Leita í fréttum mbl.is

Þú ert arinn

Þó ekki brandarinn, heldur arinn eins og er í mörgum húsum og brennir eldiviði. Arinn sem kveikir í eldsneytinu og lætur orkuna hlýja þér og halda þér gangandi.

Líkingin við arininn kom upp í huga mér þegar ég var að velta fyrir mér mataræði og aukakílóum. Þeir sem setið hafa við arin vita að ef maður setur pappír, til dæmis jólapappír, í arininn fuðrar hann upp með miklum hitablossa. En ef maður setur viðardrumb í arininn brennur hann hægt og rólega á jöfnum hita. Eldiviðurinn brennur sem sagt mishratt. Sama má segja um mat. Eldiviðurinn okkar, maturinn sem við borðum, brennur ýmist eins og jólapappír eða viðardrumbur.

Það sem vömbin á okkur – arininn okkar – hefur umfram hefðbundin arin í húsum er sérstakt kerfi sem tekur hitablossa sem verða til þegar jólapappír er brenndur og breytir þeim í fituforða til að grípa til ef það skyldi nú verða lítið um eldsneyti.

En hvaða matur er jólapappír og hvaða matur er viðardrumbur?

Þarna erum við komin að kjarna málsins og mesta misskilningi heimsins hvað mataræði snertir. Unnin matvæli eins og hvítur sykur og hvítt hveiti eru jólapappír og kartöflur og hrísgrjón eru það líka. Hveiti og sykur er uppistaðan í brauði, þannig að brauð er að stærstum hluta jólapappír í maganum á þér. Allur matur sem inniheldur mikið af þessum efnum er jólapappír. Kolvetni öðru nafni.

Matur sem er viðardrumbur er fita, kjöt og fiskur; próteinríkur matur. Borði maður lítið af jólapappír og mikið af viðardrumbum hleðst ekki utan á mann aukaforði í formi spiks. Þeir sem halda að með því að borða feitan mat, til dæmis avókadó og hnetur, verði þeir feitir eru fórnarlömb útbreiddasta misskilnings heimsins (sönnun þess að margir geta haft rangt fyrir sér). Fituklessurnar á lambahryggnum á diskinum þínum safnast ekki fyrir í skvapinu utan á þér þegar þú borðar þær. Það gera hins vegar kartöflurnar. Af hverju? Af þeirri einföldu ástæðu að fita er viðardrumbur en kartöflur jólapappír. Þær brenna hraðar og gefa líkamanum kost á heppilegri orku til að breyta í varaforða. Geymsluefni líkamans á orku er fita og auðveldasta efnið fyrir hann að breyta í fitu er kolvetni.

Misskilningur í pakka

Weetabix-pakki heima hjá mér. Þetta er gott og blessað fyrir utan andófið gegn fitunni. Áherslan er á kolvetnin, efnið sem fitan utan á þér er gerð úr. Aldeilis hollur matur það!

Þeir sem látið hafa af áti á jólapappír vita að þá verður líkaminn eins og olíuskip sem siglir sinn sjó án teljandi veltings. Jólapappírsætur eru hins vegar eins og farþegar á lítilli skútu í miðju Atlantshafinu sem fara upp og niður hverja einustu öldu; verða ofurhressir og ofurslappir yfir daginn.

Misskilningurinn sem áður er getið er einhver mesti harmleikur hins vestræna heims. Einhverjir snillingar drógu þá ályktun um 1960 að fitan á diskinum væri fitan utan á þeim. Þeir básúnuðu uppgötvun sína á sannfærandi hátt og almenningsálitið varð það að fita væri vond og hana ætti að forðast í lengstu lög. Eða viltu verða feitur? Það er til marks um hve misskilningurinn er langlífur að enn í dag eru framleidd fituskert matvæli. Einu sinni var bara til mjólk, nú er til mjólk með mörgum mismunandi fituprósentum og sumir drekka bara undanrennu. Þeir um það. Engum hefur dottið í hug að framleiða mjólk án kolvetna þótt feit mjólk án kolvetnanna sé etv. hollasti drykkurinn af þeirri tegund (ég er þó ekki að mæla með mjólkurþambi, bara taka hana sem dæmi).

Afleiðingin af misskilningnum er sú að fólk fitnar sem aldrei fyrr. Þeir sem forðast fituna, fitna samt! Hvað er eiginlega í gangi?

Hver hefur ekki heyrt talað um hamborgararassa? Bandaríkjamenn dæla víst svo miklu hormóni í nautgripi sína að rassinn á fólki stækkar. Etv. kjarnast misskilningurinn í þessari fullyrðingu. Ef hormóni væri dælt í svo miklu magni í kjötið ætti fólk þá ekki að verða vöðvastæltara? Eru það ekki annars vaxtarhormón sem dælt er í kjötið? Ef maður skoðar dæmigerða hamborgaramáltíð kemur í ljós að hún er að stærstum hluta jólapappír; auðbrennanlegur matur í formi brauðs, sósu og kartaflna auk sykraðra gosdrykkja. Sjálfur hamborgarinn er oft og tíðum bara smá próteinbiti innan um gumsið. Það blasir við hver sökudólgurinn er: Það er vitaskuld auðbrennanlegi maturinn. Það er hann sem hleðst utan á okkur í formi aukakílóa.

Finndu hamborgarann

Hvort eru meiri líkur að þú fitnir af nautahakkinu í þessari hrúgu eða kartöflunum og brauðinu?

Ég bíð spenntur eftir að heimurinn geri sér grein fyrir þessu. Það er tímabært vegna þess að kostnaður vegna offitu er gríðarlegur og vaxandi. Etv. eiga stjórnmálamenn hins vestræna heims einhverja sök, því þeir hafa kosið að greiða niður kolvetnaríkan mat svo sem korn sem þýðir ódýrari kolvetnaríkur matur á borðum okkar (Kornflexið sem þú borðaðir í morgun er í boði bandarískra skattgreiðenda). Niðurgreidd matvælaframleiðsla á Íslandi, mjólkurafurðir sem eru í eðli sínu kolvetnasnauðar, eru stórskemmdar hjá einokunarfyrirtækinu Mjólkursamsölunni með viðbættum sykri í miklu magni.

Óhætt er að fullyrða að margir eru haldnir fíkn í auðbrennanleg kolvetni. Mjólkursamsalan er að svara þeirri fíkn með því að bæta sykri vörur sínar. Skyndibitastaðir eru á þeim fíknimarkaði (staðir þar sem máltíðin er 80% og yfir kolvetni). Það mætti kalla þá skyndibrennslustaði, því maturinn sem þeir selja er jólapappír, fuðrar upp með tilheyrandi sveiflum og varaforða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Beturvitringur

Asskolli er þetta "skemmtileg" færsla hjá þér. Það sem meira er, þetta er sennilega allt rétt hjá þér. Auðvitað þarf smá jólapappír, en þá í öfugu hlutfalli við það sem víðast gerist nú. (og Búdda blessi þig fyrir gott málfar og réttritun)

Beturvitringur, 21.9.2008 kl. 11:53

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Jólapappír er nauðsynlegur, það er satt. Ég borða talsvert af jólapappír (bjór, brauð og kartöflur), en sumir borða allt of mikið af honum. Jólapappír ætti að vera þunn skán utan um próteinpakkann, ekkert meira. Takk fyrir hlý orð í minn garð.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 21.9.2008 kl. 21:57

3 Smámynd: Beturvitringur

Gleðileg jól!

Beturvitringur, 22.9.2008 kl. 00:52

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

ég borða fullmikinn jólapappír!

Hólmdís Hjartardóttir, 22.9.2008 kl. 10:44

5 identicon

Já þetta er allt saman rétt hjá þér Orri og það er mér alveg óskiljanlegt af hverju fólk í matvæla- og mjólkuriðnaði þarf að hella sykri í allt sem þeir framleiða. En fitan getur líka verið skaðleg, hert fita sérstaklega. Fitan af lambakjötinu t.d.  sest inná æðaveggina og safnast þar og dregur til sín aðrar fituskellur. Úr verður kransæðastífla með tilheyrandi vandamálum. Þetta gerist náttúrulega ekki á einni nóttu heldur á áratugum.  Og auðvitað fyrr þegar fitan safnast upp í líkamanum af óhóflegri kolvetnaneyslu. Það er alltaf verið að reyna að finna upp hjólið aftur og aftur hvað varðar mat og heilsu. Gamli góði pýramídinn stendur alltaf fyrir sínu: http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/pages/naering_0058. Fitusýrur (fjölómettaðar) eru líka þarfar, við þurfum að smyrja liðina og fá fitu í húðina til að halda henni ungri og teygjanlegri. Allt er best í hófi!

Ólína (Hjartahjúkkan) (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 13:04

6 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þó ég sé bara áhuganæringafræðingur er ég næstum viss um að át á feitmeti sé ekki eins skaðlegt og af er látið. Fitan sem líkaminn býr sjálfur til úr öðru en fitu, er trúlega miklu skaðlegri en fita sem önnur dýr hafa búið til. En eins og Ólína segir er kransæðastífla og aðrir æðasjúkdómar afleiðing áratuga vanrækslu. Örstutt en regluleg hreyfing myndi koma í veg fyrir slíkt.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 23.9.2008 kl. 08:41

7 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Það eru samt ekki öll kolvetni jólapappír. Arininn er heillengi að brenna Heilhveiti, rúgi, og höfrum, t.d.

Sindri Guðjónsson, 24.9.2008 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 114003

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband