Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Fékk plötuna með Geir Ólafs!

Sá ánægjulegi atburður gerðist 24. desember síðastliðinn að Sigurgeir Orri (40) fékk nýju plötuna með Geir Ólafssyni (34) í jólagjöf. „Meðan ég opnaði pakkann reyndi ég að giska á hvaða plata væri í honum, því ekki laug formið, það var plata í pakkanum,“ sagði Sigurgeir Orri í samtali við Slefað og skeint. „Bróðir minn Jónas (39) er með einstaklega góðan tónlistarsmekk, er naskur á hæfileika á því sviði. Það kom mér því ekki á óvart að hinn ungi og efnilegi Geir Ólafs. skyldi vera í pakka frá honum og hans fjölskyldu, þótt ekki hafi mér dottið hann í hug er ég reyndi að giska á innihald pakkans.“ Sannarlega ánægjulegt. „Mjög svo, og ekki spillti fyrir að platan var árituð.“ Árituð af Ice Blue sjálfum! Það er stórkostlegt. Þú hlýtur að vera í skýjunum. „Í skýjunum er ég, það er rétt, en þótt platan sé árituð, er hún ekki árituð af listamanninum, heldur syni bróður míns, Sigurgeiri Jónassyni (12).“ Einmitt það. Er sá drengur eitthvað tengdur Frank Sinatra Íslands? „Ekki svo ég viti.“ Þú munt þá ekki geta skipt gjöfinni? „Nei, enda hefði ég aldrei skipt svona góðri gjöf.“ Langar þig til að segja eitthvað að lokum? „Já, ég vil að það komi fram að ég met huginn að baki árituninni mikils. Álíka mikils og sjálfa gjöfina. Það er gleðigjafi að fá verk snillinga á borð við Geir Ólafs. árituð af öðrum en þeim.“

Slefað og skeint þakkar Sigurgeiri Orra fyrir spjallið.


Þykkar og þunnar bækur

Jæja, þá er komið að listanum góða. Ekki eru margar bækur á honum í ár, en þeim mun betri. Sumar bækur eru þykkari en aðrar, en það þarf þó ekki að þýða að í þeim sé meira efni.

Bókahillan í nærmynd

Biblían í nýrri þýðingu 1872 bls.

Biblían í nýrri útgáfu án blóðsúthellinga, mannfjandsamlegra viðhorfa og söguskýringa sem standast ekki, 5 bls. Útg. JPV.

Þróunaraðstoð í 30 ár, árangursrík hjálp, 5 bls. Útg. Hjálparstofnun Kirkjunnar.

Þróunaraðstoð í 30 ár, saga, umfang og kostnaður, 2490 bls. Útg. Hjálparstofunun Kirkjunnar.

Bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla blaaaaa! Ræður Steingríms J. Sigfússonar frá upphafi þingmannsferils hans. 9890 bls. Útgefandi Vinstri grænir með styrk frá ríkinu. (Stór bók í hillunni.)

Bla. Steingrímur J. Sigfússon í hnotskurn, helsti kjarni máls hans dreginn saman í handhægu riti. 2 bls. Útgefandi Vinstri grænir með styrk frá Ríkinu. (Lítil þykkspjaldabók í hillunni.)

Efnahagsundrið Ísland. Hinar miklu framfarir sem orðið hafa á Íslandi síðustu 16 ár útskýrðar. Höfundur Guttormur Melsteð. 250 bls. Útg. Bókafélagið.

Efnahagsviðundrið Reykjavík. Hin mikla skuldasöfnun og óstjórn sem verið hefur á Reykjavík undanfarin 16 ár í mesta efnahagsuppgangi Íslandssögunnar útskýrð. Höfundur: Guttormur Melsteð. 250 bls. Útg. Bókafélagið.

Gamansögur af Villa og Jóni. Í þessari bráðskemmtilegu bók eru sagðar gamansögur af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni fyrrverandi borgarstjóra og Jóni Sigurðssyni fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins. 5 bls. Útg. Orkuveitan. (Þunn þykkspjaldabók í hillunni.)

Ertu ekki að jóga? Handbók um hugleiðslu og jóga. Í bókinni eru einfaldar leiðbeiningar hvernig hægt er að sjá hvort náunginn sé í jóga eða einfaldlega bara að grínast. 50 bls. Útg. Jógaskóli Klöru.

Góða skemmtun.


Hvar er lækkunin?

LEIÐRÉTTING: Ég var búinn að gleyma því að skatturinn var lækkaður úr 14% í 7% en ekki 24,5% svo glæpurinn er ekki eins hrikalegur og virðist í fyrstu. Það hefði engu að síður verið til siðs að lækka lítillega bækurnar milli ára.

Engin merki virðast vera um það að verð hafi lækkað á bókum milli ára, þótt skatturinn hafi verið lækkaður í 7% úr 24,5%. Dæmi um verð á bókum sömu höfunda milli ára:

2007

Harðskafi, Arnaldur Indriðason 4790. Aska, Yrsa Sigurðardóttir 4690. Dauði trúðsins, Árni Þórarinsson 4680.

2006

Konungsbók, Arnaldur Indriðason 4690. Sér grefur gröf, Yrsa Sigurðardóttir 4690. Farþeginn, Árni Þórarinsson og Páll Kristinn Pálsson 4680.

Hver stal skattinum?

Allar bækur standa í stað í verði milli ára nema bók Arnaldar sem HÆKKAR um 100 krónur. Þetta eru leiðbeinandi verðin sem útgefendur prenta í Bókatíðindi. Bók sem kostaði 4690 í fyrra með 24% skattinum kostaði 3767 án skatts. Í ár kostar þessi sama bók 4383 án skatts. Hækkunin er 616 kr. milli ára. Það er talsverð upphæð. Nokkur læti urðu þegar sumir veitingastaðir lækkuðu ekki verð á mat sem nam skattalækkuninni, nú virðast allir hafa gleymt því skattur lækkaði líka á bókum í 7%. Svona viðskiptahættir eru ekki til fyrirmyndar. Lesendur geta borið saman verðin sjálfir, ef þeir kjósa svo.

Ástæðan fyrir því að þetta rifjaðist upp fyrir mér er sú að mér fannst verðið frekar hátt á bók sem var á sérstöku tilboðs tilboði, extralækkuðu súper Múskóverði í einhverri búðinni. Ég hef, sem áhugamaður um bókmenntir keypt bækur íslenskra höfunda í gjafir fyrir hver jól. Á því verður breyting í ár.


mbl.is Bókaflóðið í hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vínið í landinu

Í skoðanakönnuninni hægra megin á síðunni eru athyglisverðar upplýsingar um viðhorf þjóðarinnar til hvort vín skuli selt í sérstakri ríkisbúð eða einkabúðum. 70% vilja einkabúð. Það er afgerandi.

Áhugaverð er einnig samanburðarniðurstaðan úr hinum þremur spurningunum. Heil 44% treysta mér ekki til að fara út í næstu matvörubúð og kaupa vín með matnum. 44%! Það er ótrúleg tala. En þegar spurningin snýr að þessum sömu aðilum sjálfum, þá er nú annað uppi á teningnum. 29% treysta sjálfum sér ekki. Munurinn er 15%. Við þessi 15% vil ég segja þetta: Þið eruð ósómi Íslands, þið eruð hræsnin uppmáluð. Ég skipa ykkur að hætta þessari afskiptasemi af fullorðnu fólki. Farið norður og niður!

Afskiptasemin kristallast enn frekar í þriðju spurningunni. 80% missa sig ekki í útlöndum þótt vínið fáist í öllum búðarholum. Vitaskuld ekki. Það er hlægilegt að hugsa til þess að Jón Jónsson hlaupi til í Kaupmannahöfn og drekki sig fullan við kassann í matvörubúð, bara vegna þess að vínið fæst þar en ekki í sérstakri ríkisbúð.

Andúðin gegn því að vín verði selt í venjulegum búðum á Íslandi er sýnishorn af stjórnsemi og í einhverjum tilvikum misskilinni umhyggju fyrir þó fullorðnu fólki. Áfengisvandinn mun ekki breytast neitt við það að vínið fáist víðar. Fíkniefnavandinn er viðvarandi þótt engin búð selji ólögleg fíkniefni. Það hefur ekkert með búðirnar að gera.

Sama hvert litið er, er undarlegur tvískinnungur í gangi, einskonar Jekyll og Hyde heilkenni. Vínauglýsingar eru bannaðar í íslenskum fjölmiðlum, en blasa hvarvetna við í erlendum fjölmiðlum sem eru engu minna áberandi á Íslandi en þeir íslensku. Auk þess er farið í kringum bannið með því að auglýsa léttöl og vín eru „kynnt“. Jekyll vill ekki að ég geti keypt rauðvín með matnum en Hyde treystir sjálfum sér fullkomlega til þess.

Hér er skilti sem ég bjó til í bræði minni. Það er ekki til sölu, það er til háðungar.

Skilti fyrir hræsnara


Ekki rassgat í Balí

Niðurstaða Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Balí var mikil vonbrigði, að mati Jóhanns Jónssonar umhverfisverndarsinna í samtali við Skinhelgi - tímarit um umhverfismál. „Mér fannst ekki ganga rassgat í Balí, það voru engin töluleg markmið sett í samkomulagið um takmörkun gróðurhúsalofttegunda. Bandaríkjamenn sögðu að miðað við fyrri markmiðin sem þeir neituðu að skrifa undir myndi þau ekki einu sinni nást þótt Bandaríkin og Kanada myndu slökkva á efnahagskerfum sínum, „go cold turkey“ eins og þeir sögðu vegna þess að í viku hverri er opnað eitt kolakynt orkuver að meðaltali í Kína og Indverjar auka blásturinn með miklum hraða líka.“ Ætlarðu að bregðast við þessari slæmu niðurstöðu Balífundarins? „Já, ég ætla að vera sannur umhverfisverndarsinni og hegða mér í samræmi við þá vá sem ég tel stafa af því að það hlýni. Ég á til dæmis 8 börn og ætla að borga hálfa milljón á hvert þeirra til Sólar í Hvalfirði til að kolefnisjafna þau. Hvað sjálfan mig varðar ætla ég ekki að fljúga neitt næstu 10 árin að minnsta kosti, og notast fremur við reiðhjól og fætur en bíl eða almenningssamgöngur. Börnin sem eru á aldrinum eins til níu ára ætla ég að flytja í sérstakri kerru aftan á hjólinu í dagvistun, skóla og tómstundastörf. Ef gróðurhúsalofttegundirnar fara ekki fljótlega að minnka mun ég skera niður matarskammt fjölskyldunnar.“ Það er ánægjulegt að þú skulir fyrst og fremst hugsa um hvað þú ætlar að gera sjálfur til að bæta heiminn. Óskandi væri að fleiri hugsuðu eins og þú. „Þakka þér fyrir. Ég hef raunar sett mér það markmið að verði ekki búið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 90% árið 2018 mun ég kolefnisjafna mig fyrir fullt og allt og láta skjóta mér út í geim til að vera ekki baggi á þjökuðum hnetti okkar vegna útblásturs manna.“ Þú tekur málstaðinn svona alvarlega? „Ég vona að ég setji öðrum umhverfisverndarsinnum gott fordæmi.“ Óhætt er að taka undir það, einkum varðandi síðasta atriðið. Skinhelgi - tímarit um umhverfismál óskar Jóhanni Jónssyni og fjölskyldu velfarnaðar í framtíðinni.

Til styrktar þjóðkirkjunni

Hví ekki gefa vinum og ættingjum bol í jólagjöf? Hér er glæsilegur bolur með hughreystandi orðum sem allir geta tileinkað sér. Kostar aðeins 100 kr.

Ímyndaðir vinir eru góðir vinir

1% af söluandvirði þessa bolar rennur óskipt til styrktar þeim sem eiga bágt í þjóðkirkjunni. Bæði þeim sem gráta nýju þýðinguna og þeim sem sakna þess að fá ekki að boða trú í skólum landsins.


Skilti í frjálsara landi

Þetta gæti orðið veruleikinn ef skylduaðild að starfsgreinafélögunum yrði afnumin. Skylduaðildin er afar ólýðræðisleg, raunar ógeðfelld. Fjölmargir kæra sig ekki um að vera í slíku félagi en eru neyddir til að  vera meðlimir og greiða hlutfall af launum. Í landinu er félagafrelsi og því stenst það tæplega stjórnarskrána að lögbinda slíka aðild. Hvað tefur Alþingi?

Kröfuskilti með stuðningi

Tillögur að nýyrðum

Sjálfsagt er að taka tillit til krafna um að kyngreining verði færð í rétt horf á Alþingi. Réttlæti er hagsmunamál allra, ekki bara karla.

Þingmaður af karlkyni verði: Þinglimur. Sbr. tukthúslimur. [borið fram: th(tunga út)ingh-lihmuhr]

Þingmaður af kvenkyni verði: Þingsköp. Sbr. ósköp. [borið fram: th-ingsk-öhp]

Ráðherra af karlkyni verði: Ráðlimur. Sbr. meðlimur. [borið fram: Rauþh-lihmuhr]

Ráðherra af kvenkyni verði: Ráðsköp. Sbr. afglöp. [borið fram: rauth-sköhp]


Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 114001

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband