Leita í fréttum mbl.is

Glöggt er gests augað

Þeir fáu sem trúa tali Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að á Íslandi hafi ójöfnuður og fátækt aukist, skattar hækkað, aldraðir á gaddinum, börn á biðlistum og svo framvegis, ættu að lesa þessa grein. Í henni er farið yfir efnahagsumbyltinguna á Íslandi og spurt hvað megi læra af henni. Í sambandi við tilvitnun í greinina hér fyrir neðan er rétt að geta þess að núverandi formaður Samfylkingarinnar greiddi ekki atkvæði með EES-samningnum 1993. 

„Það var EES-samningurinn 1993 í bland við einstaka frelsisáætlun sem gerbylti efnahagnum. Ríkisfyrirtæki voru seld, bankar einkavæddir, tekjuskattar og vextir lækkaðir. Í lok tíunda áratugarins hafði Ísland lokið yfirfærslunni úr miðstýrðu efnahagskerfi í fyrirmyndar opið og frjálst hagkerfi.“ [Þýðing Sig. Orri]

Hér er talað um að ein af helstu ástæðunum fyrir góðum árangri sé sala ríkisfyrirtækja. Í því sambandi er rétt að rifja upp þessi orð Steingríms J. Sigfússonar frá 1998:

„Það er alveg morgunljóst að aðstæður á Íslandi eru þannig að allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull.“ 

Það er alveg morgunljóst að ef Steingrímur og Ingibjörg hefðu haft eitthvað um efnahagsmál Íslands að gera á tíunda áratugnum, væri ekki fjallað um Ísland með aðdáun í erlendum fjölmiðlum í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Úr því að þú talar um hið glögga auga gestsins ætla ég að segja þér að ég sat á spjalli við svissneska vinkonu mína í gær sem dæsti yfir því hvað vinnu... tjah ...gleði eða -siðferði Íslendinga hefði hnignað á þeim 10-12 árum sem hún hefur verið viðloðandi Ísland. Hún er vissulega fyrst og fremst að tala um þjónustu og henni finnst hún einkennast af meiri leti og minni skilvirkni en hún átti að venjast í byrjun.

Þröngt sjónarhorn hennar? Já, en í greininni sem þú vitnar í er talað við innstu koppa í búri auðhyggjunnar og ekki aðra.

Og, minn kæri Orri, samkeppnin sem við þráum bæði, þú og ég, er ekki búin að kikka inn og gerir ekki fyrr en við verðum orðin miklu fleiri en við erum í dag. Símaþjónusta er ekki góð, bankarnir bjóða viðskiptavinum sínum ekki góð kjör, ALLIR kvarta undan tryggingafélögunum og m.a.s. matvælaverð er áfram hátt.

Það þarf eitthvað meira en viðtal við Árna Magnússon hjá Glitni til að leiðrétta ójöfnuðinn - og sannfæra mig um að jöfnuði sé til að dreifa.

Sjáðu til, ef þú gætir valið um að vera með 250 þús. kr. í laun á mánuði meðan aðrir væru með 150 þús. eða fengið 300 þús. ef aðrir væru með 400 þús. veldirðu augljóslega lægri töluna og það umhverfi. Þess vegna eru fátækt og ójöfnuður afstæð hugtök og það gengur ekki að tala um að kaupmáttur hafi aukist eins og alfa og ómega allra hluta þegar hann hefur aukist hrikalega mismikið.

Meira næst þegar þú gefur mér tilefni til ... hehe.

En við erum áfram sammála um aðskilnað ríkis og kirkju ... 

Berglind Steinsdóttir, 15.4.2007 kl. 20:29

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Það er nú ekki að marka vinkonu þína með fullri virðingu fyrir henni, það sem er að marka eru tölurnar. Hún er kannski bara að segja eitthvað til að vera sammála þér, er svona týpa sem er alltaf sammála viðmælendum sínum. Tölurnar um hagvöxt á Íslandi tala sínu máli, vissulega þarf að gera betur, mér dettur strax í hug bölvaður landbúnaðurinn og fjárausturinn, heimskan og einokunin sem einkennir hann. Áfram Mjólka! Svo er ég líka ósáttur við að ekki sé lagt meira í vegaframkvæmdir í og við höfuðborgina. Þar er greinilega pottur brotinn. Einnig er tollamúravitleysan alveg að gera mig brjálaðan, bíll hækkar t.d. um helming við það eitt að vera fluttur til Ísland. En það breytir ekki þeirri staðreynd, og hún er ekki komin úr koppi auðhyggjunnar (gildishlaðið orð), að velferð hefur aukist á Íslandi alveg gríðarlega undanfarin ár. Tölurnar sýna það svart á hvítu, þótt auðvitað séu margir sem hafa það skítt, þar á meðal ég. Aðskilnaður ríkis og kirkju er nauðsynlegur fyrir þetta þjóðfélag. Kirkjan einkennist miklu meira af því að vera ríkisstofnun en trúarfélag. Hjörtur Magni í Fríkirkjunni hefur hárrétt fyrir sér í gagnrýni sinni á stofnunina. Það er gott að við erum sammála um eitthvað. Við ættum að fara í kröfugöngu með spjöld niður Laugaveginn.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 16.4.2007 kl. 23:28

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nei nei nei nei, Orri minn, svissneski gesturinn getur vel haft glöggt auga og hún var ekkert að taka undir neitt hjá mér þótt hún færi svolítið á flug í tilefni af einhverju sem ég sagði.

Tölurnar þínar um hagvöxt tala bara einhverju meðaltalsmáli og meðaltalsmaðurinn er varla til. Ég minni á hið sígilda að ef maður stendur með annan fótinn í 80° heitu vatni og hinn í 0 er meðaltalið 40° en samt líður manninum í vatnsfötunum ekki vel.

Bil milli launa fólks hefur aukist og þótt ég hafi það alls ekki skítt sjálf blasir við mér að þeir sem hafa innan við 120 þúsund í grunnlaun lifa engu sældarlífi. Ég á mág sem vinnur hjá Samskipum með lág grunnlaun en stjórnarformaðurinn eyðir ævilaunum mágsins í fimmtugsafmælinu sínu (Ólafs).

Enginn launamaður eignast milljarð. Sá sem eignast milljarð fær hann einhvers staðar ... ég vil ekki segja óheiðarlega, ég ætla að segja ... gefins.

Og ég trúi að þú sért sammála mér og byrjir á að skrifa á kröfuspjaldið: Skattleysismörkin í 120 þúsund!

Svo: Bindum veiðiréttinn við byggðirnar.

Berglind Steinsdóttir, 17.4.2007 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 113945

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband