Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Vetni tapar, rafmagn vinnur

Vetnið er ekki framtíðarorkugjafi á Íslandi, ekki vegna þess að það sé svo slæmt, heldurToyota Prius með engri innstungu stenst það ekki samanburð við rafmagnið. Rafmagnið er allstaðar, hvert heimili er „bensínstöð“, flutningskerfið er tilbúið, ekki þarf að aka því með tankbílum á bensínstöðvar eins og vetninu og þróunin í rafhlöðum er afar hröð, þær halda meiri og meiri orku og verða æ léttari. Auk þess er óþarfi að nota rafmagn til að búa til vetni þegar hægt er að nota það beint með betri árangri. 

Spurningin er því sú hvers vegna það er ekki hægt að kaupa tvíorkubíla eins og Toyota Prius með hleðslutæki sem stinga má í samband í venjulega innstungu? Hvað kemur í veg fyrir að þeir eru framleiddir þannig? Hvers vegna nota rándýrt bensínið til að hlaða geymana þegar hægt er að hlaða þá heima fyrir miklu lægra verð?

Um leið og bílar sem hægt er að hlaða heima hjá sér koma á markað, hætta allir að tala um vetni. Því spái ég.

Stóra spurningin sem ég ætla að endurtaka núna er: Hvenær kemur Prius með innstungu? 

Í framhaldi af þessu má spyrja enn einnar spurningar: Hví ekki ganga alla leið, sleppa sprengihreyflinum og styðjast eingöngu við rafmagnið? Það styttist mjög í það, hér er myndband sem er kynning á Tesla Roadster sportbílnum. Tesla er svo kraftmikill að hann er fljótari en hraðskreiðustu bensínbílar í hundraðið. Síðast þegar ég gáði var Tesla afar dýr, en með tíð og tíma lækkar verðið og þá mega olíufurstarnir í miðausturlöndum og Rússlandi fara að vara sig. 


Sigurgeir Orri gagnrýnir Pútín harðlega

Í þrumandi ræðu sem Sigurgeir Orri hélt á Laugardalsvellinum nýlega gagnrýndi hann Pútín Rússlandsforseta harðlega og sagði hann ekkert annað en einræðisherra sem léti myrða andstæðinga sína eða varpa þeim í fangelsi, samanber Önnu Politkovskaiu og Kodorkovski. Einnig sagði Sigurgeir Orri að hann héldi Rússlandi í heljargreipum valdagræðgi sinnar og að Pútín og lagsmenn hans væru í raun glæpaklíka sem stjórnaði landinu eins og það væri fyrirtæki í þeirra eigu. Að nú um stundir snerist allt líf Pútíns um að búa svo um hnútana að hann geti haldið völdunum án þess að þurfa að kveikja í stjórnarskránni. Um miðbik ræðunnar sagði Sigurgeir Orri það skýr merki um einræðistilburði Pútíns að hann hafi skrúfað fyrir alla frjálsa fjölmiðla og félagasamtök og komið í veg fyrir að fylgst væri með komandi kosningum af Öryggisstofnun Evrópu. Lokaorð Sigurgeirs Orra voru: „Herra Pútín, við sjáum í gegn um þig, við þekkjum glæpamenn sem dulbúa sig sem stjórnmálamenn. Gerðu landi þínu það mesta gagn sem þú nokkru sinni hefur gert: Virtu leikreglur lýðræðisins og farðu frá völdum eins og stjórnarskráin segir til um.“
mbl.is Pútín gagnrýnir Vesturlönd harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn út úr brauðskápnum!

Hvítt brauð er herramannsmaturSigurgeir Orri (40) er kominn út úr brauðskápnum. „Það gerðist þannig,“ sagði Sigurgeir Orri í samtali við blaðið, „að ég hætti að kaupa 3, 4, 5, 6 og 7 korna brauð, heilsubrauð, speltbrauð, hverabrauð og hvað þetta dót nú heitir allt saman. Nú kaupi ég eingöngu hvítt brauð því mér þykir það best og hefur raunar alltaf þótt.“

Samviskubit frá æskuárunum 

„Þegar ég var barn var mér kennt að franskbrauð væri óhollt en heilhveitibrauð hollt og ég fékk samviskubit í hvert sinn sem ég borðaði franskbrauð. Svo komu brauð með korni og þau þóttu taka heilhveitibrauðinu fram í hollustu. Það sem sló þau svo út var speltbrauðið, það átti aldeilis að vera langhollast í heimi, enda bakað úr korni sem vaxið hefur villt í milljón ár. Samviskusamlega elti ég hollustubylgjuna eins og flón. En nú er ég sem sagt hættur því; er kominn aftur heim.“Skápurinn sem Sigurgeir Orri kom út úr

Þarmakítti

Það hefur verið sagt að hvítt brauð, brauð án korna, sé vont í garnirnar, sé svokallað þarmakítti. Ertu sammála því? „Nei, það er ég ekki. Að minnsta kosti sakna mínir þarmar ekki fjölkornabrauðsins. Ég tel að sú bábilja að kornabrauð sé gott í garnirnar sé eingöngu sölumennska. Fólki er seld þessi „speki“ á læknisfræðilegum forsendum. Ekki í fyrsta skipti, það get ég sagt þér. Ef þú telur að korn geri iðrunum gott mæli ég með að þú fáir þér til dæmis 1 bolla af birkifræi og skolir því niður með mysu.“ En nú þykir sumum gott að borða brauð með korni og sækist beinlínis eftir því. Til að mynda er rúnstykki með birkifræi góður matur. „Því er ég sammála. Mér þykir rúnstykki með birki mjög gott, enda er það hvítt brauð skreytt með korni. Ég er ekki að halda því fram að öll brauð önnur en hvít séu vond, þótt það standi svart á hvítu hér að framan. Það var til að mynda brauð sem fékkst í Matval (eða var það mjólkurbúðin?) á Þinghólsbrautinni sem mér þótti afar gott. Það var la la heilhveitibrauð, en skorpan var góð; hún var rétt brennd. Nú fæst þetta brauð ekki lengur. Einnig þótti mér normalbrauð nokkuð gott, sérstaklega ef á það var smurt þykkt lag af smjöri. Þegar ég borðaði það fannst mér eins og ég væri normal, félli í hópinn. Nú um stundir gerir kókið þetta fyrir mig. Þegar ég drekk kók finnst mér ég vera hamingjusamur og hluti af einhverju skemmtilegu, hlæ með fallega fólkinu.“

Uppskriftir

Ristað brauðÞú hlýtur að luma á uppskriftum ef ég þekki þig rétt? „Það er hárrétt hjá þér, og er til marks um hversu vel þú hefur unnið heimavinnu þína. Hér er uppskrift að léttum rétti: Tvær franskbrauðsneiðar um það bil 12 mm þykkar. Ekta smjör, Gotta-oststykki, brauðrist, smjörhnífur, ostahnífur. Brauðsneiðarnar settar í brauðristina og ristaðar þar til á þær kemur gullinn grillblær. Teknar úr brauðristinni og smurðar með þykku lagi af ekta smjöri. Tvær til þrjár sneiðar af osti, eftir smekk, settar á hvora sneið. Tillaga að meðlæti: Mysa með einni teskeið af mysingi.“

Slefað og skeint þakkar Sigurgeiri Orra fyrir spjallið og hvetur lesendur til að prófa uppskriftina. 


Hreyfði fingurinn frá vinstri til hægri

Sigurgeir Orri (40) hreyfði vísifingur vinstri handar frá vinstri til hægri í gær. Í samtalið við blaðið, skömmuÖrin sýnir áætlaða hreyfingu fingursins áður en það fór í prentun, sagði hann að þótt hann gerði það margsinnis á dag, var þetta sérstaklega eftirminnilegt. „Fingurinn færðist nefnilega til hægri á stólbríkinni og benti þá á sjónvarpið sem ég var að horfa á.“ Slefað og skeint tekur undir með Sigurgeiri Orra, þetta er afar sérstakt. En hvað var að gerast í sjónvarpinu? Það vilja allir lesendur vita. „Ekkert, það var slökkt á því. Ég var að horfa á það vegna þess að ég sat þannig í stólnum.“ Einmitt það.

Slefað og skeint þakkar Sigurgeiri Orra kærlega fyrir spjallið. 


Ráðgátan leyst!

Íslendingar geta andað léttar! Snuðið sem hvarf á dularfullan hátt um daginn, er fundið. Það hafði fallið milli vagns og hlífar og fannst ekki fyrr en hlífin var tekin af. „Þetta er mikill léttir,“ sagði Sigurgeir Orri (40) í samtalið við blaðið. „Þetta var farið að valda mér miklu hugarangri. Óleyst mál eins og þetta, eiga það til að setjast á sálina.“ Það var Heiðrún Gígja (36) sem fann snuðið. Snuðin voru orðin svo fá að til vandræða horfði. Greip hún þá til þess ráðs að svipta hulunni af vagninum og þá kom snuðið í ljós. „Ég var ákaflega glöð þegar ég sá snuðið detta á svalagólfið og grét af fögnuði,“ sagði Heiðrún Gígja.

Slefað og skeint óskar hjónunum til hamingju. 


Sá bjórauglýsingu!

Þennan bjór má ekki kaupa nema í sérstakri búðSá atburður gerðist í gær að Sigurgeir Orri sá bjórauglýsingu í sjónvarpinu, þrátt fyrir að blátt bann sé við áfengisauglýsingum á Íslandi. „Það gerðist þannig,“ sagði Sigurgeir Orri í samtalið við Burt með ríkisforræðið, „að ég var að horfa á Sky-fréttir og þá kom skyndilega hlé á útsendingu fréttanna og við mér blasti mynd af þremur strákum, venjulegum strákum, sem voru að syngja eins og poppstjörnur uppi á sviði á fjölmennum tónleikum. Svo fengu þeir sér Carlsberg bjór eftir tónleikana. Hvað halda þessir menn á Sky-fréttum? Halda þeir að þeir geti svínað á landslögin og birt auglýsingar um bjór sem er 5% að áfengisinnihaldi?“ Það er klárlega einhver geðklofi í gangi hér. Það virðist nú vera að sumir haldi að ef áfengisauglýsing birtist í íslenskum fjölmiðli, þá leiði hún til aukins áfengisböls, en ef hún birtist í erlendum fjölmiðli þá leiði það ekki til aukins áfengisböls „Þegar þú segir það, þá sér maður að svo virðist að sumir haldi að íslendingar lifi í kúlu sem hefur engin tengsl við umheiminn. En að sjálfsögðu vita allir að við lifum ekki í sambandslausri kúlu (tímarit, internet, kvikmyndir, gervihnattasjónvarp), en þeir sem eru áfram um slíkt bann eru að blekkja sjálfa sig. Ljúga upp í opið geðið á sjálfum sér.“ Hverjir eru það helst sem ljúga að sjálfum sér? spyr blaðamaður Burt með ríkisforræðið. „Það eru þeir sem telja sig vita betur en ég sjálfur, hvað hentar mér. Þetta er sama fólkið og er á móti því að hægt sé að kaupa áfengi annars staðar en í sérstökum ríkisbúðum. Þetta er fólkið sem kann ekki með áfengi að fara og hefur farið íStórhætta á ferðum! Bjór í matvörubúð. áfengismeðferð. Þetta er fólkið sem drukkið hefur frá sér ráð og rænu, en er aftur komið með rænuna, en ekki ráðið. Þeir sem eru ekki þurrir alkóhólistar eru vinstrimenn sem líta á ríkið sem móður og okkur sem börn sem þarf að hafa vit fyrir.“ Þetta voru orð í tíma töluð. Viltu bæta einhverju við að lokum? „Svo sannarlega. Það ætti að taka alla þá sem eru á móti því að ég geti keypt áfengi í venjulegum búðum og hella í þá laxerolíu og fela klósettpappírinn.“ Er þetta nú ekki full dónalegt? „Það mætti ef til vill sleppa því að fela klósettpappírinn.“ Þakka þér kærlega fyrir spjallið. „En ég er ekki búinn!“ Gott og vel, hverju viltu bæta við? „Ég vil bara segja þér það að í Þýskalandi eru miklar hraðbrautir þar sem ekið er greitt, greiðar en í nokkru öðru landi heims.“ Og punkturinn er? „Á bensínstöðvum við þessar hraðbrautir er hægt að kaupa vín af hvaða styrkleika sem er. Fólki sem ekur um þýskar hraðbrautir er sem sagt treyst fyrir því að hafa vit fyrir sjálfu sér, ólíkt þeim sem aka um íslenska vegi.“

Burt með ríkisforræðið þakkar Sigurgeiri Orra fyrir spjallið.


Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 114024

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband