Leita í fréttum mbl.is

Rétti búningurinn

Kvikmyndagerðarmenn eiga ekki að vera ragir við að velja sögu þann búning sem henni ber, sama hvað tískusveiflum þjóðfélagsins líður. Nú er til að mynda ekki í tísku að gera heimildarmyndir með þul. Ástæðan er sú að það er of sjónvarpslegt sem skilgreinist sem andstæða við listrænt eða kvikmyndahátíðalegt. Sjónvarpsstimpillinn er hræðilegur og forðast opinberir styrkjasjóðir hann eins og heitan eldinn. Það er á misskilningi byggt vegna þess að heimildarmynd með þul er bara eitt framsetningarform af mörgum sem ekki á að hika við að nota henti það efninu best. Aðalatriðið er sagan. Hvernig verður sögunni best komið á framfæri? Það er spurningin. Svona „do's and dont's“ grassera líka í kvikmyndahandritsheiminum og gera það að verkum að höfundar þröngva sögum sínum kannski í gúmmískó þegar þær eiga miklu heldur að vera í krókódílaskinnsstígvélum. 

Svo er þetta vitaskuld alltaf glíma við kostnað. Ég gældi við þá hugmynd að sviðssetja atriði í myndinni, og reyndar gerði það, með Dodge 1940, þar sem hann ók um götur miðbæjarins. En hugmyndin var að sviðssetja kannski leikin atriði. En frá því var horfið af tvennum ástæðum: Of dýrt og óviðeigandi. Einhverjir hefðu hrokkið við að sjá leikara bregða sér í hlutverk Alfreðs Elíassonar í myndinni. Ef farið er út í að sviðssetja, er alveg eins gott að gera bara leikna kvikmynd og þá erum við að tala um kostnaðartölur upp á milljónir dala.

Efni Loftleiðasögu er svo magnað að því má gera skil í hvaða formi sem er, en heimildarmyndaformið er það sem kemst næst efninu. Af þeim sökum valdi ég það. Hver veit nema ég skrifi handrit að leikinni kvikmynd sem byggð er á þessari sögu. Aldrei að vita. Sem stendur er ég svolítið spenntur að segja sögu Flugleiða, ekki endilega með því að segja sögu þess félags, heldur einhvers annars sem stóð utan við það en samt nærri, Guðna í Sunnu, til dæmis. Sögu Flugleiða mætti líka segja í sögu Eimskips. Saga Björgólfs Guðmundssonar og Hafskips er líka spennandi verkefni, vegna þess að saga hans varpar ljósi á stærri mynd, þjóðfélagið og ráðandi öfl í því. Af þessum sögum getur samfélagið í dag dregið lærdóm. Sagnfræðin er frábært tæki til þess. Þeir sem hafa velt upp þeirri spurningu hvort saga Alfreðs og Loftleiða sé viðeigandi í dag eru að því leyti á villigötum. Sagan er frábært tæki til að varpa ljósi á samfélag okkar, litla lýðveldið okkar, stjórnkerfið okkar og hvað má betur fara. Nú hafa margir rokið til og ætla að gera mynd um hrunið mikla. Spennandi verður að sjá hvað kemur út úr því.

Varðandi Loftleiðasögu er ég ákaflega sáttur við að hafa valið sögunni þennan búning vegna þess að það gekk upp. Saga Alfreðs og Loftleiða nær út fyrir hópinn sem hefur áhuga á flugi eða tengist Loftleiðum á einhvern hátt. Áhugafólk um góðar sögur, en það eru trúlega flestir menn, njóta hennar. Ekki er hægt að biðja um meira.

Alfreð Elíasson í Frjálsri verslun 1969

Þessi síða er úr Frjálsri verslun frá 1969.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 114023

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband