Leita í fréttum mbl.is

Hitti Unu!

Á þessu horni hitti Sigurgeir Orri Unu SighvatsdótturUm það bil sem Sigurgeir Orri (40) kvaddi Svavar vin sinn í gær eftir kvöldverð á Sússístaðnum hans Stjána og spjall á Kaffi París, rakst hann á Unu Sighvatsdóttur (22), Önund mann hennar (22) og vinkonu þeirra (14). „Það var sérstaklega gaman að rekast á Unu vegna þess að ég hef verið aðdáandi hennar allt frá því ég rambaði inn á bloggsíðu hennar fyrir mörgum árum. Mig hefur allaf langað að hitta hana í raunveruleikanum,“ sagði Sigurgeir Orri í samtali við blaðið. „Þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem ég tala við manneskju sem ég hef kynnst í gegnum bloggsíðu. Það var mjög ánægjulegt.“ Hvers vegna ertu aðdáandi Unu? „Þótt Una sé ef til vill ekki virkasti bloggari í heimi, er alltaf gaman að lesa það sem hún skrifar. Hún hefur ákaflega góð tök á íslensku máli, er einlæg og fyndin. Skoðanir hennar fara að mörgu leyti saman við mínar og sú sýn sem hún hefur á lífið og tilveruna er heillandi.“ Það er aldeilis hrós, heldurðu að Una fyllist ekki af monti og verði leiðinleg við sína nánustu og jafnvel fleiri? „Nei, því trúi ég ekki,“ Segir Sigurgeir Orri og hlær. „Hún veit örugglega af því sjálf hvað hún er frábær og hefur lært að lifa með því.“

Una sem þarf að muna að hún heitir UnaÞað var þá skemmtileg tilviljun að þú skyldir rekast á hana?„Já það má segja það. Að vísu er það hætt að koma mér á óvart hversu oft ég hitti eða sé fólk sem ég hef hugsað til.“ Þú verður nú að útskýra þetta nánar. „Það er sjálfsagt. Vitaskuld er Ísland lítið land og maður er sífellt að rekast á kunningja og samferðafólk í gegnum tíðina. En mér finnst ég hafa orðið var við nokkurs konar mynstur eða reglu sem erfitt er að finna röklegan stað. Þetta mynstur birtist svona: Ef ég hugsa ég með mér: Hvað skyldi þessi manneskja vera að gera núna? Til dæmis gamall skólabróðir eða -systir. Nánast undantekningalaust rekst ég á viðkomandi eða sé tilsýndar á götu skömmu síðar.“ Ertu með þessu að segja að ef þú óskar þér einhvers að það muni rætast? „Hugsanlega. Ég hef að vísu aldrei unnið í happdrætti þótt ég hafi nokkrum sinnum keypt miða og væntanlega óskað mér um leið að ég ynni. Kannski eru happdrætti undantekning frá reglunni.

Mig dreymdi lottótölurnar en gleymdi þeim!Ég verð nú að segja þér sögu fyrst við erum farin að tala um happdrætti og slíkt. Einu sinni fyrir langa löngu var ég sofandi og dreymdi lottótölurnar sem áttu að koma í næsta drætti. Þær voru þarna beint fyrir framan mig eins og stafir á bók. Það leið nokkur stund áður en „ég“ þ.e. meðvitundin rankaði við sér og gerði sér grein fyrir því að ég gæti unnið fúlgu fjár með þessa vitneskju. Þá var eins og við manninn mælt, tölurnar hurfu úr minni mínu allar nema ein, sem var 18. Ég keypti ekki einu sinni miða í lottóinu, en horfði á útdráttinn í sjónvarpinu og sagði við það tækifæri við kærustu mína sem þá var, að það væri pottþétt að 18 kæmi. Svo komu tölurnar ein af annarri og ég var farinn að halda að mig hafi dreymt tölurnar sem áttu að koma í þarnæsta drætti. En svo kom síðasta talan og hún var 18!“ Þetta gæti að vísu hafa verið tilviljun, ekki satt? „Vissulega, en skrýtin tilviljun samt.“

Það er eitthvað bogið við þessaÉg hef haft þessa pælingu lengi í kollinum. Ég man ekki hvenær það var, en það hlýtur að hafa verið snemma á tíunda áratugnum sem ég fór að taka eftir þessu mynstri. Þá hafði ég hugsað til skólasystur minnar sem vinur minn bjó með á tímabili. Hún átti dóttur sem var kornabarn þegar þau voru saman og ég hafði ekki séð barnið í nokkur ár. Ég hugsaði með mér: Hvernig ætli barnið hennar Lindu líti út í dag? Skömmu síðar sá ég mæðgurnar í Kringlunni. Þá hugsaði ég með mér: Þetta getur ekki verið tilviljun.“

Af hverju ertu þá ekki milljarðamæringur fyrst þú getur óskað þér einhvers og fengið óskina uppfyllta? „Þetta er ákaflega góð spurning og er til marks um hversu góð blaðakona þú ert. Ég hygg að maður verði að flokka óskirnar. Þær óskir sem ég er að tala um eru í raun ómeðvitaðar óskir. Ósk um að sjá eða hitta einhvern birtast fyrirvaralaust í kollinum á mér, koma úr dulvitundinni. En ef ég hins vegar óska þess að vinna í happdrætti blindravinafélagsins, er næsta öruggt að ég vinn ekki því sú ósk er meðvituð.“ Ertu þá að segja að það verði að flokka óskir í meðvitaðar og ómeðvitaðar? „Já, það má segja það. Svo er örugglega hægt að flokka óskirnar í fleiri flokka.“ En ef þú til dæmis óskar þér þess að hitta einhvern sem er dáinn, er þá hætta á að þú deyir næstu daga? „Já, það eru miklar líkur til þess, þess vegna hef ég aldrei óskað mér þess að hitta neinn sem horfinn er yfir móðuna miklu.“ En ef þú óskar þér að hitta einhvern sem er dáinn en þú veist ekki af því? „Þá er ég í skítamálum.“ Heldurðu að þetta lögmál sé líka í gangi í Peking þar sem nokkrir milljarðar búa? „Engin spurning. Líkurnar eru jafnmiklar í slíku mannhafi.“ Nú ertu alveg búinn að missa það! „Nei, aldeilis ekki. Ég tel að fólk og líka dýr eigi samskipti milli sín sem eru ómeðvituð og berast um eins og útvarpsbylgjur.

Kanína úti á túni Það var eitt sinn gerð tilraun á kanínu sem átti unga. Kanínan var sett í hnausþykkan blýhólk sem engar bylgjur komust í gegnum og honum lokað. Á haus kanínunnar voru skynjarar sem tengdir voru við mæli. Svo voru ungar hennar drepnir hver af öðrum og í hvert sinn kom kippur á mælinn. Ég hef sjálfur persónulega reynslu af svona sambandi vegna þess að vinkonu mína dreymdi númer á hótelherbergi sem ég hafði farið inn á um nóttina, en ég var næturvörður á hóteli þegar þetta var og þurfti að hafa afskipti af draugfullum manni sem gisti í herbergi 401. Hún hafði aldrei gist á hótelinu og vissi ekkert um númerin. Hún sagði mér frá þessum draumi daginn eftir, að hún hefði búið á herbergi 401 og teiknaði á servéttu hvar það var í húsinu og það var á sama stað og í raunveruleikanum. Þetta sýnir svart á hvítu, meira að segja stærðfræðilega, að skilaboð berast milli manna um fleira en hin hefðbundnu skynfæri.“ Þetta er nokkuð áhugavert sem þú ert að segja. Viðtalið okkar hefur farið um víðan völl. Það sem átti að vera stutt frétt um að þú hafir hitt bloggarann Unu Sighvatsdóttur hefur snúist upp í háfleygar pælingar um sérkennilegt mynstur og samskipti dulvitunda. „Já, það má segja það að þetta viðtal hafi breyst úr Slef og skeint viðtali í Mannslefs viðtal. Ef ég hefði minnst á miðborgarvandann og krafist aukinna ríkisútgjalda og styttri opnunartíma og færri skemmtistaða, hefði þetta verið fyrirtaks Moggaviðtal.“ Það er nú óþarft að byrja á því að níða Morgunblaðið, þetta viðtal hefur farið nógu mikið út fyrir efnið. Viltu segja eitthvað að lokum? „Já, ég vona bara að þetta hljómi ekki eins og hvert annnað bull.“ Að svo komnu máli lýkur þessu viðtali og blaðamaður setur á sig trefil, húfu og vettlinga og hneppir að sér kápunni og arkar út í norðangarrann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 114012

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband