Leita í fréttum mbl.is

Enn meira um Loftleiðamynd

Sigurður Már Jónsson skrifaði grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku sem var ekki á sömu nótum og ég er nú farinn að venjast. Hann var frekar neikvæður. Greinin er í viðhengi við þessa færslu. Ég svaraði Sigurði og er það bréf hér að neðan. Fór fram á það við Viðskiptablaðið að það birti bréfið.

Sæll Siggi,

grein þín um heimildarmyndina um Alfreð Elíasson og Loftleiðir er ekki til fyrirmyndar. Engu að síður er ég ánægður með greinina vegna þess að ég var farinn að halda að enginn myndi koma með aðrar athugasemdir en lof. Þú virðist vera eini maðurinn sem finnur eitthvað að myndinni fyrir utan að sumir hafa sagt hana vera of langa. En athugasemdir þínar eru á veikum eða jafnvel röngum grunni reistar. Við það verð ég að gera athugasemdir.

Í fyrsta lagi þá sætir það furðu að þú skyldir ekki hafa samband við mig varðandi myndefni í greinina. Það er ekki langt fyrir þig að sækja, ég er bróðir vinar þíns Jónasar og spilaði með þér fótbolta um skeið, við þekkjumst! Ég hefði getað útvegað þér myndir af flugvélakosti Loftleiða í Loftleiðabúningnum. Það hefði sparað þér leit á google. Auk þess er ég með ýmis gögn sem þú hefði getað fengið þér til stuðnings við greinaskrifin. Hvers vegna fara þessa krókaleið? Ég bít ekki. Þessi vinnubrögð gefa mér tilefni til að álykta að annarlegar hvatir búi að baki skrifum þínum þó ég ætli alls ekki að draga þá ályktun. Vel má vera að þetta séu þau vinnubrögð sem þú hefur tamið þér. Þótt ég myndi ekki vinna svona, er ekki að marka, ég er ekki atvinnumaður í blaðamennsku.

Ég fagna því að þú skulir óska eftir öðrum sjónarmiðum en þeim sem haldið er fram í myndinni. Þó fyrr hefði verið. Hvar eru Flugfélagsmennirnir? Þú getur etv. skrifað grein um Flugfélagið og rekstur þess. Farðu bara á vef Morgunblaðsins og leitaðu. Þar er saga FÍ geymd, afkomutölur, ræður á aðalfundum og svo framvegis. Sjálfur hefðir þú hæglega getað talað við einhvern í „hinu liðinu“ eins og þú kallar það.

Hver einasta fullyrðing mín í myndinni um Flugfélag Íslands er studd opinberum gögnum. Það var ekki hægt að segja neitt annað. Það hefði verið sögufölsun, óheiðarlegt. Ég er með nokkrar síður úr Morgunblaðinu sem titlaðar eru eftir ári og eftir tapi. Tap, tap, tap.

Sú mynd sem dregin er upp af Sigurði Helgasyni er sanngjörn. Farið er mjög mjúkum höndum um hann. Ekki gleyma að það var hann sjálfur sem felldi hvað harðastan dóm um sjálfan sig (hvurslags starfsmaður er það sem fer til viðskiptabankans og hvetur hann til að lána fyrirtækinu EKKI?). Í Loftleiðamyndinni sem Sigurður Helgason lét gera á eigin kostnað og Flugleiða segir Sigurður blákalt að Loftleiðamenn hafi verið þvingaðir út í að biðja um ríkisábyrgð á rekstrarlánum og þar af leiðandi sameinast FÍ. Það stangast algjörlega á við það sem hann segir í eigin ævisögu. Það þarf enga „innri ritskoðun“ til að benda á þetta atriði; þetta er einfaldlega niðurstaðan sem ég komst að. Ef það ætti að draga upp heildarmynd af Sigurði Helgasyni væri það engin helgimynd. Um það hef ég ýmis gögn. En Sigurður var ekki afgerandi í Loftleiðasögu fram að sameiningu og því ástæðulaust að fjalla meira um hann en tilefni gaf til. Hann var ekki mikilvægari en svo að það var búið að ákveða að kaupa hann út, en örlögin höguðu því þannig að það gerðist ekki. Munaði aðeins hársbreidd. 

Ég ákvað að gera þessa mynd og segja söguna eins og hún var, ekki áróður fyrir einu sjónarmiði. Fram koma upplýsingar um hve alvarlega Alfreð var veikur í fyrsta sinn. Þetta kemur ekki svona skýrt fram í bók Jakobs. Sumum á væng Loftleiða fannst þetta frekar hart. Þetta er samt sannleikurinn.

Sameining flugfélaganna var fullkomlega ónauðsynleg að mínum dómi. Sagt var að það væri ekki pláss fyrir fleiri en eitt flugfélag í þessu litla landi, en ekki má gleyma því að Loftleiðir störfuðu á alþjóðavettvangi. Hve mörg flugfélög voru hér, skipti ekki máli. Þetta var samt röksemdin og hún hélt ekki einu sinni vegna þess að annað flugfélag var hér á þeim tíma líka, Air Viking sem Guðni í Sunnu rak. Það hefði alveg eins mátt leggja Flugfélag Íslands niður. Það hefði engu breytt fyrir Loftleiðir. Þotur Flugfélagsins voru með svo lítið flugþol að þær komust bara til Evrópu. Þotur Loftleiða voru svo miklu stærri að þær gátu borið FÍ þotuna og alla farþegana tvisvar sinnum. Ef það er eins og Flugfélagið hafi verið niðurlægt í myndinni, er það aðeins örlítið brot af heildarniðurlægingunni. Það var mesta áfallið við gerð myndarinnar að komast að því hver hrikalega aumt þetta vesalings félag var og hlutur þess í sameiningunni allt að því fáránlegur í því ljósi. Þjófnaður er réttnefni.

En sameiningin er ekki aðal málið. Það var trúlega fínt að sameina þessi félög. Mesti skandallinn er matið á eignarhlutunum. Ef sameiningin hefði verið á sanngirnisgrunni, hefði Sigurður Helgason ekki haft burði til að hrifsa til sín völdin í samstarfi við stjórnendur FÍ. Þá hefði verið hægt að ráða til sæmis Einar Ólafsson eða Jóhannes Einarsson til að taka við af Alfreð, en Einar Ólafsson gerði Cargolux að stórveldi á örfáum árum.

Þú segir í greininni að Eyjólfur Hauksson og Arngrímur Jóhannsson hafi komið að rekstri Loftleiða. Það er rangt. Þeir voru bara flugmenn, enda ungir stákar á þeim tíma. Eyjólfur flaug ekki einu sinni fyrir Loftleiðir, hann var hjá Cargolux.

Myndin var EKKI gerð í náinni samvinnu við fjölskyldu Alfreðs, hún var gerð algjörlega sjálfstætt en með samþykki fjölskyldu hans (ólíkt mynd Sigurðar Helgasonar).  Ég þekkti engan í fjölskyldunni fyrir utan Millu, fyrr en myndin var komin á lokastig. Þótt ég hafi tekið það sérstaklega fram í inngangserindinu á frumsýningunni að þau hafi ekki haft nein áhrif á efnistökin í myndinni, heldur þú öðru fram.

Þú segir að Alfreð Elíasson sé SAGÐUR hafa verið hvatamaður að flugi til Lúxemborgar í myndinni. Hann er ekki SAGÐUR hafa verið hvatamaður, það er sýnt með óyggjandi hætti með tilvitnun í skýrslu sem Alfreð samdi til stjórnar félagsins eftir að hafa kannað aðstæður í Lúx. Hann sem sagt VAR hvatamaður að flugi til Lúxemborgar. Á þessu er nokkur munur og sýnir á hvaða forsendum þú skrifar grein þína. Allir sem vilja geta lesið þá skýrslu.

Sigurður Helgason taldi Lúxemborgarflug heimsku, eins og hans eigin bréf til stjórnarinnar ber með sér, þótt hann hafi haldið því fram seinna að hann hafi barist fyrir Lúxemborgarfluginu í stjórn Loftleiða (en það var áður en bréf hans kom í leitirnar). Með því að vera á móti Lúxemborgarfluginu sýndi Sigurður að hann skildi ekki lágfargjaldahugmyndir Alfreðs. Í bréfinu þar sem hann segir Lúxemborgarflugið óraunsætt gerir hann einnig lítið úr hótunum Svía um að banna Loftleiðum að fljúga til Gautaborgar. Sú hótun var ekki bara nöldur, ríkisstjórn Svía stóð að baki henni. Þú getur ímyndað þér ef stjórn Loftleiða hefði farið að ráðum Sigurðar og ákveðið að fljúga til Parísar og London, eins og hann leggur til í bréfinu. Þá hefðu þeir ekki getað boðið ódýrar flugferðir og ekki skapað sér sérstöðu á markaðnum. Allir sem vilja geta lesið bréf Sigurðar.

Það voru ekki hinir snjöllu Loftleiðamenn sem spiluðu eignarhlutinn í Cargolux úr höndum sér, það var enginn annar en Sigurður Helgason og félagar hans sem réðu Flugleiðum þá, en það var löngu eftir að Loftleiðir var búið að vera, um 1980. Flugleiðir voru í raun komnar í þrot um þetta leyti og þurfti ríkið að bjarga þeim, eins og það hafði gert fyrir Flugfélagið í gegn um tíðina. Ástæðulaust var að fjalla meira um Cargolux í myndinni þar sem myndin var um Loftleiðir og Alfreð Elíasson. Sigurður Helgason kom hvergi nærri stofnun Cargolux. Hann meira að segja fór í samkeppni við Cargolux með því að lána áhafnir frá Air Bahama á flugvélar Seaboard sem um tíma reyndi árangurslaust að keppa við Cargolux í fraktflugi til Lúx. Það er enn eitt dæmið um  að Sigurður vann gegn Loftleiðum. Síðar sagðist Sigurður, í viðtali í Morgunblaðinu, hafa stofnað Cargolux í félagi við annan mann, en svo kom í ljós að þessi maður kom fyrst til Lúxemborgar mörgum árum eftir stofnun Cargolux. Um þetta skrifaði Jóhannes Einarsson grein og hrakti ósannindi Sigurðar. Vonandi ertu nú farinn að sjá heildstæðari mynd af nafna þínum. Ég legg áherslu á að allt sem ég segi hér er hægt að styðja með óyggjandi gögnum.

Mér er það sönn ánægja að segja þér frá því að það er búið að gera amk. tvær myndir um Geysisslysið, Biðin langa og Staðarákvörðun óþekkt. Svo er líka búið að skrifa um það Útkalls bók. Um björgun vélarinnar af Vatnajökli var gerð mynd sem fór um allan heim. Myndskeiðin frá björguninni eru úr henni.

Jakob er ekki sammála þér um að hann hafi verið áberandi í viðmælendahópi myndarinnar, hann grínaðist um það við mig að hann hefði verið klipptur út fyrir utan byrjunina og endinn.

Ég vona að Viðskiptablaðið sjái sér fært um að birta þetta bréf.

Kær kveðja,
Sigurgeir Orri


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 114023

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband