Leita í fréttum mbl.is

Vöggugjöfin II – Öl?

Fékkst þú þá einstöku náðargáfu í vöggugjöf að vita hvað öðrum, betur en þeim sálfum, er fyrir bestu? Ef þú telur að svo sé — þótt það sé jafnvel aðeins óljós, kitlandi tilfinning — taktu þá snillingsprófið. Líkurnar á að þú sért snillingur og vitringur eru talsverðar vegna þess að hlutfall slíkra virtúósa á Íslandi er með því hæsta í heiminum. Hlutfallið er svo hátt að vísindamenn standa á gati.

Á ráðstefnu sem haldin var nýlega var reynt að finna svör við þeirri ráðgátu sem þetta háa hlutfall er. Margar tillögur komu fram hver annarri kjánalegri. Sálfræðingsræfill frá Sidney taldi hlutfall „snillinga“ (hann gerði gæsalappir með fingrunum) ráðast af því hve langt þjóðir væru komnar í að horfast í augu við sjálfar sig, það er að segja, að hlutfall „spámanna“ væri því hærra sem tvískinnungur, hræsni og yfirdrepsskapur væri útbreiddari. Hann var púaður niður af íslensku fulltrúunum sem voru fjölmennastir á ráðstefnunni (nema hvað).

Önnur tillaga álíka vitlaus kom fram í ræðu monthana frá Montana undir yfirskriftinni „Vesæll er valdalaus vitringur“Hélt hann því fram að mikill meirihluti manna myndi láta visku og speki og tilskipanir og reglur vitringa sem vind um eyru þjóta ef þeir hefðu ekki völd til þess að þvinga þeim upp á þá — og samt vera hamingjusamari, heilsuhraustari og farsælli.

Alvitlausasta kenningin verður þó að teljast vera sú sem danski fulltrúinn Níels Langström setti fram. Í löngu og þvoglumæltu máli hans kom fram að rannsóknir sem hann gerði sýndu að það væri útbreiddur misskilningur á Íslandi, miklu útbreiddari en í heimalandi hans til að mynda, að boð og bönn láti vandamál hverfa. Hann gerði gys að Íslendingum og kallaði þá bláeyga að halda að blá bönn kæmu í veg fyrir alla mannlega lesti og bresti og hvaðeina sem hinir vitru og framsýnu teldu ekki við hæfi. „Hættir hóra að vera hóra við það að plebbi á löggjafarþingi banni vændi eða vændiskaup?“ spurði hann. „Nei, hún leitar skjóls frá hrammi ríkisins hjá þeim sem síst skyldi, dólgnum,“ svaraði hann sjálfum sér. Hann var hrópaður niður af íslensku fulltrúunum sem fóru fram á það við skipuleggjendur ráðstefnunnar að Níelsi væri bannað að fara á þjóðdansasýningu sem skipulögð var fyrir ráðstefnugesti um kvöldið.

Ekki þarf að koma á óvart að lausnin á ráðgátunni kom frá snillingi snillinganna, yfirvitringi hópsins, Guttormi Melsteð frá Enni undir Ennisennisenni. Hann benti ráðstefnugestum og heimsbyggðinni allri kurteislega á það í eitt skipti fyrir öll að náðargáfan væri einfaldlega vöggugjöf mótuð og slípuð af mörgum kynslóðum íslenskra spekinga með ofurmannlegt innsæi. Var þá mikið klappað.

Allt um það. Ekki er eftir neinu að bíða en vinda sér í næstu spurningu.

Snillingsprófið – önnur spurning

Vildir þú á árabilinu 1947 til 1967 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

NeiEf svarið er „nei“ hefurðu stigið enn eitt skrefið í rétta átt. Þú ert í virkilega góðum félagsskap margra framsýnna manna vegna þess að Pétur Sigurðsson alþingismaður lagði fram frumvarp 1960 og aftur 1966 um að leyfa bjór. Pétur sagði meðal annars í framsögu að það væri „meira en lítið misræmi að leyfa sölu á eldsterku brennivíni, en banna sölu á veiku öli á þeirri forsendu, að verið sé að vinna gegn áfengisbölinu,“ en meginrökin væru „að slíkt bann sem nú er á áfengu öli sé móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna.“

AlthingismennBanner1967Sigurvin Einarsson alþingismaður furðaði sig á þrákelkni Péturs og sagði í ræðu: „Hvar sem öl er bruggað og selt, verður það almenningsvarningur, almenningsneyzla, almenningslöstur. Ölið verður daglegur drykkur meira og minna á vinnustöðum, sem stelur peningum frá mönnum og dregur úr afköstum. Menn þurfa ekki annað en bera saman afköst íslenzkra verkamanna og öll tilþrif á vinnustað við störf starfsbræðra þeirra í nágrannalöndunum, þar sem a.m.k. einn í hverjum hópi hefur nóg að gera að ná í ölföng. Hætt er við, að hér yrði útkoman ekki ósvipuð með ölið og með sígaretturnar, það yrði nautnavarningur, furðu sakleysislegur, en menn mundu kaupa ölið, þegar þeir færu að venjast því, og smám saman gætu þeir ekki án þess verið. Og spariskildingarnir færu til ölkaupa í staðinn fyrir húsbyggingar eða að prýða heimili sín eða í staðinn fyrir góðan mat. Verkamenn nágrannalandanna eiga ekki fé til að byggja fyrir íbúðir eða prýða heimili sin á sama hátt og íslenzkir verkamenn.“ Hér talar sá sem vitið og framsýnina hefur. Íslenskir vinnustaðir nú um stundir eru vissulega nánast óstarfhæfir vegna bjórþambs starfsfólksins daginn út og inn. Ekki satt?

BjorfrumvarpFellt1967Skemmst er frá að segja að frumvarp Péturs var fellt. Á móti voru auk Sigurvins Einarssonar: Axel JónssonÁgúst ÞorvaldssonBenedikt GröndalBjörn Fr. BjörnssonEðvarð SigurðssonEinar OlgeirssonEysteinn JónssonGeir GunnarssonGísli GuðmundssonGunnar GíslasonVilhjálmur HjálmarssonHalldór E. SigurðssonHannibal ValdimarssonIngólfur JónssonIngvar GíslasonLúðvík JósepssonMatthías Á. MatthiesenSigurður ÁgústssonSigurður IngimundarssonJón Kjartansson og Sverrir Júlíusson.

JáEf svo ólíklega vill til að svarið er „já“ hefurðu því miður færst einu skrefi fjær því að geta talist vera fórnfús og framsýnn snillingur sem ert fær um að vita hvað öðrum er fyrir bestu. Þú ert í félagsskap manna eins og áðurnefnds Péturs Sigurðssonar sem hvatti andstæðinga bjórsins að vera samkvæma sjálfum sér og stuðla að banni á sterku áfengi fyrst bjórinn væri jafn hættulegur og þeir vildu vera láta. Með því að láta það ógert væru þeir að viðurkenna að slíkt bann væri tilgangslaust í nútímasamfélagi með víðtækri bruggkunnáttu og miklum samgöngum við lönd þar sem allar víntegundir væru á boðstólum. Andstæðingar bjórsins væru með öðrum orðum hræsnarar.

Þeir sem vildu leyfa bjór voru: Sigurður BjarnasonBirgir FinnssonBjarni BenediktssonDavíð ÓlafssonEinar ÁgústssonSigfús J. JohnsenGylfi Þ. GíslasonJóhann HafsteinJón SkaftasonJónas PéturssonJónas G. RafnarÓskar E. LevýMatthías BjarnasonPétur SigurðssonRagnar Arnalds og Björn Pálsson sem sagði það „reynslu annarra þjóða að tilgangslaust væri að setja bönn. Að banna innflutning á áfengum bjór væri hliðstætt því að banna innflutning á reyktóbaki en leyfa innflutning á vindlingum. Tilkoma áfengs öls myndi gera talsvert gagn. T. d. myndi ölið sporna við hinu mikla smygli, sem ætti sér stað á áfengu öli, og væri nú ástandið þannig, að hver sá sem hefði vilja til gæti aflað sér áfengs öls.“

Ekki er öll nótt úti enn þótt þér hafi ef til vill fipast á tveimur spurningum vegna þess að þú getur enn sýnt fram á að þú sért gegnheill snillingur og vitringur með því að svara næstu spurningum rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 113946

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband