Leita í fréttum mbl.is

Bönnum ALLAR áfengisauglýsingar

Sem meðlimur í SÁÁ fagna ég fyrirhuguðu frumvarpi um bann við áfengisauglýsingum. Það er mikilvægt skref og jákvætt. En betur má ef duga skal. Hrikalegt flóð áfengisauglýsinga frá útlöndum dynur daginn út og inn á saklausri æskunni og þeim sem enga freistingu mega sjá án þess að falla fyrir henni. Ég er að tala um sjónvarpið. Svo virðist sem réttsýnin og skynsemin sem felst í að banna ALVEG áfengisauglýsingar hafi ekki náð að skjóta jafn góðum rótum á Íslandi og víða í hinum stóra heimi. Íþróttakappleikir í útlöndum eru margir hverjir kostaðir af brugghúsum sem jafnframt selja vöru sína hér á landi. Ég hvet félagsmenn í samtökunum að fylgjast vel með úrslitaleik Meistardeildar Evrópu 28. maí, hvort þar séu ekki alveg örugglega framin brot á íslenskum lögum um bann við áfengisauglýsingum. Þetta er vitaskuld ótækt. Ef bannið á að virka og æskan og veikgeðja að halda velli verður að banna svona útsendingar, eða koma í veg fyrir með einhverjum tækniráðum að áfengið komi fyrir augu íslenskra íþróttaunnenda.

Haldi menn að sjónvarpið sé eini sökudólgurinn í þessum efnum eru þeir ekki vel með á nótunum. Yfir landið flæða tímarit sem auglýsa áfengi sem aldrei fyrr. Ef við ætlum að taka okkur alvarlega sem þjóð sem vill koma í veg fyrir áfengisbölið ber okkur að setja á fót nefnd sem hefur það á starfssviði sínu að banna tímarit eða rífa úr og sverta allar áfengisauglýsingar í þeim sem hljóta náð fyrir augum nefndarinnar áður en blöðin berast áskrifendum eða í bókabúðir. Það mætti gera þessa nefnd að deild í Fjölmiðlastofu og skapa þannig fjölmörg viðbótarstörf hjá ríkinu.

Áfengisstofa, eins og það mætti etv. kalla hana gæti líka haft netið á sinni könnu, en eins og flestir vita er mikið um áfengisauglýsingar á netinu, svo mikið að furðu sætir að áfengisbölið skuli ekki vera meira vandamál en það þó er. Með nútímatækni mætti loka fyrir eða sverta allar áfengisauglýsingar á netinu. Eitt og sér myndi þetta skapa fleiri störf hjá ríkinu, en tapast hjá einkageiranum, vegna hins fyrirhugaða algera auglýsingabanns. Það er nú líka miklu göfugra að vinna við slík hátæknistörf en lágtæknistörf eins og bruggun eða auglýsingagerð.

Við blasir að næsta skref, og það heillavænlegasta, er vitaskuld að banna áfengi alfarið í landinu. Byrja á því að draga úr opnunartíma ÁTVR, til dæmis hafa bara opið á miðvikudögum milli sjö og átta að morgni, stytta opnunartíma veitingahúsa smátt og smátt og fækka um leið tegundum áfengis sem þau mega selja. Að sama skapi ætti að minnka stórlega skammtinn fljúgandi vegfarendur mega hafa með sér inn í landið og leggja svo áfengissölu niður í fríhöfninni.

Þeir sem benda á slæma reynslu af áfengisbanni á bannárunum eru bara alkóhólistar og úrtölumenn. Glæpamenn hafa alltaf verið til og verða alltaf til. Áfengis- og vímuefnabann hvetur ekki til glæpa, það sýnir reynslan frá Mexíkó. Það er staðreynd að áfengi er böl og ég er einn þeirra sem tel að það böl megi leysa með einu pennastriki. Falleg framtíðarsýn, ekki satt?

Ég er viss um að margir telja óraunhæft að hægt sé að banna áfengi algerlega á Íslandi. Á móti bendi ég á þá staðreynd að Talibönunum í Afganistan tókst mjög farsællega að loka sínu landi. Þótt það sé etv. ekki rétt að taka Talibanana sér til fyrirmyndar (kúgun kvenna, mannréttindabrot osfrv.), mega þeir þó eiga það að þetta gerðu þeir vel.

Til að koma í veg fyrir misskilning um aðild mína að SÁÁ þá vil ég taka fram að ég er ekki meðlimur í Samtökum áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann heldur í Samtökum áhugamanna um áfengismál. Deildin mín heitir Samtök áhugamanna um áfengismál sem aldrei hafa farið í meðferð en þyrftu kannski á því að halda, skammstafað SÁÁSAHFÍMEÞÁÞH. Markmið deildarinnar er að koma þeim skilaboðum á framfæri (með háði, ef ekki vill betur) að boð og bönn leysa ekki allan vanda og að það eigi að vera hvers og eins að meta áhættuna sem felst í að neyta áfengis eða annarra fíkniefna. Auk þess er markmiðið að hvetja alla frelsisunnandi menn til að sporna við fótum við æ meiri frekju þeirra sem telja sig vita betur hvað öðrum er fyrir bestu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband