Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Litla lifrin ljóta

Ný barnabók á leiðinni
Sagan sem er lauslega byggð á teiknimyndinni Litla lirfan ljóta, fjallar um ljóta skorpulifur sem á dapra daga í vömbinni á fyllibyttu þar til hún gerir uppreisn og sendir eiganda sinn í meðferð. Þá verður litla ljóta lifrin stór, blóðug, feit og sælleg lifur sem allir elska. Höfundar eru Sigurgeir Orri og Margrét Hugrún. 

Af öðrum bókum sem eru í farvatninu er sjálfstætt framhald skáldsögunnar Gúru Góvinda eftir Gunnar Dal. Mun hún heita Gúrú úrvinda og fjalla um gúrú sem er orðið þreytt á því að vera fullkomið gúrú og langar að vera fullkomið fífl.

Önnur barnabók sem mun slá í gegn
Heiðrún Gígja og Sigurgeir Orri hafa sameinað krafta sína og skrifað glænýja barnabók sem ber heitið Bumbi og Rassa og fjallar um hjón sem setja í sífellu út á hvort annað og skilja svo. Loksins raunveruleg barnabók um raunverulega hluti en ekki kjaftæði sem engin fótur er fyrir. Svæfir börnin strax á fyrstu síðu.

Tímabær ævisaga 
Grenja, drekka, bleyja, sofa er heiti 1. bindis ævisögu Litla litla Orrasonar. Á 359 síðum er sögð ævisaga þessa merka barns frá fæðingu til fimm vikna afmælisins.

Feðgar lesa Moggann


Nýja testamentis vindlingar

Ísak vinur minn benti mér á þessa „auglýsingu“ Woodys Allen (úr Bananas) í sambandi við færslu hér að neðan (Ofbeldi og trú), en í henni legg ég til að ríkið hvetji til trúleysis, eins og það hvetur til reykleysis, enda hvort tveggja óhollt og getur leitt til dauða.


Að sjá ljósið

Hver trúir því í raun að óskírð börn dveljist í forgarði helvítis? Hlægileg vitleysa. Við verðum að hætta að koma fram við Páfagarð og fylgitungl hans eins og þroskahefta.
mbl.is Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi og trú

Gerið ykkur klárar stelpur, ég er að koma.Það er nánast regla frekar en undantekning að ofbeldisverk sem getið er um í fréttum dag frá degi eru trúarlegs eðlis. Segja má á hinn bóginn að ofbeldi sem framið er í nafni trúar sé misnotkun á henni. Ég er sammála því, en ég tel talsverð sannindi fólgin í orðum Steven Weinberg um að til þess að gott fólk geri illt, þurfi trú til. Margur saklaus en graður drengurinn hefur eflaust látið ginna sig til voðaverks með sprengju um mittið í þeirri trú að hans bíði ástarleikur með hreinum meyjum í „himnaríki“. Voðaverk hafa oft verið framin í nafni kristinnar trúar líka, til dæmis á Norður Írlandi. Vesturlandabúar geta ekki horft framhjá því að ofbeldi í stíl öfgafullra múslima er einnig að finna meðal kristinna, þótt í minna mæli sé. Misnotkun á trúnni er ein skýring. En líta má öðruvísi á málið og spyrja sig: Er trú og ofbeldi tvær hliðar á sama peningi? Ég hygg að svo sé. 

Áttu plástur?Í heimildarmynd sem heitir The God Who Wasn't There eftir Brian Fleming kemur fram að í lang-vinsælustu trúarkvikmynd allra tíma, The Passion Of The Christ eru blóðsúthellingar, ofbeldi og þjáningar í 104 mínútur af heildarlengdinni sem er um 120 mínútur. Leikstjórinn, Mel Gibson, lagði sig sérstaklega fram um að hafa myndina sem ógeðslegasta, sprautar t.d. blóði með sprautu inn í rammann þegar verið er að negla Jesú á krossinn, eins og það gusist upp sletta þegar gaurinn fer í gegnum lófann. Þessi grófi ofbeldispakki féll trúuðum ákaflega vel í geð. Þeir flykktust á myndina og sögðu halelúja. Ég man eftir forsvarsmönnum tveggja trúfélaga mæra hana í sjónvarpinu (þ. á m. opinberu). Ég man hins vegar ekki eftir neinum forsvarsmanni trúfélags mæra í sjónvarpinu aðra kvikmynd með 52 mínútur af ofbeldi, blóði og þjáningu af hverjum 60. Að vísu horfi ég ekki mikið á sjónvarp og ef því trúlega misst af lofi klerka um Hostel (sem Eyþór Guðjónsson lék svo eftirminnilega í).

Það er víst óhætt að fullyrða í framhaldi af þessu að í kjarna kristinnar trúar er ofbeldi fyrirferðarmikið; er snar þáttur í trúnni. Krossinn sem margir bera um hálsinn er tákn ofbeldis; er aftöku- og pyntingatæki, ekki ósvipað gálga eða rafmagnsstól. Þótt sumir vilji meina að krossinn sé tákn upprisu og vonar, fer ekki á milli mála hvaða hlutverki hann gegndi. Pína Krists er heldur engin undantekning Biblíunni. Hún er í raun blóði drifin. Ef til vill er trúin aðeins birtingarmynd á ofbeldisfullu eðli mannskepnunnar og aðeins tál að halda að án trúar væri heimurinn betri.  

Væri ráð að hvetja til reykleysis á sígarettupökkum?Að mínum dómi ætti ríkið að hverfa frá trúboði og hvetja jafnvel til trúleysis. Ríkið hvetur og skikkar til reykleysis, hví skyldi það ekki hvetja og skikka til trúleysis? Reykingar drepa, það er ljóst. Trú drepur, það er líka ljóst. Yfirvöld í ríkjum þar sem sjálfsmorðsárásir viðgangast ættu að taka þetta til alvarlegrar skoðunar. Yfirvöld í vestrænum ríkjum ættu einnig að taka þetta til skoðunar. Forvarnir skipta miklu máli, um það eru allir sammála. Að vísu er hæpið að yfirvöld sumra ríkja taki upp á því að boða trúleysi, þar sem þau hin sömu sjálfskipuðu yfirvöld stjórna að eigin mati landinu í umboði guðs.

Sem eftirmála við þessa færslu langar mig að bæta við að uppgangur öfga sem tengjast trú, svo sem „vitsmunahönnun“, er mikill um þessar mundir (sjá grein í nýjasta Economist, 21. apr.). Trúaðir hafa fært sig upp á skaftið og eru í auknum mæli farnir að þröngva heimsmynd sinni yfir á aðra, einkum börnin, með góðu eða illu. Núlltrúaðir, trúlausir, trúlitlir og trúengir þurfa að mínum dómi að bregðast við. Guð skapaði ekki heiminn frekar en tunglið er úr osti. Þetta ætti að vera hafið yfir deilur, en er það ekki. Það sýnir vandann í hnotskurn.


Trú og ofbeldi

Hefur enginn tekið eftir mynstrinu? Ofbeldi og trú eru eins og síamstvíburar.

Í sambandi við þessa sorglegu frétt langar mig að birta tilvitnun í Nóbelsverðlaunahafann Steven Weinberg:

„Trú er móðgun við mannlega reisn. Hvort sem trú væri til eða ekki, myndi gott fólk gera gott og vont fólk illt. En til þess að gott fólk geri illt, þarf trú til.“

Ég sendi ættingjum fólksins hugheilar samúðarkveðjur.

--- 

Könnun í Fréttablaðinu í dag sýnir að 57,2% landsmanna er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Þar sem ég hef alltaf verið ákaflega hlynntur sölu ríkisfyrirtækja er ég fylgjandi aðskilnaði, enda eru fá rök fyrir því að ríkið haldi uppi einni trúardeild fremur en annarri, ekki síst á tímum aukinnar fjölbreytni í því sem fólk kýs að trúa á.


mbl.is Útgefendur Biblíunnar myrtir í Tyrklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mátulegt á hann

Enn eru til stjórnmálamenn í þessu landi sem styðja stríðið í Írak. Ástæðan fyrir því að þeir styðja þetta ljóta stríð er sú að það eru ekki nægilega harðar refsingar við því. Fengju allir sömu meðferð og Joe Lieberman fékk fyrir sinn stuðning, er ég hræddur um að það myndi fækka í stuðningsliðinu.

Aumingja Joe

Það er annars að frétta af Joe að hann flaug inn á þing í sérframboðinu. Kjósendur hafa vafalítið vorkennt honum og greitt honum atkvæði í sárabætur.

En það er alveg ljóst að Joe Lieberman mun ekki styðja innrás í Írak í bráð. 


Glöggt er gests augað

Þeir fáu sem trúa tali Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að á Íslandi hafi ójöfnuður og fátækt aukist, skattar hækkað, aldraðir á gaddinum, börn á biðlistum og svo framvegis, ættu að lesa þessa grein. Í henni er farið yfir efnahagsumbyltinguna á Íslandi og spurt hvað megi læra af henni. Í sambandi við tilvitnun í greinina hér fyrir neðan er rétt að geta þess að núverandi formaður Samfylkingarinnar greiddi ekki atkvæði með EES-samningnum 1993. 

„Það var EES-samningurinn 1993 í bland við einstaka frelsisáætlun sem gerbylti efnahagnum. Ríkisfyrirtæki voru seld, bankar einkavæddir, tekjuskattar og vextir lækkaðir. Í lok tíunda áratugarins hafði Ísland lokið yfirfærslunni úr miðstýrðu efnahagskerfi í fyrirmyndar opið og frjálst hagkerfi.“ [Þýðing Sig. Orri]

Hér er talað um að ein af helstu ástæðunum fyrir góðum árangri sé sala ríkisfyrirtækja. Í því sambandi er rétt að rifja upp þessi orð Steingríms J. Sigfússonar frá 1998:

„Það er alveg morgunljóst að aðstæður á Íslandi eru þannig að allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull.“ 

Það er alveg morgunljóst að ef Steingrímur og Ingibjörg hefðu haft eitthvað um efnahagsmál Íslands að gera á tíunda áratugnum, væri ekki fjallað um Ísland með aðdáun í erlendum fjölmiðlum í dag.


Júróvisjón Frelsi

Ég spáði rétt með þetta lag.Mér er mikil ánægja að tilkynna að ég er hættur að fylgjast með Júróvisjón. Ég var svo ungur þegar ég byrjaði að ég man ekki lífið öðruvísi. Ég var ábygglega mesti Júróvisjón aðdáandi í heimi. Ég gleymi ekki gleðinni yfir því þegar Save all your kisses for me vann, því ég hafði spáð því sigri. Þóttist heldur betur hafa nef fyrir tónlist. Þegar Nicole sigraði með lagið Ein bischen frieden fór ég umsvifalaust út í búð og keypti smáskífuna. Eflaust hlæja einhverjir að því, en það er til marks um hversu forfallinn ég var.

Þegar Ísland var með í fyrsta skipti náði Júróvisjónið hámarki. Ég hélt í alvöru að Gleðibankinn væri besta lag mannkynssögunnar. Það var því mikið áfall er það lenti í 16. sæti. Mér leið eins og ég hefði verið í bíltúr með óminnishegranum og ekið á staur. Gleðibankinn var besta lag mannkynssögunnar.

Skyndilega rann upp fyrir mér að Júróvisjón var kannski ekki eins æðislegt og ég hélt. Áður en það gerðist sá ég bara snillinga í glæsilegum búningum. Eftir að raunveruleikinn knúði dyra sá bara lúða að nauðga sönggyðjunni og ekki bara sönggyðjunni, heldur líka tískugyðjunni, fegurðargyðjunni og móður allra lista, listagyðjunni.

Silvía Nótt er það besta sem komið hefur fyrir keppnina.Skoðuð í samfélagslegu ljósi er Júróvisjón birtingarmynd ríkisrekstrarins. Ríkið að giska á hvað unga fólkið fílar. En flest ungt fólk í dag hefur engan áhuga á keppninni, engan. Það eru einungis hommar og gamalmenni sem hafa gaman að henni. Nú er ég ekki að kasta neinni rýrð á homma en af einhverjum ástæðum hafa þeir fallið fyrir Júróvisjón. Mig grunar að glysið eigi þátt í því. Þegar Silvía Nótt varð fulltrúi Íslands var mér skemmt. Það var nákvæmlega það sem þessi "keppni" þurfti; afhjúpun og afbygging. Silvía Nótt er það besta sem fyrir þessa keppni hefur komið frá upphafi, en kerfi eins og þetta, sem hefur það eitt að markmiði að viðhalda sjálfu sér, er ekki beinlínis ánægt með að klúbbmeðlimir ráfi út af braut rétttrúnaðarins. Ísland sendir því ótvíræð skilaboð í ár: Við erum þægir, við fylgjum rétttrúnaðinum og sendum ykkur holdgerving Júróvisjón í Skandinavíu, Eirík Hauksson. Nú geta lúðarnir tekið gleði sína á ný og klappað saman höndunum og sungið með.

Þegar ég var lítill einokaði ríkið rekstur sjónvarps á Íslandi og skammtaði ofan í mig og þjóðina dagskrá í smærri skömmtum en löngun var til. Þess vegna var öllu tekið fagnandi, sama hversu lélegt það var. Þjóðin var ekki ósvipuð þyrstum manni í eyðimörk sem rambar á fötu með fúlu vatni.

Ég þarf ekki lengur að drekka vatn úr þessari fötu.Í dag er þetta breytt, ég þarf ekki lengur að drekka fúlt vatn til að seðja þorstann. Þökk sé frelsinu og afurð þess, netinu. Ég hef hvorki séð né heyrt lögin sem voru í undankeppninni á Íslandi, hvorki lagið sem vann eða fallistana. Mér hefur tekist að leiða Júróvisjón algerlega hjá mér fyrir utan eina og eina fyrirsögn í blöðunum um hver verður fulltrúi Íslands, hvaða litur er á lubbanum á Eiríki og eitthvað fleira. Það er sannarlega af sem áður var, nú hef ég raunverulegt val. Nú er ekki þröngvað inn í vit mín hlutum sem ég vil ekkert með hafa. Það er æðislegt og það er ástæðan fyrir því að ég aðhyllist frjálshyggju; að hver maður sé frjáls til að gera það sem honum þóknast á sína ábyrgð án þess að það bitni á öðrum. 


mbl.is Eiríkur fékk næstum fullt hús stiga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þú vilt bæta heiminn...


Í þessari gestaþraut Heimsverndar er fjallað um hús tveggja bandarískra manna. Annað húsið tilheyrir verðlaunuðum umhverfisverndarsinna, hitt alræmdum umhverfissóða að margra mati. 

Hvort húsið tilheyrir umhverfisverndarsinnanum? 

HÚS A:

20 herbergja villa með 8 baðherbergjum sem kynnt og kæld er með gasi. Við húsið er innisundlaug og gestahús sem einnig er kynnt og kælt með jarðefnaeldsneyti. Orkunotkun hússins á mánuði er meiri en ársnotkun meðalhúss í Bandaríkjunum. Orkureikningur hússins er um 160 þúsund á mánuði. Gasnotkun villunnar er 20 sinnum meiri en meðaltalið.

HÚS B: 

Hannað (af prófessor í arkitektúr við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna) með tilliti til orkusparnaðar og umhverfisverndar. Það er 370 fermetrar að stærð með fjórum svefnherbergjum og er staðsett á sléttunum sem þekja suðvesturhluta Bandaríkjanna. Úr miðstöð hússins liggja rör nær 100 metra niður í jörðina þar sem hitinn er um 20 gráður. Hringrás vatnsins heldur húsinu heitu á veturna og kælir það á sumrin. Jarðefnaeldsneytisnotkun miðstöðvarinnar er engin og dælurnar sem viðhalda hringrásinni nota aðeins fjórðung þess rafmagns sem hefðbundnar miðstöðvar nota. Regnvatni er safnað af þaki hússins í sérstakan neysluvatnstank. Vatn úr sturtum, vöskum og salernum rennur í gegn um hreinsikerfi og síðan aftur í neysluvatnstankinn. Umframvatn er notað til að vökva plönturnar í garðinum, sem allar eru úr sveitinni í kring.

 XXHouse

 

 

 

 

 

 

 

HÚS A (orkusóandi villa) er staðsett skammt frá Nashville í Tennesseeríki. Það er aðalíverustaður hins kunna umhverfisverndarsinna og kvikmyndagerðarmanns, Al Gore.

ranch

 

 

 

 

 

 

HÚS B (náttúruvænt hús) er í búgarði nærri Crawford í Texasríki. Húsið sem stundum er kallað Hvíta húsið í Texas, er heimili forseta Bandaríkjanna George W. Bush.

Skilaboð Heimsverndar til Al Gore eru þessi: Kæri Al Gore, ef þú vilt bæta heiminn, byrjaðu þá á sjálfum þér.


Kjaftæðið á meðal vor

Penn and teller 2Þjóðfélag okkar er barmafullt af hindurvitnum og þvælu sem óhætt er að kalla því viðeigandi orði kjaftæði. Penn og Teller hafa verið óþreytandi að benda okkur á það. 

Átappað vatn, mörgum að óvörum, fellur í þann flokk. Almennt er talið að vatn á flöskum sé hreinna og bragðbetra en venjulegt kranavatn. Það er kjaftæði. Þriðjungur alls vatns sem selt er í flöskuvís í búðum Bandaríkjanna stóðst ekki lágmarkskröfur um hreinlæti. Í smökkunarkönnun sem gerð var í New York kom í ljós að þrír af hverjum fjórum vegfarendum þótti kranavatn úr þeirri Gómorru bragðbetra en rándýra flöskuvatnið.

Til að mæla hversu svæsið bullið í kringum blávatnið er földu Penn og Teller myndavélar á veitingastað og bjuggu til nýja tegund af þjóni: Vatnsþjón (sbr. vínþjón). Niðurstaða var mjög athyglisverð, eins og meðfylgjandi myndbútur ber með sér.

 


Via: VideoSift

Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 114002

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband