Leita í fréttum mbl.is

Vöggugjöfin I – Mjöður?

Íslenska þjóðin er einstök fyrir það hve marga snillinga hún á. Snillinga sem fengu þá náðargáfu í vöggugjöf að vita miklu betur en ég hvað mér sjálfum er fyrir bestu. Og ekki bara mér, heldur öllum! Raunar væri nær að tala um gáfur frekar en gáfu vegna þess að vöggugjöfin samanstendur af nokkrum haganlega innpökkuðum bögglum sem innihalda m.a. ofurmannlegt innsæi, botnlausa djúphygli, óendanlega framsýni, ómældan góðvilja og einstaka fórnfýsi.

SnillingarFyrirsSumir snillinga okkar eru jafnvel svo fórnfúsir og góðviljaðir að þeir hafa kannað til þrautar skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu á fjölskyldur sínar og sjálfa sig til þess eins að geta haft vit fyrir mér þegar kemur að verslunarfyrirkomulagi og öðru fyrirkomulagi á þessari varasömu en þó löglegu neysluvöru. Það er varla hægt að hugsa sér meira göfuglyndi.

Langflestir þessara snillinga, sem eins mætti kalla spámenn, fæddust þó svo miklir snillingar að þeir þuftu enga glæfraför um vafasamar lendur til að vita allt best. Það er gæfa íslensku þjóðarinnar.

Að sama skapi er það ógæfa íslensku þjóðarinnar hve sjaldan er hlustað á spámennina hennar. Oft og tíðum er skollaeyrum skellt við ábendingum þeirra og viðvörunum þegar í raun réttri þeir ættu að vera leiðtogar, bæði veraldlegir og andlegir.

AfengisbanniðAIslandiBjórmálið svokallaða, þegar bjórinn var aftur leyfður á Íslandi eftir 75 ára bann er gott dæmi um hvílíka ógæfu það getur kallað yfir þjóð þegar ekki er hlustað spámennina. Það mál, þótt smátt sé og ómerkilegt og varla gaum gefandi, gefur ákveðnar vísbendingar um það hvort betra er að treysta hverjum og einum sauðsvörtum almúgamanni fyrir sjálfum sér og sinni gæfu eða snillingunum sem vitið og framsýnina hafa.

Til að koma í veg fyrir að annað eins óheillaskref verði tekið eins og það þegar bjórinn var leyfður á Íslandi (til dæmis að taka smásölu áfengis af könnu ríkisins) verður að lyfta þessum miklu vitringum á réttan stall og láta rödd þeirra heyrast — og það sem mikilvægast er: að farið verði að leiðsögn þeirra. Gæfa okkar allra er í húfi, ekki síst æskunnar.

Fyrsta skrefið er að skilja kjarnann frá hisminu; finna snillingana sem vita manna best, eins og áður segir, hvað öðrum er fyrir bestu (jafnvel þótt þeir viti ekkert hvað þeim sjálfum er fyrir bestu, en það er eitt af undrum þessarar náðargáfu sem ekki verður farið nánar út í hér).

Leynist til dæmis slíkur vitringur í þér, lesandi góður?

Einfalt  eða nei próf getur skorið úr um það.

Snillingsprófið – fyrsta spurning

Í greinargerð með frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 1947 sagði meðal annars: „Á styrjaldarárunum brugguðu íslendingar áfengt öl fyrir hið erlenda herlið, sem hér dvaldi. Þótti það góð vara, og féll hinum ölvönu útlendingum vel í geð. En sala á því var ekki leyfð til Íslendinga sjálfra.“

Ertu sammála því að rétt hafi verið að leyfa hinum ölvönu útlendingum að drekka íslenskan bjór á Íslandi á meðan hinum alölóvönu Íslendingum var það ekki?

__ Já.

__Nei.

Ef svarið er „já“ hefurðu stigið fyrsta skrefið að staðfestingu á því að þú ert handhafi vöggjugjafarinnar. Þú ert í góðum félagsskap fjölmargra snillinga. Til dæmis áfengisvarnarnefndar Kvenfélaganna á Siglufirði sem ályktaði í blaðinu Mjölni 12. nóvember 1947:

SiglfirskarKonurFsogn„Áfengisvarnanefnd kvenfélaganna í Siglufirði hefur nú sent Alþingi áskorun þess efnis, að fella bjórfrumvarp það, sem þeir Sigurður BjarnasonSigurður E. Hlíðar og Steingrímur Steinþórson hafa nýlega borið fram á Alþingi. Ennfremur hefur nefndin snúið sér til þingmanns bæjarins, Áka Jakobssonar, og mælst til þess, að hann beiti sér á móti frumvarpi þessu. Er áreiðanlegt, að Sósíalistaflokkurinn og þingmenn hans munu beita sér af alefli gegn þessu svívirðilega frumvarpi, sem án efa mundi leiða yfir þjóðina nýja drykkjuöld, ef það yrði samþykkt.“

Ef svarið er „nei“ eru nokkrar líkur til þess að þú hafir ekki fæðst með silfurskeiðina í munninum sem gjöfin góða er. Þú ert í miður góðum félagsskap Sigurðanna tveggja og Steingríms sem sögðu m.a. í greinargerð með frumvarpinu: „Líklegt má telja, að Íslendingar geti fljótlega, eftir að þeir hafa hafið ölgerð, hafið útflutning á þessari framleiðslu. Yrði það nýr liður í útflutningsverzlun þjóðarinnar og líklegur til þess að skapa henni nokkrar gjaldeyristekjur, ef til vill verulegar, er tímar líða.“ Óhætt er að fullyrða að skammsýni alþingismannanna var einstök.

AlthingismennBanner1947cÞað er yndislegt til þess að hugsa hve mikla umhyggju og ást ráðandi aðilar á Íslandi sýndu þjóð sinni með því að forða henni frá glapstigum öldrykkjunnar. Það var sannarlega klókt bragð; það mætti jafnvel kalla það hluta af andspyrnuhreyfingunni að láta setuliðið eitt um að þamba bjór. Ég sé vodkavana Íslendinginn ljóslifandi fyrir mér í ullarfrakka og með barðahatt á Austurvelli á stríðsárunum að fá sér sopa af pelanum sínum og glotta háðslega til hermannsins sem kýs heldur hinn stórhættulega bjór til að svala áfengisfíkn sinni. Hermaðurinn var sannarlega á hraðari leið til glötunar en Íslendingurinn, ekki satt?

Hafirðu svarað rangt þessari fyrstu prófspurningu, örvæntu eigi. Þú hefur enn tækifæri til að bæta ráð þitt og sýna fram á að þú ert þrátt fyrir allt handhafi vöggugjafarinnar góðu með réttum svörum við næstu spurningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 113946

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband