi bókhalds Evrópusambandsins. Hluti óreiðunnar er síður alvarlegur og er vegna ófullkominna fylgiskjala en stór hluti óreiðunnar á rætur að rekja til þess að víða er svindlað með miðla Evrópusambandsins eins og alkunna er.“

Það má ef ég man rétt bæta amk. einu ári við þessa tölu.

Sem frjáls og óháður fjölmiðill í eigu öreiga tel ég skyldu mína að halda þessu til haga.

Auglýsing!

Auglýst er eftir skoðun Evrópusambandsins á þeirri hugmynd að Íslendingar taki einhliða upp evru. Evrópusambandssinnar hafa margoft sagt að sambandinu lítist afar illa á einhliða upptöku evru á Íslandi, en hvergi hefur það sést opinberlega að því er best er vitað.

Fundarlaun í boði.


Sparnaðarráð: Leggja krónuna niður

Krónan hefur verið Íslendingum dýr þau tæpu 90 ár sem hún hefur verið við lýði. Fyrirtæki hafa varið dýrmætum tíma í baráttu við gjaldmiðilinn, breyta verðum, endurmeta áætlanir og svo framvegis. Almenningur hefur tapað stórkostlegum fjárhæðum á stöðumælakrónunni sinni, launakrónunni öðru nafni. Stjórnmálamenn hafa varið mörgum árum í að sýsla með gjaldmiðilinn og „hagstýra“ honum. Embættismenn hafa varið mörgum vinnuárum í að reikna út vísitölur svo „verðtryggingin“ sé nú rétt. Og hvað ætli „verðtryggingin“, lánakrónan, hafi kostað íslendinga? Óheyrilegar fjárhæðir! Tveir mismunandi gjaldmiðlar í sama landi er sjúkdómseinkenni sem hefur verið svo lengi að grassera að fólk var nánast hætt að taka eftir því.

Það hefði í för með sér geysilegan sparnað að notast við gjaldmiðilinn dal á Íslandi. Vextir yrðu sambærilegir við það sem tíðkast í löndunum í kring. Það væri aðeins einn dalur á Íslandi, en ekki lánadalur og launadalur. Fyrirtæki gætu varið tíma sínum í þarfari hluti en sífelldar verðbreytingar vegna jójó gengis og uppgjör í því umhverfi. „Hagstjórn“ myndi verða hagkvæmari, ekki þyrfti her manns til að reikna út endalausar vísitölur og rekstri seðlabanka væri sjálfhætt. 

En dalurinn væri harður húsbóndi á þann hátt að gengi dalsins myndi á engan hátt endurspegla verðmætasköpun í landinu. Það gæti leitt af sér talsvert atvinnuleysi (sem reyndar er staðreynd á Íslandi þrátt fyrir krónuna). Með breytingum á kjarasamningum væri hægt að koma í veg fyrir atvinnuleysisbölið, að notast einfaldlega við skiptahlutskerfi eins og í sjávarútveginum. Launþegar væru þannig beintengdir afkomu fyrirtækja.

Líklegt er að með alþjóðlegum gjaldmiðli yrði eftirsóknarverðara fyrir erlend fjármálafyrirtæki að starfa á Íslandi sem og önnur fyrirtæki. Hefur engum fundist það grunsamlegt að engir erlendir bankar hafa treyst sér til að starfa á Íslandi? Í ríkasta landi heims til skamms tíma? Þakkið krónunni fyrir það.

Það má líka þakka krónunni fyrir stóran hluta af hörmungarástandinu nú. Háir vextir, heimóttarlegar aðgerðir, til að verja krónuna leiddi af sér spákaupmennsku; mikið flæði fjár inn í landið. Nú vilja spákaupmennirnir hlaupa burt eins hratt og þeir komast helst með alla peningana sem Imf lánaði.


Sparnaðarráð: Leggja niður forsetaembættið

Ég ætla ekki að breytast í saltstólpa fortíðarinnar heldur horfa fram á veginn, horfa fram á sparnaðarveginn fyrir land og þjóð.

Ég hef áður lagt til þessa sparnaðarráðstöfun og geri það aftur: Leggja niður forsetaembættið. Það kostar offjár og hefur aðeins verið til óþurftar. Embættið var eitt helsta sjúkdómseinkenni (góð vísa) útrásarinnar auk þess sem það er miskunnarlaust notað í hvers kyns skrumi sem kemur sér afar illa fyrir hagsmuni Íslendinga og heimsins alls (man einhver eftir alheimshlýnunarsöngnum af völdum manna og vetnisþvælunni?). Önnur ástæða til að leggja það niður er sú misnotkun þegar forsetinn neitaði að staðfesta lög sem Alþingi hafði þó samþykkt.


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 114001

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband